dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

föstudagur, október 28, 2005

Fyrsti vetrarsnjórinn...

Eins og aðrir eyjabúar vaknaði maður upp við fremur kaldan draum í morgun. Allt komið á kaf í snjó. En sem betur fer þá er maður svo samviskusamur að vera kominn með naglana undir bílinn og hafði rænu á að púsla honum inn í bílskúr í gærkvöldi (ég segi púsla því að mér dettur alltaf í hug IKEA auglýsingin þar sem gaurinn þurfti að raða draslinu inn í bílinn til að koma honum í skúrinn. Þetta er svo sem ekki alveg eins slæmt hjá mér en samt flýgur þessi ímynd alltaf í kollinn á mér þegar ég smokra kagganum framhjá sláttuvél, skóflum, dekkjum og fleira dóti. :)
En mér finnst alltaf nett skondið hvað við verðum alltaf hissa þegar fyrsti snjórinn fellur og líka við þurfum alltaf að vera að minnast á það hvað veðrið er slæmt í dag. En það er kannski vegna þess hvað við erum með fjölbreytt veðurfar og líka vegna þess að veðrið skiptir okkur hreinlega máli t.d. ef við ætlum að fara með Herjólfi eða flugi.
En nóg um það!

Mér finnst þetta bara kósi og hlakka til helgarinnar innandyra eða utan ef þannig liggur á manni.

Ein spurning, vitið þið hvar maður fær stöng fyrir sturtuhengi? Ekki neina venjulega plast eða plasthúðaða sturtustöng heldur á hún að vera krómhúðuð og festingarnar eiga að vera smá gamaldags. Ef þið munið eftir að hafa séð svoleiðis hér á landi og vitið hvar hún fæst þá þætti mér vænt um að þið mynduð setja fram komment um það. :-)

Bless í bili!

P.s. þolið þið auglýsinguna um "bestir strákarnir"? á stöð tvö? Þetta r er búið að fara verulega í taugarnar á okkur mæðginum!...;-(

fimmtudagur, október 27, 2005

Hvar eru konur raunverulega staddar í okkar yndislega þjóðfélagi?

Gönguferðin sem ég fór í með kynsystrum mínum sl. mánudag vakti til umhugsunar um stöðu kvenna.

Mig dreymir um þjóðfélag sem byggir á jafnrétti, ég vil engin sérréttindi umfram karlmenn en það væri voða gott ef jafnrétti jafnt á heimilum sem og vinnustöðum væri viðurkennt. En nú velti ég því fyrir mér hvort að konur yfir höfuð vilji jafnrétti en viljinn risti bara ekki nógu djúpt.

Ég tek dæmi frá sjálfri mér til að útskýra aðeins hvað ég á við; ég fór einu sinni í atvinnuviðtal og þegar ég var spurð um launakröfur var ég alveg rosalega lítillát og ég sé enn þann dag í dag eftir því. Ég veit ekki hvort ég hélt að ég myndi síður verða ráðin ef ég gerði of háar kröfur eða hvað.

Þegar ég bjó með barnsföður mínum var ég alltaf að kvarta undan því að hann tæki ekki nægan þátt í húsverkunum. En... ég vildi velja hvað ég gerði og ég bannaði honum meira að segja að gera það sem honum fannst skemmtilegt eins og að þvo þvott. Ég treysti honum bara ekki nógu vel. Mistök, verð ég að segja. Maðurinn missti allan áhuga á að taka þátt í þessu, sennilega vegna þess að honum var skipað fyrir en ekki leyft að koma með frumkvæði.

Ég menntaði mig í “kvennastarf” og það skiptir mig eiginlega ekki máli hvort ég skipti um starfsvettvang því að launin eru svipuð. Í núverandi starfi er ekki gerð krafa um háskólamenntun svo að launin eru í samræmi við það. ;-(

Hvernig getum við konur breytt þessu? Er nóg að mæta í göngu á kvennafrídaginn á þrjátíu ára fresti?
Er nóg að segja þegar auglýsingin frá VR birtist á skjánum; já þetta er alveg rétt eða þetta er góður punktur!... ?

