dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

sunnudagur, janúar 02, 2011

Pappírs

Hjónakornin ákváðu að halda upp á brúðkaupsafmælið með því að gera saman origami. Það á vel við því að bókina með uppskriftunum gaf hann mér þegar við vorum á ferðalagi í Japan fyrir tæpum tveimur árum. Í þeirri ferð fór hann á hnén og bað mín í lystigarði einum í Kanasawa. Rómantískt og fagurt var það. Sérstaklega þar sem einkasonurinn var með í ráðum og höfðu farið fram miklar rökræður og vangaveltur milli þeirra áður en leyfið var gefið til bónorðs. Það sem snerti mig líklega mest var að hann spurði okkur tvö hvort við vildum verða fjölskyldan hans og ég konan hans. Hér er svo mynd af afrakstri kvöldsins:


Látlausa jólafríið

Þetta jólafrí er eitt það friðsælasta sem ég hef upplifað um ævina. Við ákváðum að slúffa öllum fyrirætlunum um ferðalög um jólin og vera þess í stað heima og takmarkið var að gera sem minnst. Ég held að við getum verið nokkuð sátt með að hafa nokkurn veginn náð því takmarki.
Við elduðum önd á aðfangadagskvöld og tókst prýðilega. Eiginmaðurinn sá að mestu um að undirbúa og elda öndina ásamt því að útbúa eina bestu sósu sem ég hef bragðað lengi og ég sá um meðlætið. Þegar hann var að undirbúa öndina fyrir steikingu tók hann sig til og snöggsteikti lifrina á pönnu ásamt rauðlauk. Þessu gæddum við okkur á í hádeginu ofan á dásamlegum sneiðum af 4 korna þýsku brauði frá Littla Brauðfélaginu sem við höfum tekið ástfóstri við. Úr öðrum innyflum andarinnar varð svo til þessi undurgóða sósa eins og áður sagði. Öndin góða dugði okkur í nokkrar máltíðir og varð að risotto og svo að súpu. Mér til mikillar ánægju.

Á jóladag opnuðum við svo gjafir að enskum sið og að því loknu fórum við í jólaboð hjá vinafólki okkar. Það var mikið skemmtilegt og heimilislegt. Hjálpaði aðeins til við að komast yfir heimþrá og nostalgíu.

Í vikunni heimsóttum við svo vinafólk okkar sem býr 20 mílur vestan við bæinn okkar. Það var aldeilis upplifun þar sem þau halda geitur, kindur og hænsn. Því miður skall svo á fellibylur morguninn eftir og þau urðu rafmagnslaus og innlyksa. Við rumskuðum aðeins við þrumurnar en snerum okkur svo bara á hina hliðina. Fréttum ekki af því hversu alvarlegt þetta hafði verið fyrr en við fórum á fætur síðar um morguninn. Þetta var nokkuð sjokkerandi því að hvirfilvindurinn skall á einni mílu frá vinafólkinu okkar og þar varð bæði mannskaði og eignatjón. Við þökkum fyrir að vera heil á húfi.

Á gamlárskvöld fengum við svo óvænt heimboð til annars vinafólks og smökkuðum fína osta og drukkum kampavín með. Þetta dróst svo mikið að við borðuðum kvöldmatinn á miðnætti. Það var bara skemmtilegt og ekkert vandamál þar sem ég hafði undirbúið allt fyrr um daginn og þurfti bara að verma undir sósunni og grænmetinu.

Í dag nýársdag eigum við hjónin papprísbrúðkaup. Það er víst pappírs samkvæmt bandarískum hefðum en bómullar samkvæmt því enska. Þar sem við erum í Bandaríkjunum fögnum við því með pappír.
Við höfðum undursamlegan lax í matinn í kvöld. Hann fengum við fluttan hingað í gegnum fólk hér í bænum. Þetta hljómaði allt mjög dularfullt þegar við fengum sendinguna því það þurfti að vera manneskja til að taka á móti sendingunni á nákvæmum tíma á bensínstöð í útjaðri bæjarins. hehe...næstum eins og smygl eða eitthvað en ég reikna með að bílstjórinn hafi bara viljað halda áfram án óþarfa tafa. Ég er svo ánægð með laxinn að ég ætla að setja hér fram uppskriftina sem var nokkurn veginn heimatilbúin.

