Gönguferðin sem ég fór í með kynsystrum mínum sl. mánudag vakti til umhugsunar um stöðu kvenna.
Mig dreymir um þjóðfélag sem byggir á jafnrétti, ég vil engin sérréttindi umfram karlmenn en það væri voða gott ef jafnrétti jafnt á heimilum sem og vinnustöðum væri viðurkennt. En nú velti ég því fyrir mér hvort að konur yfir höfuð vilji jafnrétti en viljinn risti bara ekki nógu djúpt.
Ég tek dæmi frá sjálfri mér til að útskýra aðeins hvað ég á við; ég fór einu sinni í atvinnuviðtal og þegar ég var spurð um launakröfur var ég alveg rosalega lítillát og ég sé enn þann dag í dag eftir því. Ég veit ekki hvort ég hélt að ég myndi síður verða ráðin ef ég gerði of háar kröfur eða hvað.
Þegar ég bjó með barnsföður mínum var ég alltaf að kvarta undan því að hann tæki ekki nægan þátt í húsverkunum. En... ég vildi velja hvað ég gerði og ég bannaði honum meira að segja að gera það sem honum fannst skemmtilegt eins og að þvo þvott. Ég treysti honum bara ekki nógu vel. Mistök, verð ég að segja. Maðurinn missti allan áhuga á að taka þátt í þessu, sennilega vegna þess að honum var skipað fyrir en ekki leyft að koma með frumkvæði.
Ég menntaði mig í “kvennastarf” og það skiptir mig eiginlega ekki máli hvort ég skipti um starfsvettvang því að launin eru svipuð. Í núverandi starfi er ekki gerð krafa um háskólamenntun svo að launin eru í samræmi við það. ;-(
Hvernig getum við konur breytt þessu? Er nóg að mæta í göngu á kvennafrídaginn á þrjátíu ára fresti?
Er nóg að segja þegar auglýsingin frá VR birtist á skjánum; já þetta er alveg rétt eða þetta er góður punktur!... ?
Einn hlutur sem ég er stolt af í sambandi við mannréttindi kvenna: ég nota alltaf kosningaréttinn. Mér finnst það lágmarksvirðing við þær konur sem börðust fyrir því að við, dætur þessa lands, gætum gengið í kjörklefana og lagt okkar atkvæði á vogarskálarnar. Gleymið því ekki vinkonur mínar að einu sinni þóttum við ekki búa yfir nægilegri dómgreind til að kjósa!
Hvað finnst ykkur um þetta? Gaman væri að heyra ykkar sjónarmið!