dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

mánudagur, júlí 31, 2006

Veistu hvar himnaríki er?

Mamma? Veistu hvar himnaríki er? Ætli það sé á svona skýi sem er enn ófundið? Ætli það sé úr gulli? Ætli það sé ekki alveg til himnaríki? Ég vona það.

Engill

Mamma? Veistu hvernig englar líta út í alvörunni? Hefurðu hugmynd um það? Ég held ég viti nefnilega hvernig þeir líta út. Þeir eru bara svona venjulegir, í fötunum sínum og skónum nema með vængi. Og þeir fljúga ekki heldur svífa þeir bara um undir skýjunum. Ég sá nefnilega langafa Gísla með svoleiðis þegar afi var einu sinni að sækja mig á leikskólann Betel. Hann var bara eins og hann var um höfuðið og í fötunum sínum og skónum og með vængi. Hann sveif bara svona um. Flaug ekki eins og fugl eða neitt svoleiðis.

sunnudagur, júlí 30, 2006

Mamma, hvort er sérstakara: Guð sjálfur eða gjafirnar hans?

Hugsaðu þig vel um! Ertu ekki viss? Okei, hugsaðu þér að þetta væri Mozart, hvort er sérstakara fyrir okkur, hann sjálfur eða tónlistin hans? Myndum við vita eitthvað um hann ef hann hefði ekki samið þessa tónlist?

Já, barnshugurinn ferðast víða.

Nú er júlí bráðum liðinn og margt hefur á dagana drifið. Síðasta færsla mín var bara ansi glaðleg. Vatnsslagur á bílaplani, brúðkaupsafmæli, skemmtilegt stefnumót við gamlan vin o.s.frv. En síðan þá hefur ýmislegt breyst. Hann Runi, pabbi hennar Sóleyjar minnar lést skyndilega aðfaranótt 9. júlí. Blessuð sé minning hans. Mikill missir af slíkum manni. Einstakur húmoristi og alltaf samur við sig. Ég var að vonum glöð að sjá Sóley mína og Lokesh en kringumstæður voru afar sorglegar. Á slíkum stundum staldrar maður gjarnan við og hugsar um lífsins gang og aðferðir manns við að lifa því. Enn ein áminningin um að staldra við og njóta ilms rósanna við göngustíginn. Það gefur lífinu lit og hjálpar við að sjá hinn raunverulega tilgang þess bak við amstur og leiðindi hversdagsins. Þann 21. júlí lést svo ástkær föðursystir mín, hún Ingibjörg Johnsen. Hún var mér alltaf svo góð og minnist ég hennar fyrir litríkan persónuleika og alltumvefjandi mannkærleik. Ein af fyrstu æskuminningum mínum tengjast heimsókn til hennar á Skólaveginn með pabba mínum. Ég held ég hafi verið fjögurra ára. Hún var svo góð og ég man hvað ég var feimin og kvíðin að fara inn. En hún tók málin í sínar hendur og feimnin hvarf á augabragði. Í hvert sinn sem ég átti leið fram hjá Blómaverslun Ingibjargar hóaði hún í mig í spjall. Mér þótti alltaf nokkuð til koma að þessi góða kona væri frænka mín. Ég þekkti nefnilega ekkert sérlega marga úr föðurættinni á þessum tíma en hún sá um að viðhalda tengslunum.

Þann 22.júlí gekk hann Baldvin Johnsen (fyrsti frændi minn) svo í hnapphelduna. Frú Aldís var að vonum glæsileg brúður og brúðkaupið fallegt og glæsilegt og lét hinn ungi Draupnir Dan ekki sitt eftir liggja til að gera daginn ógleymanlegan.

Þann 23. var svo haldið í stórborgina með soninn á stefnumót við Thalíu. Í Borgarleikhúsinu stundaði hann þrotlausar leiklistaræfingar í fimm daga og var afraksturinn barinn augum í lokinn. Að sjálfsögðu stóð leikarinn ungi sig frábærlega eins og hann á ættir til. Í þeirri sömu ferð afrekuðum við einnig að sjá þrjár kvikmyndir; Superman returns, Over the Hedge og Pirates of the Caribean ásamt nokkrum heimsóknum og matarboði. Ég náði líka fjórum dögum í Laugum og er ekki eftirsjá í þeim tíma. Í lokin splæsti mín svo á sig Baðstofuaðgangi og naut þess í rúmlega tvo klukkutíma. Hefði reyndar getað verið lengur og langar aftur sem fyrst. Mmm, ég svitna ennþá tropical og menthol ilmi til skiptis. *hehe* Toppurinn var sturta sem ýrði yfir mann ilmandi hitabeltisvolgum vatnssprænum og svo jöklasturtu til skiptis (brá reyndar hrikalega fyrst þegar ísvatnið helltist yfir mig en það vandist og var ég eins og smákrakki á tökkunum þegar frá leið). Samantekt: Laugar eru þess virði. Reyndar verður maður aðeins að loka augunum fyrir illa þjálfuðum smástelpum í pæjuleik í afgreiðslunni. Reyndar aðallega bara einni en sumar voru bara fínar. Kennararnir voru frábærir og aðstaðan náttúrulega bara þannig að manni hrýs hugur við að mæta aftur í Hressó. Einhvern veginn fölna flestir hlutir við samanburð. En maður verður þá bara að sleppa samanburðinum.


Að lokum...hvort er sérstakara fyrir ykkur; Guð sjálfur eða gjafir hans?

fimmtudagur, júlí 06, 2006

Kónguló svo fín...

