dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

sunnudagur, janúar 02, 2011

Látlausa jólafríið

Þetta jólafrí er eitt það friðsælasta sem ég hef upplifað um ævina. Við ákváðum að slúffa öllum fyrirætlunum um ferðalög um jólin og vera þess í stað heima og takmarkið var að gera sem minnst. Ég held að við getum verið nokkuð sátt með að hafa nokkurn veginn náð því takmarki.
Við elduðum önd á aðfangadagskvöld og tókst prýðilega. Eiginmaðurinn sá að mestu um að undirbúa og elda öndina ásamt því að útbúa eina bestu sósu sem ég hef bragðað lengi og ég sá um meðlætið. Þegar hann var að undirbúa öndina fyrir steikingu tók hann sig til og snöggsteikti lifrina á pönnu ásamt rauðlauk. Þessu gæddum við okkur á í hádeginu ofan á dásamlegum sneiðum af 4 korna þýsku brauði frá Littla Brauðfélaginu sem við höfum tekið ástfóstri við. Úr öðrum innyflum andarinnar varð svo til þessi undurgóða sósa eins og áður sagði. Öndin góða dugði okkur í nokkrar máltíðir og varð að risotto og svo að súpu. Mér til mikillar ánægju.

Á jóladag opnuðum við svo gjafir að enskum sið og að því loknu fórum við í jólaboð hjá vinafólki okkar. Það var mikið skemmtilegt og heimilislegt. Hjálpaði aðeins til við að komast yfir heimþrá og nostalgíu.

Í vikunni heimsóttum við svo vinafólk okkar sem býr 20 mílur vestan við bæinn okkar. Það var aldeilis upplifun þar sem þau halda geitur, kindur og hænsn. Því miður skall svo á fellibylur morguninn eftir og þau urðu rafmagnslaus og innlyksa. Við rumskuðum aðeins við þrumurnar en snerum okkur svo bara á hina hliðina. Fréttum ekki af því hversu alvarlegt þetta hafði verið fyrr en við fórum á fætur síðar um morguninn. Þetta var nokkuð sjokkerandi því að hvirfilvindurinn skall á einni mílu frá vinafólkinu okkar og þar varð bæði mannskaði og eignatjón. Við þökkum fyrir að vera heil á húfi.

Á gamlárskvöld fengum við svo óvænt heimboð til annars vinafólks og smökkuðum fína osta og drukkum kampavín með. Þetta dróst svo mikið að við borðuðum kvöldmatinn á miðnætti. Það var bara skemmtilegt og ekkert vandamál þar sem ég hafði undirbúið allt fyrr um daginn og þurfti bara að verma undir sósunni og grænmetinu.

Í dag nýársdag eigum við hjónin papprísbrúðkaup. Það er víst pappírs samkvæmt bandarískum hefðum en bómullar samkvæmt því enska. Þar sem við erum í Bandaríkjunum fögnum við því með pappír.
Við höfðum undursamlegan lax í matinn í kvöld. Hann fengum við fluttan hingað í gegnum fólk hér í bænum. Þetta hljómaði allt mjög dularfullt þegar við fengum sendinguna því það þurfti að vera manneskja til að taka á móti sendingunni á nákvæmum tíma á bensínstöð í útjaðri bæjarins. hehe...næstum eins og smygl eða eitthvað en ég reikna með að bílstjórinn hafi bara viljað halda áfram án óþarfa tafa. Ég er svo ánægð með laxinn að ég ætla að setja hér fram uppskriftina sem var nokkurn veginn heimatilbúin.

1 laxaflak, ca 450 gr.
handfylli af möndlum
7 döðlur
gróft salt
ferskur svartur pipar
1 mandarína
Appelsínu-chilli sósa (í mínu tilfelli var um að ræða misheppnaða sultu sem er bara nokkuð góð í matargerð)
amaretto líkjör
ólívuolia
smjör


Ofninn hitaður á 200°C
Möndlurnar malaðar gróft í matvinnsluvél, döðlunum bætt við og malað áfram þar til þetta er orðið frekar fínleg blanda.

Grófu salti dreift á smurða ofnskúffu og laxinn (hann var enn frosinn hjá mér) lagður með roðið niður ofan á saltið og ólívuolíu dreift yfir holdið. Börkur af hálfri mandarínunni rifinn yfir fiskinn og möndlunum dreift ofan á og nokkrir smjörbitar settir með.

Sett inn í 200 gráðu heitan ofninn í 10 mínútur. Þá lækkaði ég hitann í 180°C og bakaði áfram í aðrar 10 mín. Þá athugaði í fiskinn og hellti yfir hann smávegis af appelsínusósunni (2 msk) og amaretto líkjörnum (1 tappi). Bakað áfram í 10-12 mínútur í viðbót.

Takið fiskinn út úr ofninum og látið standa rétt á meðan lagt er á borð. Borið fram með fersku salati, steiktu spínati og kartöflum ásamt okkar dásamlegu sítrus-amaretto sósu. Hér er uppskriftin að henni:

Sítrus-amaretto sósa

mandarína
1&2 sítróna
amaretto
salt og pipar
1 msk rjómaostur
1 peli rjómi eða mjólk

Restin af mandarínuberkinum og sítrónubörkurinn rifinn í pott, safanum af mandarínunni og sítrónunni bætt við ásamt amaretto líkjörnum.
Hitað að suðu og þá er rjómaostinum bætt saman við ásamt smávegis af mjólk eða rjóma.
Þegar osturinn er bráðinn er rjóma/mjólk bætt við í slumpum og suðan látin koma upp á milli. Hrært vel. Saltað og piprað að smekk.

Þessi sósa passar líka með rækjum og sennileg humar og fleira sjávarfangi. Mér finnst hún unaðslega góð og þá hefur ferska lyktin af sítrusávöxtunum ekki lítið að segja.

Verði ykkur að góðu ef þið prófið.
Hér er mynd af laxinum góða rétt áður en fór á diskana:

Nú er dagur að kveldi kominn og einkasonurinn unir sér við píanóæfingar, eiginmaðurinn stúderar stærðfræðina sína og ég ætla að taka upp prjónana í stutta stund. Við eigum reyndar alveg eftir að gera origami þar sem það er nú pappírsbrúðkaup í dag. Spurning að skella sér í það áður en nóttin rennur upp.

Lifið heil og megi nýja árið verða ykkur og okkur farsælt og lukkulegt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home