dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

föstudagur, nóvember 05, 2010

Íslenska netmiðlanna

Ég er Íslendingur. Ég skrifa blogg. Ég hef nokkuð gott vald á íslensku en nota alls ekki fullkomið mál og vissulega slæðast innsláttarvillur inn á milli. Ég geri hins vegar mitt besta eins og ég hef tíma og nennu til í hvert sinn.

Ég les íslenska netfréttamiðla daglega og mér ofbýður stundum ef ekki oftar. Ég reikna með að fólk sem skrifar greinar fyrir netmiðla sé á launum við slíka iðju. Þetta eru blaðamenn í sjálfu sér og þar að auki í að minnsta kosti einu tilfelli á launum hjá íslensku þjóðinni. Ég geri einnig fastlega ráð fyrir því að viðkomandi hafi verið ráðnir til verksins vegna hæfileika sinna við skriftir. Ég óttast um íslenska tungu þegar ég les pistla sem líta út eins og uppkast lesblindra einstaklinga. Það skal jafnframt tekið fram að fólk með sértæka lestrarörðugleika er ekki verra en aðrir. Langt frá því! En ég geri ekki ráð fyrir því að um slíkt sé að ræða í þessum tilfellum. Það er flausturgangur og klúðursleg fljótfærni sem leiðir til þess að sundurklipptar setningar, innsláttarvillur og fleiri ambögur slæðast í skrifin. Mögulega, vegna þess að greinin á ekki að birtast á prenti og alltaf hægt að leiðrétta eftir á, er viðkomandi kærulaus og nennir ekki að eyða tveimur mínútum eða svo í yfirlestur. Það myndi ekki taka meira en eina til tvær mínútur að lesa yfir því pistlarnir eru oftast fremur stuttir. Er virkilega til of mikils mælst að pistlahöfundar netmiðla lesi yfir verk sín áður en þeir henda þeim á netið? Ég skal gjarnan fyrirgefa stöku innsláttarvillu en mér blöskrar metnaðarleysið og ambögustíllinn sem mér finnst sífellt meira áberandi. Mér blöskrar svo mikið að ég sé ástæðu til að nöldra yfir því á mínu eigin bloggi og þá er nú mikið sagt. Hvaða fólki var til dæmis sagt upp hjá Ríkisútvarpinu? Ég reikna með að þeir hæfustu hafi fengið að halda sínum störfum. Eru þeir svo ofhlaðnir verkefnum fyrrum samstarfsfólks síns að þeir hreinlega hafa ekki tíma til lesa yfir eigin skrif? Ef svo er þá finnst mér það gegndarlaust ábyrgðarleysi af hálfu íslenskra stjórnvalda að standa fyrir slíku. Ég hef ekki séð þýtt sjónvarpsefni nýlega en velti fyrir mér hvort það sé á svipaðri leið. Ég ætla bara rétt að vona að svo sé ekki.

Lifum heil og varðveitum undurfagra málið okkar! Líka á netinu!

1 Comments:

Blogger Jóna Heiða said...

Vá hvað ég er sammála þér Ása. Skömm að því hvernig sumir blaðamenn láta frá sér texta.

6:27 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home