Í fyrrnefndri þvottaferð hittum við Lindu Björk sætustu frænkuna mína. Hún kallaði til mín með þær fréttir að hún hefði fundið kónguló.
Ása, sérðu hvað hún er fín!? (Barnið hélt á kvikindinu í hendinni!).
Já, segi ég, ertu búin að sýna mömmu þinni hana?
Já, svarar barnið.
Og hvað? Finnst henni hún ekki fín?
Júú...og ég er ekki bara búin að finna eina...ne-ei...heldur tvær nei þrjár!

ÆÐI!!!! Börn eru yndisleg!

*hehehe, sér fyrir sér andlitið á móður barnsins þegar það réttir fram höndina með kóngulónni, ekki alveg það vinsælasta á þeim bænum*

Vatnsslagur á bílaþvottaplani.

Ill nauðsyn rak mig til að brúka sólskinið og bruna á drekanum á bílaþvottaplanið við Tvistinn. Ekki beinlínis í frásögur færandi en samt sem áður þá var rúmlega kominn tími á að ryksuga drekann og var gólfmottum svipt út og sonurinn látinn skrúbba þær vel. Móðirin ryksugaði bílinn og varð eitt hundrað krónum ríkari fyrir vikið. Fann reyndar ýmislegt annað en minna verðmætt. Þegar ryksugun var lokið var bíllinn færður að vatnshönunum og fékk sonurinn það hlutverk að bleyta bílinn til að mamma gæti sápað og skrúbbað. Í lokin vorum við komin með sitthvorn vatnskústinn og farin að sprauta á hvort annað. Rosalega var það skemmtilegt. Ég áttaði mig nefnilega á því þegar ég kvartaði í þriðja eða fjórða skiptið undan því að drengurinn missti úðann á mig, hvað ég var eitthvað leiðinleg og samansaumuð. Ég var samt nokkuð fljót að átta mig og sprautaði aðeins á hann á móti og þar með var allt orðið ferlega skemmtilegt. Mjög gott fyrir sálina að fara í vatnsstríð við börnin sín!

Kristall

Í dag eiga foreldrar mínir kristalsbrúðkaupsafmæli! Ég óska þeim til hamingju.

Hvimleiði

Það er greinilega komið sumar þar sem ég á orðið erfitt með að anda ef ég ekki úða í nefið á mér steraúða sem vill endilega að ég sofi nánast allan sólarhringinn. Hvimleiður andskoti hreint!

Leiðrétting

Fyrst skal tekið fram að ég hitti Kela á laugardagskvöldinu en ekki föstudagskvöldinu eins og kemur fram í síðustu færslu. Betra að árétta það ef Keli skyldi fara á límingunum yfir að hafa farið svona hrikalega dagavillt.

miðvikudagur, júlí 05, 2006

Svæsnar sögur úr stórborginni!!

Fór í stutta ferð í borgina. Ferðin var með eindæmum ágæt þó stutt væri. Mér fannst ég vera að fara í svaka frí. Fór með seinni ferð Herjólfs á föstudegi og til baka með fyrri ferð á sunnudegi. Getur nú ekki talist sérlega langt frí en smá tilbreyting þó. Afrekaði að spandera nokkrum krónum í nokkrar flíkur, skó og veski aðallega. Náði samt ekki að fjárfesta í þeim hlutum sem áætlað hafði verið að fjárfesta í. Það bíður betri tíma. Hápunktur ferðarinnar var að hitta Kiddu vinkonu á föstudagskvöldið og svo Kela minn á föstudagskvöldinu. Keli býr í Noregi með fjölskyldu sinni en var í heimsókn á Klakanum í nokkra daga. Það var alveg frábært að hitta hann aftur eftir nokkuð langan tíma. Keli er einn af þeim sem veita mér innblástur bara með ósköp venjulegu spjalli. Hann er svo fróður og hugsandi. Hann hefur skoðun á flestum hlutum og er oftast nær mjög málefnalegur. Gott að eiga svona Kela. Vildi bara að ég gæti hitt hann oftar.

Fyrir utan þetta var aðallega svolgrað dásemdar Heslihnetu-latté...mmmm....ég held að ég hafi náð að drekka fjóra slíka á laugardeginum. Mæli með því! Soldið hress um kvöldið. Næsta dvöl verður eitthvað lengri og þá verður ábyggilega notað eitthvað aðeins sterkara en kaffi til að slökkva þorstann. Ekki?

Svo eru náttúrulega stórtíðindi að frétta ef það vita það ekki allir nú þegar. Þannig er að ég hef ákveðið að taka að mér kennslukonustarf í Barnaskóla Vestmannaeyja. Kannski mjög viðeigandi þar sem maður hafði fyrir því að mennta sig til slíkra starfa. Fannst bara nauðsynlegt að hvíla mig í eitt ár með því að BARA að vinna vinnuna mína. Ég vonast til að kennslustarfið veiti mér þann innblástur sem ég þarf. Og vonandi verður það gagnkvæmt...sem er tilgangurinn...*hehe*...en þetta verður allt að haldast í hendur.

Einni sem ég spjallaði við í gær varð að orði að ég yrði frábær kennari þar sem ég væri svo róleg!! Er það málið? Æ, ég held að það sé ókostur að vera of rólegur í kennarastarfi. En ég kýs að taka þessu sem hrósi þrátt fyrir það.

Þannig að dagar mínir á skattstofunni verða brátt taldir. Or so to speak! Fæ reyndar leyfi í eitt ár ef mér skyldi snúast hugur!

Jæja ég læt þetta gott heita í bili nema það að mig langar að frétta af Þjóðhátíðarlagi ársins 2006!!! Hvaða er í gangi?? Tell me!!