1 laxaflak, ca 450 gr.
handfylli af möndlum
7 döðlur
gróft salt
ferskur svartur pipar
1 mandarína
Appelsínu-chilli sósa (í mínu tilfelli var um að ræða misheppnaða sultu sem er bara nokkuð góð í matargerð)
amaretto líkjör
ólívuolia
smjör


Ofninn hitaður á 200°C
Möndlurnar malaðar gróft í matvinnsluvél, döðlunum bætt við og malað áfram þar til þetta er orðið frekar fínleg blanda.

Grófu salti dreift á smurða ofnskúffu og laxinn (hann var enn frosinn hjá mér) lagður með roðið niður ofan á saltið og ólívuolíu dreift yfir holdið. Börkur af hálfri mandarínunni rifinn yfir fiskinn og möndlunum dreift ofan á og nokkrir smjörbitar settir með.

Sett inn í 200 gráðu heitan ofninn í 10 mínútur. Þá lækkaði ég hitann í 180°C og bakaði áfram í aðrar 10 mín. Þá athugaði í fiskinn og hellti yfir hann smávegis af appelsínusósunni (2 msk) og amaretto líkjörnum (1 tappi). Bakað áfram í 10-12 mínútur í viðbót.

Takið fiskinn út úr ofninum og látið standa rétt á meðan lagt er á borð. Borið fram með fersku salati, steiktu spínati og kartöflum ásamt okkar dásamlegu sítrus-amaretto sósu. Hér er uppskriftin að henni:

Sítrus-amaretto sósa

mandarína
1&2 sítróna
amaretto
salt og pipar
1 msk rjómaostur
1 peli rjómi eða mjólk

Restin af mandarínuberkinum og sítrónubörkurinn rifinn í pott, safanum af mandarínunni og sítrónunni bætt við ásamt amaretto líkjörnum.
Hitað að suðu og þá er rjómaostinum bætt saman við ásamt smávegis af mjólk eða rjóma.
Þegar osturinn er bráðinn er rjóma/mjólk bætt við í slumpum og suðan látin koma upp á milli. Hrært vel. Saltað og piprað að smekk.

Þessi sósa passar líka með rækjum og sennileg humar og fleira sjávarfangi. Mér finnst hún unaðslega góð og þá hefur ferska lyktin af sítrusávöxtunum ekki lítið að segja.

Verði ykkur að góðu ef þið prófið.
Hér er mynd af laxinum góða rétt áður en fór á diskana:

Nú er dagur að kveldi kominn og einkasonurinn unir sér við píanóæfingar, eiginmaðurinn stúderar stærðfræðina sína og ég ætla að taka upp prjónana í stutta stund. Við eigum reyndar alveg eftir að gera origami þar sem það er nú pappírsbrúðkaup í dag. Spurning að skella sér í það áður en nóttin rennur upp.

Lifið heil og megi nýja árið verða ykkur og okkur farsælt og lukkulegt.

miðvikudagur, desember 22, 2010

Jólaflugan

Jólin nálgast nú eins og óð fluga. Þessum árstíma fylgir óneitanlega eitt og annað stúss sem vekur upp misjafnar tilfinningar á stundum. Það er forvitnilegt að fylgjast með því hvernig Bandaríkjamenn undirbúa jólin. Mér finnst við Íslendingarnir svolítið meira ýktir en Kaninn. Jólaskreytingarnar eru hóflegar hérna ef frá er talið miðbæjartorgið sem skartar milljónum ljósa, lifandi úlfalda sem hægt er að fara á bak á, smáhestum sem ganga í hringekju og forláta hestvagni sem fólk getur fengið far með í kring um torgið. Það ofbýður mér lítillega þar sem í fyrsta lagi vorkenni ég smáhestunum einstaklega mikið þar sem mig grunar að hringekjugangur sé ekki mjög spennandi fyrir þá.

Skreytingar á heimahúsum eru mun hóflegri en oft á tíðum heima á Íslandi. Reyndar virðist það vera algengt hérna að jólatréð sé sett upp þann 1. desember.

Mér skilst að jólahátíðin sjálf sé aðallega bara jóladagur en við ríghöldum að sjálfsögðu í íslenskar hefðir og munum sennilega njóta hátíðastemmningar hér heima fram að þrettánda. Eða svo gott sem.