Einn hlutur sem ég er stolt af í sambandi við mannréttindi kvenna: ég nota alltaf kosningaréttinn. Mér finnst það lágmarksvirðing við þær konur sem börðust fyrir því að við, dætur þessa lands, gætum gengið í kjörklefana og lagt okkar atkvæði á vogarskálarnar. Gleymið því ekki vinkonur mínar að einu sinni þóttum við ekki búa yfir nægilegri dómgreind til að kjósa!

Hvað finnst ykkur um þetta? Gaman væri að heyra ykkar sjónarmið!

mánudagur, október 24, 2005

Kvennafrí...

Eftir ball Sálarinnar síðastliðið laugardagskvöld er maður allur að skríða saman. Stebbi er bara sætur og var það alveg þess virði að sjá hann þó að maður fengi eins og fjóra bjóra yfir sig, stigi í glerbrot og polla, fengi þrjóska klósettpappírsræmu undir skóinn og næstum því glóðarauga eftir koss. Annað var bara fínt. Gaman að hitta Hildi Sæ, Aldísi og Stevo. Verst hvað Hildur var lengi að jafna sig eftir að hafa kastað frá sér virðulegum manni sem gerðist aðeins of ágengur! ;-) En nóg um það að sinni.

Í dag yfirgaf ég vinnustað minn nokkru fyrr en venjulega og hélt af stað í kröfu/samstöðugöngu með öðrum konum í tilefni þess að liðin eru 30 ár frá kvennafrídeginum. Frétti að ég hefði verið í þeirr göngu líka! Ekki skrítið kannski að maður hafi aldrei tollað með neinum? Eða nei annars það þýðir víst ekki að kenna því um hvað maður er glataður í sambúð. Sem ég er held ég ekki, hef bara ekki hitt þann eina rétta sem gerir það sem ég vil án þess að ég þurfi að láta vita í hvert sinn.

Annars er ekki baun að frétta. Ég er ekki alveg búin með baðið en það er allt á leiðinni. Minn persónulegi ráðgjafi vestanhafs, hefur miklar áhyggjur af framgangi mála (mætti halda að hann hefði skilið barnið sitt eftir hérna). Við erum ekki alveg sammála um stílfræðilegt atriði en ég held samt að ég bakki og leyfi honum að ráða þessu. Eitthvað með að blanda ekki saman of mörgum elementum. Útskýri þetta kannski síðar!

Sonur minn er í skýjunum eftir að hafa fengið sendingu frá bestu vinkonu okkar í Ameríku. Sendingin innihélt Svarthöfðabúning og geislasverð. : )

Við erum aðeins byrjuð að undirbúa Hrekkjavökuna. Settum beinagrind í eldhúsgluggann og múmíu í herbergisgluggann minn. Svo er ég búin að slá saman nokkrum krossum til að búa til "kirkjugarð" á blettinum. Endilega að skoða næsta mánudag! :-) Ef þið verðið ekki of hrædd, það er að segja!

Jæja ég er farin að sofa, sí jú

fimmtudagur, október 20, 2005

Mest lítið að frétta...

Æ, það er mest lítið að frétta hjá mér í augnablikinu. Baðherbergið er að koma til, komið klósett en ekki seta, blöndunartæki en ekkert vatn, hálf búin að kítta í horn og kverkar o.s.frv.Þetta kemur allt einhvern tímann vona ég. Gærdagurinn var ekkert rosalega prúdúktífur en ég fór samt á tónfund hjá syni mínum. Það var voðalega notalegt. Mér finnst alltaf gaman að sjá blessuð börnin spila á hljóðfærin sín og söngurinn er líka skemmtilegur.

Ég læt vita af mér síðar og við sjáumst í Höllinni! Eru ekki allir annars á leiðinni á ball með Sálinni? ...ég ætla nú bara að vona það! Langverst þykir mér að Sóley skuli ekki hafa skipulagt ferð á klakann í þessu tilefni! :-)

þriðjudagur, október 18, 2005

Ég á eina frænku...


