dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

föstudagur, nóvember 05, 2010

Hversdagslegar hugleiðingar í Fay

Í augnablikinu er maður að stilla píanóið hans Valla Kalla. Hann sagðist öfunda mig af því að stofan mín líti út eins og frumskógarhús. Hann sagði líka að ég væri heppin að hafa fallegu haustlitina á trjánum núna. Það er víst ekki þannig í Tulsa þar sem hann býr. Jú, ég er einstaklega heppin að mörgu leiti. Lífið hefur leikið við mig að mestu en hefur einnig birt mér hyldýpi sorgar og missis. Þó ekki jafn mörg og sumum. En þetta átti ekki að verða einhver væmnispóstur í dag svo ég held bara áfram með hugleiðingarnar.

Undarleg hljóð hafa borist úr loftræstikerfinu í svefnherberginu undanfarinn mánuð eða svo. Við fengum meindýraeyði sem lagði beitu í rörið en ekki var hún nú snert. Maurunum hefur hins vegar fækkað verulega og ég hef ekki orðið vör við kakkalakka síðan þeir komu. Sem er hvort tveggja jákvætt. Dýraeftirlit borgarinnar kom svo í vikunni og setti upp gildrur til að freista þess að lokka í þær viðkomandi næturgest(i). Það byrjaði kostulega þar sem kötturinn sem býr á hlaðinu hjá okkur fór náttúrulega beint í gildruna. Beitan var líka kattamatur þannig að það mátti svo sem búast við því. Ég sleppti honum og skammaði hann duglega á íslensku. Spennti svo gildruna aftur en auðvitað fór hann strax í hana. Þá leyfði ég honum bara að dúsa þar fram á kvöld. Í það minnsta virðist það hafa dugað því að morguninn eftir var hann fjarri góðu gamni og pokarotta sat í gildrunni í staðinn. Sem er gott. Þannig hefur það verið undanfarna morgna en í morgun var gildran lokuð en viðkomandi hafði tekist að troða sér út. Sennilega mús eða álíka. Nú er hins vegar gildrutímabilinu lokið og ef ég vil fleiri þá verð ég að fara aftur á biðlistann. Sem ég ætla að gera því við vorum vakin kl 4.30 við þvílíku lætin, krafs og klór. Frekar hrollvekjandi svona þegar maður liggur varnarlaus undir sæng.

Ég er enn að bíða eftir vinnuleyfi hérna. Ég vona að ég geti fengið vinnu því það er spes að vera heimavinnandi. Hef reyndar aðeins verið virk í leiklistinni en veit ekki hvert það mun leiða mig. Kemur í ljós. Vonandi á góðan og skemmtilegan stað.

Mér finnst æðislegt að fara á bændamarkaðinn á miðbæjartorginu á morgnanna. Hingað til hefur hann verið á þriðjudögum og fimmtudögum auk laugardaga. Ég fíla fimmtudagsmorgnana best. Þá er minni asi og tími til að spjalla við áhugavert fólk. Fólkið er svo vingjarnlegt og afurðirnar svo girnilegar. Í nóvember verður hann bara á laugardögum og hættir svo fram í apríl. Það verður skrítið. En við finnum eitthvað út úr því.

Þetta er gott í bili. Lifið heil.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home