dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

miðvikudagur, mars 29, 2006

The new bathroom


The new bathroom
Originally uploaded by Ása.
Í forgrunni má sjá forláta klósettrúllustandinn sem hún Sóley hjálpaði mér að kaupa í Ameríku. Ég bar hana svo heim frá New York.
Eruð þið ekki sammála um að svona græja sé nauðsyn á hverju heimili? Alla vega er sonur minn mjög ánægður með að geta seilst í Andrés blöðin sín. ; - )

Nýja baðinnréttingin

Hér sést í nýja baðherbergið mitt. Mósaík plöturnar voru settar þarna til að fylla upp í "the boring place". (hehhe). En bara þangað til flísarnar á þröskuldinum eru orðnar fastar, þá get ég fúgað þetta og lokað sturtubotninum.



þriðjudagur, mars 28, 2006

Lífsmark...

Sælt veri fólkið. Ekki mikið að gerast hér nýlega en eitthvað lífsmark þó.
Árshátíð Hressó var ótrúlega skemmtileg, verð að segja það. Varði frændi hennar Jóhönnu kom út úr skápnum sem Leoncie og var mjög sannfærandi. Bara frábært.

Hálsbólga kom í heimsókn til mín í síðustu viku og neyddist ég til að játa mig sigraða á föstudag og laugardag. En allt á uppleið núna.

Ég var að koma af fundi í Alþýðuhúsinu þar sem kynntar voru og ræddar hugmyndir um framtíðarskipulag grunnskóla í Vestmannaeyjum. Ég á enn eftir að gera upp hug minn varðandi aldursskiptinguna. Þar eru margir kostir sýnilegir en auðvitað einhverjir gallar líka. Þetta var bara nokkuð málefnalegt og allt á léttu nótunum. Sumir voru æstir á móti en svo voru líka aðrir sem vildu eindregið aldursskiptingu. Ég held bara að fólk óttist í fyrsta lagi breytingarnar sjálfar. Ég held að faglega séð geti verið ákjósanlegt að aldursskipta. En það á eftir að kynna þetta betur og þá getur maður farið að mynda sér skoðun. Ég er enn að velta þessu fyrir mér.

Aðalfréttirnar af mér eru hins vegar þær að nú getur heimili mitt talist fólki bjóðandi og þess vegna stefnir allt í partí mjög fljótlega. Baðinnréttingin er sem sagt komin upp, vaskur og blöndunartæki líka og ég legg ekki meira á ykkur: forláta harðviðar-útihurð. Hún er æði. Verð að segja það.

föstudagur, mars 17, 2006

Nývöknuð á miðnætti...

Eina ferðina enn er kominn föstudagur og meira að segja næstum liðinn. Ég trúi því varla hvað tíminn líður hratt en það er svo sem ágætt.

Ég horfði á Idolið í kvöld og verð nú að segja að ekki heillaðist ég af einu einasta lagi. Eitthvað annað en um síðustu helgi þegar big bandið var með. Þá fannst mér allir mjög flottir og gaman að heyra í frábærum hljóðfæraleikurum. Reyndar var hljómsveit kvöldsins í kvöld skipuð eðaltónlistarfólki en mér fannst söngvararnir ekki ná sér á strik. En það er bara mín skoðun.

Ég er eiginlega nývöknuð því mér tókst að sofna með prinsinum en reif mig á fætur til að missa ekki algerlega af kvöldinu. Undanfarin kvöld hef ég einmitt verið að sofna með honum og vakna svona klukkan tvö eða hálf fjögur til að slökkva ljósin og taka úr þvottavélinni. Algjör hörmung. Maður verður bara þreyttari fyrir vikið.
En semsagt næstum miðnætti á föstudagskvöldi, ég nývöknuð og hef svo ekki neitt að gera þannig lagað. Ekkert sem ég nenni. Hversu glatað er það? En svona er þetta. Það verður nú eitthvað líflegra vonandi annað kvöld.

Undanfarið hef ég verið að hugsa um skoðanaheldni fólks. Mér finnst svo sniðugt hvað fólk stendur mismunandi fast á skoðunum sínum og er mis-umburðarlynt gagnvart skoðunum annarra. Ég á það til að þegja þegar fólk er í ham og málefnin eru mér ekki hjarfólgin. Bara svona til að halda frið. Stundum er ekki hægt að rökræða suma hluti. En það er bara ég. Svo þegar málefnin standa mér nærri þá get ég verið þrjóskari en sonur minn. Enda sverfur stundum í stálið okkar í milli. En það erum bara við. :-)

Jæja ég held ég fari bara aftur að sofa kæru vinir.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Betur en á horfðist...

Þessi hnakkavitleysa fór betur en á horfðist. Þrátt fyrir eymsli á fremur embarrashing stað var ég orðin fín á sunnudagskvöldið. Sem betur fer maður.