...í Noregi sem heitir Lotta. Hún er bæði falleg og góð en ákaflega athyglissjúk kona og einstaklega hrifin af Brynjari hennar Möttu frænku okkar. Brynjar er náttúrulega veikur fyrir svona fagurri konu en Matta hefur þó alltaf vinninginn þar á bæ. Sem betur fer. En mér finnst samt alveg svakalegt þegar konur utan sambandsins eru farnar að stjórna drykkjuháttum manna. En Brynjar var að fíla það að hafa Lottu hringjandi í sig í tíma og ótíma, segja sér hvenær komið væri nóg af göróttum drykkjum og síðast en ekki síst að gera allt hvað hún gat til að kyssa hann. Það stóðst hann víst ekki lengi og varð uppi fótur og fit þegar vinur hans varð vitni að þessum ósóma. En sem betur fer er Matta frænka mjög göfuglynd kona og aumkaðist hún yfir þau skötuhjú Brynjar og Lottu og fyrirgaf þeim kossaflangsið. En hér birtist lokst mynd af Lottu og kannski er það í fyrsta sinn sem sú heillandi stúlka kemst með ljósmynd af sér á alnetið. :-)

Lotta ég vona að þú hafir það gott í Noregi og vonandi sjáumst við í Herjólfsdal á næstu Þjóðhátíð. En lofaðu mér bara einu: láttu Brynjar í friði. Ég er ekki viss um að Matta þoli þetta tvisvar í röð!

Heja til Norge.

mánudagur, október 17, 2005

Þrældómur og kómatóst...

Gott kvöld. Voðalega er maður búinn að vera krumpinn síðustu daga! Ég eyddi aðfaranótt laugardags á mjög skapandi hátt. Brjálað að gera hjá minni að fúga í flísarnar. Ég hefði ekki trúað því fyrirfram hvað þetta er mikil þrælavinna. En maður getur víst lært flest og hvers vegna ekki flísalagnir? Þetta er óskaplega skapandi. : )
Laugardagurinn var svo tekinn snemma með gönguferð sem varð styttri en áætlað var en samt fín. Það sem eftir lifði dagsins fór í smá kómatóst og þrif á umtöluðum fúgum.
Sunnudagurinn leið á svipaðan hátt nema að við bættist sundferð með syninum og vikuleg Blokkarheimsókn til afa og ömmu. Alltaf ljúft að koma þangað.

Á prógramminu er að fara á ball með Sálinni í Höllinni um helgina. Mikið verður það nú skemmtilegt. Vonandi sjá sem flestir af vinum mínum sér fært að mæta.

Ég er á fullu að setja inn myndir í albúmið mitt á netinu. Setjið inn komment ef þið viljið sjá og ég sendi ykkur krækjuna í tölvupósti.

Jæja ég er farin að setja the caulk in the corners of my bathroom (lesist: pútt ðe kokk in the korner) What a wonderful name of a produkt!! ?
Gamansaman...

föstudagur, október 14, 2005

Myndir frá Hornafirði og Listasafni Íslands



T.h.:Þessi var tekin á Hornafirði. Vinir að hoppa á trampólíni. Takið eftir bakgrunninum; tveggja milljón króna útsýni..


T.v.: Þessi var tekin síðasta daginn. Við fórum á Listasafnið að skoða verk eftir Erró eins og þið sjáið á bakgrunninum. Hér er Aaron í fínu íslensku lopapeysunni sinni.

fimmtudagur, október 13, 2005

Desember?...??'