Ég neyddist til að fara í verslunarleiðangur í dag. Ég hélt að þetta tæki um það bil einn til tvo tíma en endaði í fjórum tímum. Ég var uppgefin eftir að þramma um Kringluna í leit að réttu hlutunum í jólapakka strákanna minna.

Þrátt fyrir þokkalegt jólaskap mín megin undanfarið þá er eitt sem fer óheyrilega í taugarnar á mér hérna þessa dagana. Hvert sem ég fer bíður mín fulltrúi hjálpræðishersins sem hringir kúabjöllu í sífellu. Hljómurinn í þessari bjöllu er engum bjölluhljómi líkur. Hann sker í eyrun og syngur í höfðinu á mér lengi á eftir. Fulltrúinn er einstaklega hress og bíður öllum góðs dags og gleðilegra jóla um leið og hann hringir bjöllunni í sífellu. Þetta jaðrar allt saman við tilfinningalega kúgun finnst mér. Mér finnst hjálpræðisherinn frábært fyrirbæri og vil gjarnan styrkja hann en því miður þá fá þeir ekki neitt frá mér þar sem ég get ekki gengið minna erinda án þess að heyra í þessari skerandi bjöllu sem mig næstum ærir.


Ég og sonur minn munum í fyrsta sinn á ævinni dvelja annars staðar en á Íslandi yfir jól og áramót.
Ég hlakka til að þróa eigin hefðir með strákunum mínum um jólin en þær eru svo sem ekki frábrugðnar því sem við höfum vanist þar sem ég reyni að tileinka mér hlutina eins og þeir voru hjá mömmu og ömmu. En vissulega er margt frábrugðið þar sem við erum fjarri Íslandinu góða og þar af leiðandi lítið um hangikjöt, síld, laufabrauð, malt og appelsín og fleira gotterí sem tilheyrir íslenskum jólum. Það er þó í góðu lagi. Við höfum bara eitthvað annað. Ég keypti önd til að elda á aðfangadag og svo eigum við lax í frysti sem við ætlum að borða í hádeginu á jóladag. Þar sem þriðjungur fjölskyldunnar er enskur þá ætlum við að sameina hefðirnar og hafa fínan mat á aðfangadagskvöld en gjafastund og léttan hádegisverð á jóladag. Kertasníkir jólasveinn er sá eini bræðra sinna sem nennir að leita okkur upp þannig að við eigum von á pakka frá honum á aðfangadagsmorgun.

Síðastliðinn laugardag buðum við vinum okkar og samstarfsfólki Edda í sælkera jólaboð í skandinavískum anda. Boðið heppnaðist prýðisvel og óhætt að segja að við höfum komist í kynni við skemmtilegan hóp fólkst á þessum stutta tíma okkar hér í Fayetteville.

Lifið heil og njótið þess sem eftir er aðventunnar sem og jólanna.

föstudagur, nóvember 05, 2010

Íslenska netmiðlanna

Ég er Íslendingur. Ég skrifa blogg. Ég hef nokkuð gott vald á íslensku en nota alls ekki fullkomið mál og vissulega slæðast innsláttarvillur inn á milli. Ég geri hins vegar mitt besta eins og ég hef tíma og nennu til í hvert sinn.