Laugardagskvöldinu var eytt í góðra vinkvenna hópi. Fröken Hildur smörrebrödsdame bauð í smástelpupartí sem heppnaðist með eindæmum vel. Allt náttúrulega leyndó sem þar fór fram. En mikið var hlegið og miklu uppljóstrað... *wink, wink*

Annars fór ég með fleipur um daginn þegar ég sagði að síðasta helgi væri númer 4 hjá mér í skemmtanagleði. Það er alls ekki rétt heldur ef vel er að gáð númer 5 og ef undanskilin er fyrsta helgin í febrúar þá eiginlega sú sjötta. Og fyrst þeir ákváðu að fresta hippaballinu þá ákvað ég að fara bara á árshátíðina hjá Hressó. Margo var nú ekki lengi að fá mig til að skipta um skoðun varðandi hana. Ég ætlaði að taka smá hlé á þessu útstáelsi en þökk sé Margo þá hef ég ákveðið að drífa mig bara. Það verður örugglega stuð þarna. Efast ekki um það.

Annars hefur nú bara verið nokkuð bjart yfir mér þessa vikuna. Eiginlega mjög bjart bara. Ég hlakka eitthvað svo til. Eitthvað óútskýrt dæmi. Fæ vonandi fljótlega að vita hvað það er.

Ég kveð að sinni.
Lifið heil.

laugardagur, mars 11, 2006

Hver ber ábyrgð á pulsuhnökkum?

Hverjum datt eiginlega í hug að búa til pulsulagaða hjólhnakka? Mér er spurn. Prófaði spinning í morgun og rifjaðist upp fyrir mér fjárans píningin sem fylgdi því. Mér finnst mjög skemmtilegt að hjóla á reiðhjóli en þessi eru með einhverjum örmjóum pulsum (eða svo gott sem) í staðinn fyrir hnakk. Maður er að drepast á frekar heilögum stað í augnablikinu. Örugglega komið sigg strax. Ég ætla pottþétt að velja nokkrum millimetrum breiðari hnakk næst og taka með mér púða úr stofusófanum heima hjá mér. Þó að ég verði að athlægi fyrir. Ég er orðin svo vön því þarna að ég lít bara þannig á að ég sjái þá fólki að minnsta kosti fyrir skemmtiefni. Geri aðrir bara betur.

Jæja, nýjasta tryllitækið á heimilinu er komið í gagnið. Safapressan langþráða hefur staðið sig í stykkinu undanfarna daga. Við mægðinin bondum alveg yfir þessu brölti og njótum þess í botn að búa til ljúffenga drykki úr ávöxtum og grænmeti og stundum skyri líka. Mmm.

Annars er ég í einhverri fýlu í augnablikinu. Skil ekki af hverju. Hlýtur að vera pulsuhnakkurinn sem orsakar hana. Eða þá að þetta eru adrenalín-cold turkey. Heheh.
En það er best að hrista það af sér sem fyrst.

Bless í bili.

Regndropar gleðinnar...

Gleðin birtist mönnum í margvíslegum myndum. Ein þeirra er meira að segja vot og köld. Hafið þið ekki prófað að fara út í rigninguna og þið áttið ykkur á að hún felur í sér svo mikla gleði? Maður finnur hana bókstaflega hríslast um sig frá hvirfli til ilja. Hrollkaldur straumur en samt svo hamingjusamur!
Alveg eins og kalda sólskinið sem skín inn um salta glugga vetrarins. Geislarnir þrýsta sér í gegnum saltið og óhreinindin og bora sér leið í gegnum sálarfylgnin þangað til þeim hefur tekist að lýsa upp huga okkar og gefa okkur von um betri og bjartari (mögulega hlýrri líka) tíð! Ég stóð samt einu sinni í skugga sólarinnar og mikið rosalega var nú kalt þar!

föstudagur, mars 10, 2006

Blámi sálar minnar...

Jæja eru ekki allir búnir að skila skattframtalinu sínu? Pottþétt!

Ég sé það að einmitt þegar ég óttaðist hið bláleita vetrarmyrkur Íslands sem mest þá tókst mér að binda þannig um hnútana að ég hefði ekki tíma til að hugsa út í myrkrið. Nú er morgunskíman farin að sýna sig þegar ég fer á fætur á morgnanna og tollir langt fram á kvöld þannig séð og þá hef ég ekkert að óttast. Mér finnst eitthvað svo sorglegt að fara á fætur í myrkri. Það er bara eitthvað svo LEIÐINLEGT og TRIST að ég þarf að berjast við löngunina til að skríða aftur undir ylvolga sængina og kúra þar fram í birtingu. En einhvern veginn þá gleymir maður þessu á meðan á því stendur. Óttinn við myrkrið knúði mig til að skipuleggja félagsviðburði í einkalífi mínu big time. Svo staðfastlega að ég hef ekki tíma til að velta mér upp úr leiðindunum heldur væri alveg til í að sjá fram á svona eins og eina helgi sem maður gæti bara dvalið heima hjá sér og gert nákvæmlega ekkert sérstakt annað en það sem mann langar til. Og það ætla ég að veita mér bráðum. Er búin að aflýsa mætingu minni á tvær skemmtanir um næstu og þar næstu helgi. Tek sem sagt fjórðu skemmti helgina í röð á morgun með smástelpupartíi (eða svo gott sem) sem ég mun mögulega tjá mig um að herlegheitunum afstöðnum.