Ég fékk frábæra heimsókn í gær. Vinur minn mætti með flísaskera og skar allar flísarnar í gólfkantinn fyrir mig. Svo límdi ég þær á og nú á ég bara eftir að fúga og festa gullið á. Hann kom með frábæra hugmynd í sambandi við skápinn sem Aaron setti inn í vegginn. Ég ætla að bræða hana með mér og ég gæti trúað að maður dundi sér eitthvað í þessu fram að jólum. Þetta var frábær aðstoð og mun ég verða eilíflega þakklát. : )

Annars er nú ekki margt að frétta héðan úr snjónum. Ég hrökk alveg við á þriðjudaginn, hélt að ég hefði misst af einhverju því að ég gat ekki betur séð en að það væri desember úti en ég ennþá í október. Og ég hvorki búin að gera hreingerninguna né kaupa eina einustu jólagjöf, hvað þá að skrifa jólakortin. Það hefði svo sem ekki verið neitt nýtt þannig lagað en nú á það að breytast því nú er það ekki námið sem heldur mér frá jólaundirbúningi. Það á að taka þetta með trompi í ár, vera búin að öllu um mánaðamótin nóv/des og sötra svo jólaglögg og skrifa jólakort í desember, fara á tónleika, jólahlaðborð og fleira skemmtileg. Ég hlakka til.

Mig langar ennþá til útlanda en verð víst að slaka aðeins á í bili. Langar samt.

Jæja bless í bili ég verð að drífa mig.

miðvikudagur, október 12, 2005

Home alone

Jæja þá er Aaron minn farinn heim til sín. Og það er voðalega tómlegt í kotinu hjá mér. Skrítið hvað maður er eigingjarn. Núna vil ég bara hafa hann hérna hjá mér til að halda mér félagsskap. Það var mjög þægilegt að hafa einhvern til að tala við á kvöldin og í hádeginu. Svoleiðis að núna drepleiðist mér. En hef samt alveg nóg að gera við að klára smotteríið sem er eftir á baðinu. Ég skar til dæmis nokkrar flísar til að setja efst á vegginn. Kláraði það. Ógeðslega dugleg og stolt af sjálfri mér. Núna á ég bara eftir að skera gólflista og líma upp GULL mósaíkið sem ég keypti í borginni í gær. Og já þú last rétt, þær eru úr skíragulli! Enda ekkert annað sem passaði við þetta glæsilega baðherbergi. Svo þarf ég að fúga og tengja tækin...þá er þetta komið. ; )

Núna langar mig að fara að plana næsta ferðalag. Mig langar að skreppa út eftir áramót. Ekkert lengi neitt. Bara aðeins. En við sjáum til.

Ég keypti mér geisladiska í borginni. Nýja diskinn hennar Heru. Hann er æðislegur. Svo keypti ég Coldplay sem er nýjasta uppáhaldið mitt. Og The Corrs, sem ég veit ekkert um nema að diskurinn sem ég keypti er með írskum lögum. Yndislega falleg tónlist. Alveg eins og ég fíla svo vel. Mæli með honum.

Við Aaron áttum alveg yndislegar stundir í borginni áður en hann fór. Við fórum út að borða á Tapas barinn á sunnudagskvöldið og í te á Kofa Tómasar frænda og svo á Listasafnið á mánudagsmorguninn að skoða verk Errós. Svo brunuðum við í Bláa Lónið og slökuðum okkur niður. Svo var það bara Leifsstöð og nokkur kveðjutár. Rosalega dapurt eitthvað. Maður er svo viðkvæmur að maður var með kökk í hálsinum langt fram eftir kvöldi. En það er að lagast.

Framundan er svo slökunarhelgi með syni mínum. Ætla að taka það rólega með honum, leigja vídeó og hafa það huggó.

Og svo er það sálarball í Höllinni þann 22. held ég. Ætla ekki allir að mæta?

Jæja þá er þetta komið í bili. Ég ætla að fara að sofa :)

laugardagur, október 08, 2005

Mynd úr Hákarlaveislunni.

Hér sitja þeir vinirnir Aaron og Jón Högni og gæða sér á hákarli. Takið eftir mexíkósku snittunum sem kvenfólkið kaus fremur en hákarlinn. : )

föstudagur, október 07, 2005

Bráðum...