Ég les íslenska netfréttamiðla daglega og mér ofbýður stundum ef ekki oftar. Ég reikna með að fólk sem skrifar greinar fyrir netmiðla sé á launum við slíka iðju. Þetta eru blaðamenn í sjálfu sér og þar að auki í að minnsta kosti einu tilfelli á launum hjá íslensku þjóðinni. Ég geri einnig fastlega ráð fyrir því að viðkomandi hafi verið ráðnir til verksins vegna hæfileika sinna við skriftir. Ég óttast um íslenska tungu þegar ég les pistla sem líta út eins og uppkast lesblindra einstaklinga. Það skal jafnframt tekið fram að fólk með sértæka lestrarörðugleika er ekki verra en aðrir. Langt frá því! En ég geri ekki ráð fyrir því að um slíkt sé að ræða í þessum tilfellum. Það er flausturgangur og klúðursleg fljótfærni sem leiðir til þess að sundurklipptar setningar, innsláttarvillur og fleiri ambögur slæðast í skrifin. Mögulega, vegna þess að greinin á ekki að birtast á prenti og alltaf hægt að leiðrétta eftir á, er viðkomandi kærulaus og nennir ekki að eyða tveimur mínútum eða svo í yfirlestur. Það myndi ekki taka meira en eina til tvær mínútur að lesa yfir því pistlarnir eru oftast fremur stuttir. Er virkilega til of mikils mælst að pistlahöfundar netmiðla lesi yfir verk sín áður en þeir henda þeim á netið? Ég skal gjarnan fyrirgefa stöku innsláttarvillu en mér blöskrar metnaðarleysið og ambögustíllinn sem mér finnst sífellt meira áberandi. Mér blöskrar svo mikið að ég sé ástæðu til að nöldra yfir því á mínu eigin bloggi og þá er nú mikið sagt. Hvaða fólki var til dæmis sagt upp hjá Ríkisútvarpinu? Ég reikna með að þeir hæfustu hafi fengið að halda sínum störfum. Eru þeir svo ofhlaðnir verkefnum fyrrum samstarfsfólks síns að þeir hreinlega hafa ekki tíma til lesa yfir eigin skrif? Ef svo er þá finnst mér það gegndarlaust ábyrgðarleysi af hálfu íslenskra stjórnvalda að standa fyrir slíku. Ég hef ekki séð þýtt sjónvarpsefni nýlega en velti fyrir mér hvort það sé á svipaðri leið. Ég ætla bara rétt að vona að svo sé ekki.

Lifum heil og varðveitum undurfagra málið okkar! Líka á netinu!

Hversdagslegar hugleiðingar í Fay

Í augnablikinu er maður að stilla píanóið hans Valla Kalla. Hann sagðist öfunda mig af því að stofan mín líti út eins og frumskógarhús. Hann sagði líka að ég væri heppin að hafa fallegu haustlitina á trjánum núna. Það er víst ekki þannig í Tulsa þar sem hann býr. Jú, ég er einstaklega heppin að mörgu leiti. Lífið hefur leikið við mig að mestu en hefur einnig birt mér hyldýpi sorgar og missis. Þó ekki jafn mörg og sumum. En þetta átti ekki að verða einhver væmnispóstur í dag svo ég held bara áfram með hugleiðingarnar.

Undarleg hljóð hafa borist úr loftræstikerfinu í svefnherberginu undanfarinn mánuð eða svo. Við fengum meindýraeyði sem lagði beitu í rörið en ekki var hún nú snert. Maurunum hefur hins vegar fækkað verulega og ég hef ekki orðið vör við kakkalakka síðan þeir komu. Sem er hvort tveggja jákvætt. Dýraeftirlit borgarinnar kom svo í vikunni og setti upp gildrur til að freista þess að lokka í þær viðkomandi næturgest(i). Það byrjaði kostulega þar sem kötturinn sem býr á hlaðinu hjá okkur fór náttúrulega beint í gildruna. Beitan var líka kattamatur þannig að það mátti svo sem búast við því. Ég sleppti honum og skammaði hann duglega á íslensku. Spennti svo gildruna aftur en auðvitað fór hann strax í hana. Þá leyfði ég honum bara að dúsa þar fram á kvöld. Í það minnsta virðist það hafa dugað því að morguninn eftir var hann fjarri góðu gamni og pokarotta sat í gildrunni í staðinn. Sem er gott. Þannig hefur það verið undanfarna morgna en í morgun var gildran lokuð en viðkomandi hafði tekist að troða sér út. Sennilega mús eða álíka. Nú er hins vegar gildrutímabilinu lokið og ef ég vil fleiri þá verð ég að fara aftur á biðlistann. Sem ég ætla að gera því við vorum vakin kl 4.30 við þvílíku lætin, krafs og klór. Frekar hrollvekjandi svona þegar maður liggur varnarlaus undir sæng.

Ég er enn að bíða eftir vinnuleyfi hérna. Ég vona að ég geti fengið vinnu því það er spes að vera heimavinnandi. Hef reyndar aðeins verið virk í leiklistinni en veit ekki hvert það mun leiða mig. Kemur í ljós. Vonandi á góðan og skemmtilegan stað.