Annars er mest lítið að frétta héðan úr lífi skólastúlkunnar fyrrverandi en þó enn síkátu. Lofkastalar mínir eru alltaf jafn glæsilegir og dægurflugurnar sýna sig nánast á hverjum degi en þær lifa stutt eins og eðli þeirra segir til um.

En að smá innri pælingum. Ég vaknaði upp við vondan draum nýlega. Varðandi samskipti mín við hið sterka? kyn. Ég hef áttað mig á því að ég þjáist af skammarlegri skuldbindingafælni (commitment-phobia) og áráttu-vænisýki (paranoia obsession). Við skulum ekki fara út í nein smáatriði í augnablikinu en þetta er mér áhyggjuefni sem líklega kostar meðferð færustu sérfræðinga í mannlegum samskiptum. Eða endar í framhaldsnámi með áherslu á sálfræði, hegðunarferli og atferlismótun einstæðinga (eins og hún Dýffa mín orðaði hjúskaparstöðu mína svo yndislega). En jæja hvað um það, í sambandi við áráttu-vænisýkina þá fer ég fram á að þið strjúkið egoi mínu um helgina. Það getið þið gert með því að kommenta eitthvað fallegt hér á svæðið eða hringja í mig og tjá mér hug ykkar til mín. (þið óframfærnu menn sem lesið þessa síðu, endilega kíkið í símaskrána og sláið á þráðinn) *tíhíi*

En jæja ég er horfin út í blámann í dag og bið að heilsa ykkur í bili.

Góða helgi.

föstudagur, mars 03, 2006

The bunny effect...

Nú er ég alveg búin að ofgera gulrótum í mínu lífi. Vá, hvernig er hægt að verða svo sjúkur í gulrætur og éta svo mikið af þeim að manni finnst maður vera kominn með loðin, upphá eyru, svaka fínar framtennur og dindil? Síðast þegar ég fékk OD af gulrótum þá gekk ég með VK. Og SKJ til hrellingar einkenndust matarinnkaupin oft af þeirri fíkn. Einn daginn kom ég heim með gulrótarbrauð, gulrótarmarmelaði, frosnar gulrætur í poka, gulrótarbuff og síðast en ekki síst GULRÆTUR í poka. Þá stappaði minn (fyrrverandi) maður niður fótunum og neitaði að taka þátt í þessu kanínugríni. (Hehehe). Gleymið ekki hollu gulrótartertunni sem ég bakaði fyrir gesti á þessari meðgöngu. (Ekki bakað hana síðan og búin að týna uppskriftinni).
Anyways þá er það hér með opinbert að ég er komin með ÓGEÐ á gulrótum.
En nóg um það.

Ekki svo sem margt að frétta. Er að fara í stórafmæli á morgun til hans Gulla skrifstofustjóra in da hás. Þetta verður svaka fjör, það er ég viss um.

Ég keypti svona táfýlusprey fyrir strigaskó í NYC og þegar ég kom heim áttaði ég mig á því að ilmurinn er frekar sterkur fyrir minn smekk. ;-/ en sonur minn er alveg sjúkur og úðar þessu nú grimmt í alla skó. Íbúðin angar þess vegna af strigaskó-táfýluspreyi. Frekar leim svona.

Jæja best að fara að koma dýrinu í rúmið. Væri nú gaman að hafa eitt dýr í rúminu (svona tæger villidýr eða eitthvað*wink, wink, nudge, nudge, say no more*... (Þetta hljóta að vera "the bunny effects from the carrots"...) Say no more...

miðvikudagur, mars 01, 2006

Blátt áfram...

Sonur minn sá Blátt áfram auglýsingu í kvöld.

Hann snarstoppaði og steinþagnaði. Þegar auglýsingunni var lokið leit hann á mig með augum sem líktust kolamolum, lagði hönd á bringuna á sér og sagði; vá mamma, ég fékk alveg sting í hjartað. Ég hélt bara að ég væri að fá hjartaáfall.

Mér finnst allt í lagi með þessar auglýsingar. Við höfum gott af því að fá áminningu um þennan hrylling.

Og tækifæri til að ræða við börnin okkar og fræða þau. Opna umræðufarveg. Láta þau vita að maður megi segja frá.