Ég fæ bráðum nýtt baðherbergi. Meira að segja mjög fallegt baðherbergi og vel smíðað. Það er svo vel smíðað að þrátt fyrir að einhverjum vitleysingjum dytti í hug að gera sprengjuárás á okkar fögru eyju ætti það að duga sem sprengjuskýli. Og eins í jarðskjálfta. Gott að hafa það í huga. Munur að hafa svona fagurt og vel smíðað baðherbergi heima hjá sér. Sérstaklega þegar maður verður að skrapa kröfurnar úr yndislegu spa-baðkeri niður í ósköp venjulegan sturtubotn...: )
Myndirnar koma síðar...
Partýið verður líka haldið síðar...þrír inn í einu, einn í sturtu, einn á klósettið og einn við vaskinn. Komast ekki fleiri inn. Ja nema kannski tveir í sturtuna. Já, það er góð hugmynd. Sjáumst...

fimmtudagur, október 06, 2005

Myndlist, sviðakjammi, hákarl, brennivín og mexíkóskar snittur...

Í gær var gaman. Við fórum til Svönu og Inga Páls eftir kvöldmat. Oo það er svo notalegt hjá þeim, mig langaði mest að ná mér í bók og fá mér te. Þau sjálf eru svo yndisleg og listaverkin vekja góða tilfinningu og svo er andinn í húsinu bara svo yndislegur. Eftir smáskammt af list og notalegheitum fórum við í hákarlaveislu til Jóns Högna og Stefaníu. Það var gaman og frekar áhugavert, verð ég að segja. Jón Högni hafði reddað hákarli og ekki nóg með það heldur bauð hann Aaroni upp á svið í forrétt. Með þessu var svo drukkið brennivín. Hrikalega finnst mér sumir miklar hetjur að geta étið þennan viðbjóð. En Aaroni fannst þetta ekki svo slæmt þangað til að farið var að ræða verkunina á hákarlinum og í ljós kom að hann er staðsettur þannig að ammoníakið leki úr honum. Þá fann hann ammoníakbragðið og átti soldið erfitt. Svo fékk hann harðfisk í eftirrétt og kaffi með brennivíni út í.
Á móti þessum þjóðlega matseðli vorum við svo með mexíkóskar snittur/rúllur, doritos og heita mexíkóska ídýfu. Það var eitthvað meira fyrir mig. Þegar við komum heim þá var minn orðinn pínulítið grænn í framan og ég held að hann hafi ekki sofið mjög mikið í nótt fyrir óþægindum í maga. Ég er ekki frá því heldur að mér hafi fundist ég sjálf anga af hákarli og harðfiski bara af því að vera við hliðina á honum. En þrátt fyrir magaverki þá var þetta alveg súperstund fyrir útlendinginn og á hann eftir að minnast þessa kvöld með tregafullri sælutilfinningu. Svo voru nátttúrulega móttökurnar ekki slæmar, okkur voru sýnd frábær myndbönd sem Tómas Marshall hefur unnið. Mikið er sá drengur fær, greinilega mikill listamaður á ferðinni og ekki skemmir fyrir honum hvað hann er skemmtilegur í tjaldapartýi á Þjóðhátíð (sem er svona það mesta sem ég hef umgengist hann). Reyndar eru þau hjónin eða hjónaleysin kannski ótrúlega skemmtileg á Þjóðhátið. Mikill húmor í frúnni líka. : )

Núna er svo bara planið að fara til Rvk á laugardaginn og taka smá dekurhelgi áður en Aaron minn hverfur af landi brott. Það er ýmislegt á dagskránni t.d. sýning á verkum Errós í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, Bláa lónið á leiðinni út á flugvöll, út að borða, gönguferð, og kannski smá pöbbarölt. Jæja við sjáum til hvað okkur vinnst tími til að afreka mikið. Ég á örugglega eftir að verða eitthvað mikið einmana þegar hann verður farinn aftur út. Við erum alveg að verða eins og hjón og það er reyndar bara nokkuð notaleg tilfinning. Jæja, maður verður bara að vera duglegur að finna sér eitthvað að gera. En þangað til verður maður bara að njóta samverunnar. : )

Bless í bili.

þriðjudagur, október 04, 2005

Equilibrium...??