Mér finnst æðislegt að fara á bændamarkaðinn á miðbæjartorginu á morgnanna. Hingað til hefur hann verið á þriðjudögum og fimmtudögum auk laugardaga. Ég fíla fimmtudagsmorgnana best. Þá er minni asi og tími til að spjalla við áhugavert fólk. Fólkið er svo vingjarnlegt og afurðirnar svo girnilegar. Í nóvember verður hann bara á laugardögum og hættir svo fram í apríl. Það verður skrítið. En við finnum eitthvað út úr því.

Þetta er gott í bili. Lifið heil.

fimmtudagur, nóvember 04, 2010

Lífsins rafræni annáll

Var að lesa í gegnum bloggið mitt og verð að játa það að ég er Salvöru Gissurardóttur afar þakklát fyrir að hafa skyldað mig til að opna þetta blogg á sínum tíma. Rúmlega 7 ár og ekkert minna. Auðvitað með mislöngum hléum milli pósta en ég geri mér grein fyrir því hversu dýrmæt heimild bloggið er yfir líf mitt undanfarin ár. Ég gleðst í hjarta mínu við að lesa gullkorn sonar míns sem ég hef haft vit á að færa í blogg og ýmsir atburðir eða hugsanir sem ég hef gleymt rifjast upp við lesturinn. Þetta er sérlega dýrmætt á þessum síðustu og verstu tímum þar sem maður fer ekki einu sinni með myndir í framköllun lengur og hvað þá að maður haldi dagbók. Lifið heil

Kreppumáltíð úrræðagóðu húsfreyjunnar

Mér fannst ég þvílíkur snillingur í eldhúsinu í kvöld. Úr tvennu sem hefði mjög sennilega endað í ruslinu á morgun tókst mér að útbúa dýrindis máltíð.

Ég ætla að nótera snilldina fyrir stóru framtíðarkreppuna. Hún er sem hér segir:

Aðalréttur:

Kjúklingasúpa

1 beinagrind af kjúklingi sem var í matinn í fyrradag, mjög gott að hafa afgangsgrænmeti sem var eldað með kjúllanum. Ég hafði eldað kjúllann í stórum ofnpotti og smellt sætum kartöflum, lauk og gulrótum með til að bakast. Ég notaði þennan sama pott og hliðarnar voru aðeins svartar sem er eiginlega bara betra.
Vatni bætt í pottinn þar til að kjúllinn er nokkurn veginn kominn á kaf.
Hitað þar til bullsýður. Þá er sett á minnsta hita og lok sett yfir pottinn. Látið malla í klukkutíma eða þar til vatnið er búið að taka bragð og lit.

Í potti er steikt ein gulrót, hálfur sellerístöngull og smá laukur (magn og tegund fer eftir smekk eða því sem maður á)
þegar þetta er farið að brúnast er sigti sett yfir pottinn og vatninu af kjúllanum hellt yfir.

Bragðbætt með smá ljósri sultu, sojasósu og chilli ef maður vill hafa þetta sterkt. Bara þangað til maður er ánægður.

Út í þetta bætti ég að lokum afgangs smákartöflum, grænum baunum, þremur sneiðum af spægipylsu skornar í teninga, vorlauk í litlum bitum, hálfri niðurskorinni kjúklingabringu (afgangurinn af kjúllanum) og nokkrum bitum af ítölsku brauði sem var orðið hart. Vitaskuld má nota hvað sem er út í. Eða nánast ekkert. Bara eins og efni gefa til.


Og gjörið svo vel: orkusúpa sem losar kvef og kvilla.

Eftirréttur:

Möndlu-krydd-strúdel

4 Mexíkóskar hveiti pönnukökur (tortilla)
Sykur með kryddi (kanill &/eða allrahanda)
1 msk smjör (brætt)
4 msk möndlusmjör (má vera hnetusmjör eða bara venjulegt smjör)
perusulta (má vera hvaða sulta sem er)
Flórsykur

Pönnslurnar eru smurðar með möndlusmjörinu og sultunni. Kryddsykrinum stráð yfir.
Rúllað upp og penslað með smjörinu sem hefur verið blandað við kryddsykur eða bara krydd ef maður vill minni sykur.
Skorið í bita þversum en þó soldið langsum líka, þannig að sneiðarnar verða stærri.