Við hættum við að mæta í matinn á Lundaballinu. Ég var svolítið þreytt eftir gönguferð dauðans fyrir hádegið. Klikkaði eitthvað á því að teygja á ristunum og svo eru skórnir mínir glataðir “utan vega”. Verð að fjárfesta í rándýrum skóm sem hannaðir eru af færustu sérfræðingum. Við sjáum til. Anyways við rifum okkur upp eftir miðnætti og kíktum heim til Lilju Ó. þar sem Hildur Sæ var mætt. Hún hafði látið þau orð falla að Ameríkaninn minn hefði nú bara gott af því að hitta fyrir alvöru villtar íslenskar konur. Ég sagði honum það rétt áður en við gengum upp útidyratröppurnar á Strembunni. Ég vildi að ég hefði verið með falda myndavél þegar hann leit á mig með óborganlegan svip á andlitinu. : ) Og Hildur hafði rétt fyrir sér, hann hafði bara gott af því. Og vill núna að ég temji mér íslenska villikvenmennsku (mínus atriðið hennar Hildar: ) En við sjáum nú bara til með það. Þegar við loksins hundskuðums á ballið var klukkan langt gengin í þrjú. Og það verður að játast að maður var orðinn ansi hress í heitu/sætu skotunum á barnum. Áttaði mig á því á leiðinni heim að jafnvægið var horfið út um gluggann. Some people needed a sight seeing walk. þ.e. langaði að skoða útidyrahurðina á Landakirkju aðeins í myrkrinu. Mér fannst það jaðra við helgispjöll að eiga svona erfitt með að ganga beint svona nálægt guðshúsinu. Ó mæ god, sem betur fer gerist þetta nú ekki oft. Svo loksins þegar við komum heim þá ætlaði ég bara að falla til svefns í öllum fötunum (ávísun á kvalafulla vakningastund) en nei nei, ekki í boði. Þú, vina mín, skalt núna drekka að minnsta kosti jafn mikið magn af vatni og þú innbyrtir af bjór. Og mikið rosalega var það erfitt maður. Það þurfti að pína sig verulega en eftir 1-1,5 lítra af vatni þá hresstist ég nú all svakalega. Eiginlega svo svakalega að ég svaf bara í 3 klukkutíma og gat svo ekki sofið meir. Þannig að ég skrapp í gönguferð fyrir klukkan 12 á hádegi. Steinstaðahringinn. Vá hvað það var gott að ganga þetta úr sér í sjóroki og sól til skiptis. Maður kann þetta bara ekki lengur.

Um kvöldið horfðum við á “Ég lifi” um eldgosið. Það var gaman og merkilegt, ég hafði aldrei séð hana áður. Nóg um það.

Mér finnst ég eitthvað heft þessa dagana. Tilfinningalega sko. Veit ekki alveg hvernig ég á að láta með sjálfa mig. Það verður að koma í ljós. Vont að vera svona klikkaður stundum. Mér finnst eitt í dag og annað á morgun. Veit ekki alveg hvert ég stefni. Finnst samt að ég stefni á eitthvað jákvætt. Mig langar að fara í framhaldsnám og þá helst ekki í fjarnámi takk fyrir. Mig langar að flytja til útlanda og læra. Mig langar að njóta lífsins og breyta til. Mig langar að rækta listina, læra ljósmyndun, fara á myndlistanámskeið, yrkja ljóð og jafnvel skrifa eitthvað. Finnst ég standa á krossgötum vegna þess að ég á eftir að þrengja hringinn í sambandi við þetta nám. Velja land og fag. Svo væri ekki verra að öðlast starfsreynslu í mínu eigin fagi áður.

Núna er tími sjálfsræktunar í mínu lífi. Það kannski þess vegna sem mér finnst ég svona heft. Er að vinna í að komast að því hvað ég vil og hvaða tilfinningar bærast í brjósti mínu gagnvart lífi mínu og tengslum við annað fólk. Mér finnst ég nokkurs konar hellisbúi sem er nýsloppinn út úr hellinum en er með ofbirtu í augunum. Jæja, við sjáum bara til hvert þessar hugleiðingar leiða mig.

Lifið heil!