Bakað á 190 °C í 10 mín eða lengur eftir því hvernig ofninn er.

Raðað á bakka og flórsykri sigtað yfir. Ég ætlaði að setja möndluflögur yfir en gleymdi því...held samt að það væri smart.

Ógó flott og gott.

mánudagur, október 11, 2010

Brúðuleikhúshátíð

Ég eyddi öllum gærdeginum í að vinna við brúðuleikhúshátíð í almenningsgarði í hverfinu okkar hérna í Fayetteville.

Þetta var yndislegur dagur og fékk ég tækfæri til að spreyta mig á ýmsu skemmtilegu.

Um morguninn stjórnaði ég sögusmiðju með börnum þar sem þau fengu að velja sér handbrúðu og ákveða nafn og persónleika fyrir sína brúðu. Síðan í sameiningu sömdu þau sögu eða leikrit sem þau svo léku á sviði fyrir áhorfendur. Þetta gekk rosalega vel og flottur árangur hjá krökkunum sem ljómuðu af stolti og gleði.Seinni partinn fékk ég svo að spreyta mig með risaleikbrúðum og fékk alveg óvart hálfgert stjörnuhlutverk sem hausinn á risalirfu sem ógnaði tilvist jarðarinnar og lífsins. Lirfan breyttist svo á undursamlegan hátt í fiðrildi sem sveif um loftið og hreif fólk með sér í dans. Þetta var ofsalega heillandi og falleg sýning og er ég ákaflega stolt af að hafa fengið að taka þátt í henni.Inni í lirfunni á æfingu.Fiðrildið.


Um miðjan daginn var ég svo beðin um að taka að mér að tala fyrir Gus sem er handbrúðukarakter. Hann átti að taka viðtöl við fólk á svæðinu fyrir sjónvarpið. Þetta var svona líka skemmtilegt og kom ég sjálfri mér svo sannarlega á óvart með því að geta þetta bara hreinlega.Það var sannur heiður að fá að kynnast listamönnunum sem áttu heiðurinn af þessum degi. Ótrúlegur sköpunarkraftur og gleði í verkum þessa fólks. Ég vonast til að fá að sinna fleiri verkefnum með þessu fólki fljótlega.

fimmtudagur, október 07, 2010

listin og óþurftin

Ég er sannfærð um að einmitt á krepputímum þurfum við meira á listinni að halda en nokkru sinni. Skapandi hugsun er neistinn að framför og þróun í menningu og vísindum. Mér þykir sorglegt að sjá viðhorf ráðamanna þjóðarinnar til listamanna. Það má vissulega deila um það hversu mikið framlag ríkisins á að vera í hvert sinn og hvaða listamenn fá launin en yfirlýsingar þær sem nú bera hæst tel ég vitnisburð um hroka, mannfyrirlitningu og skamma hugsun þeirra sem þær gefa.

föstudagur, október 01, 2010

This is a gun-bearing country and you just need to realise that.

Við áttum yndislega daga í New York með kærum vinum sem sýndu okkur brot af því sem borgin hefur upp á að bjóða. Fyrsta daginn fórum við í göngutúr um Prospect Park sem er svo gott sem í bakgarðinum. Um kvöldið pöntuðum við tælenskan mat og eyddum kvöldinu í spjall.

Daginn eftir var haldið á MoMA safnið eða nútímalistasafnið. Þaðan þurfti ég að draga soninn út þegar tíminn sem við höfðum gefið okkur var liðinn.
Þaðan fórum við heim þar sem BH bakaði súkkulaðibitakökur handa okkur og skunduðum við aftur í Prospect Park með teppi til að hlusta á tónleika. BH skaust eftir gómsætri Pizzu á næsta götuhorn og áttum við notalega stund á teppinu undir ljúfum tónum. Ég rétt slapp fyrir horn með að fá moskítóbit þegar sólin var að setjast.

Eldsnemma á sunnudagsmorgni lögðum við svo í hann til Dallas með millilendingu í Atlanta í Georgíufylki. Vinkona E tók á móti okkur á Dallas Fort Worth flugvellinum ásamt dóttur sinni. Fyrsta upplifunin af Dallas fólst í því að aka framhjá risastórum auglýsingaskiltum sem yfirleitt auglýstu hraðbúinn mat. Ég held að við höfum í mesta lagi náð að aka 200 metra á milli skyndibitaveitingastaðaklasanna.

Ég upplifði menningarsjokk í Dallas í fyrsta sinn síðan í Kolkata á Indlandi 2003. Fyrir utan stærðina, skyndibitamenninguna, víðáttuna og hitann þá held ég að mesta áfallið hafi verið að hitta í fyrsta sinn á ævinni svokallaðan rauðsvíra. Þetta var vinnufélagi gestgjafa okkar og giftur nágrannakonu þeirra. Þess vegna umbera þau hann. Lífsviðhorfið er svo hlaðið kynþáttahatri og skammsýni. Byssuburður þykir honum sjálfsögð mannréttindi og ég fékk kaldan hroll eftir hryggjarsúlunni þegar hann leit fast í augun á mér og sagði orðrétt: “þetta er byssuberandi land og þú ættir að gera þér grein fyrir því sem fyrst”. Guð minn góður ekki vildi ég reyta þennan mann til reiði. Hatrið á hverjum þeim sem telst útlendingur (það er illskárra að vera hvitur útlendingur) og ég tala nú ekki um ef fólk er samkynhneigt eða aðhyllist önnur trúarbrögð en kristni og aðrar stjórnmálaskoðanir en repúblikönsk

Ameríski draumurinn?

“Heyðu mamma, hver er eiginlega ameríski draumurinn?” Spurði sonur minn mig á öðrum degi okkar í New York. Það er góð spurning hugsaði ég. Í mínum huga felst ameríski draumurinn í því að hver og einn eigi þess kost að ná eins langt og hans eigin takmörk leyfa. Ég tengi þetta markmið svolítið við markmiðið að vera hamingjusamur. Sælutilfinning sem kraumar lengst niðri í hjartarótum. Hamingja í velferðarsamfélagi. Okkur skortir ekkert og það eina sem við þurfum að gera er að nýta hæflieka okkar og þekkingu til hins ýtrasta. Ef hver og einn gerir það ætti veröldin að vera sannkallað sæluríki. Sem er göfugt markmið í sjálfu sér en hljómar þó ekki illa. Mig grunar nú samt að í mörgum tilfellum setjum við samasemmerki við slíkan ýturárangur, auðæfi og völd. Í flestum tilfellum færa auðæfi fóki vald sem er svo notað á einstaklingsbundinn hátt. Í sumum tilfellum ef ekki flestum á ógeðfelldan máta.

Snýst einstaklings- og auðvaldshyggja eingöngu um vald eða göngum við út frá því sem vísu að hamingjan sé fylgifiskur auðæfanna? Eru frelsi og hamingja jafnvel fólgin í veraldlegum auðæfum eða valdi yfir öðrum? Mig langar til að halda í þá trú að veraldleg gæði séu ekki kvarði á hamingju en óneitanlega hefur aðgangur að fjármunum heilmikið að segja við að skapa aðstæður þar sem við getum verið róleg um það hvernig við munum komast af og þá jafnvel einbeita okkur að því að njóta þess sem við höfum aðgang að.

Á þessu ferðalagi okkar frá New York til Dallas og þaðan til Fayetteville hefur ameríski draumurinn verið að plaga mig sárlega. Hver er hann eiginlega? Af stuttri viðkynningu við úthverfi Dallasborgar gæti maður haldið að hann fælist í því að aka um á loftkældu bensínþambandi stálskrímsli og að geta komið við á skyndibitastað með 500 metra millibili. Allt er stórt í Dallas. Flest er selt í magnpakkningum og því meira sem maður kaupir, þeim mun minna borgar maður. Flest er einnota og þykir ekki tiltökumál að bjóða uppá mat í matarboði borinn fram á pappadiskum. Það má eiginlega segja að allt sé stórt í Dallas nema endurvinnslubaukurinn. Hann er frekar lítill í sniðum og ekki tæmdur nema á tveggja vikna fresti. Í slíku einnota neyslusamfélagi er það bara alltof lítið og alltof sjaldan. Þannig að fólk hendir náttúrulega bara í ruslið þar sem það kærir sig ekki um að hafa flæðandi drasl heima hjá sér. Spes.