dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

fimmtudagur, október 06, 2005

Myndlist, sviðakjammi, hákarl, brennivín og mexíkóskar snittur...

Í gær var gaman. Við fórum til Svönu og Inga Páls eftir kvöldmat. Oo það er svo notalegt hjá þeim, mig langaði mest að ná mér í bók og fá mér te. Þau sjálf eru svo yndisleg og listaverkin vekja góða tilfinningu og svo er andinn í húsinu bara svo yndislegur. Eftir smáskammt af list og notalegheitum fórum við í hákarlaveislu til Jóns Högna og Stefaníu. Það var gaman og frekar áhugavert, verð ég að segja. Jón Högni hafði reddað hákarli og ekki nóg með það heldur bauð hann Aaroni upp á svið í forrétt. Með þessu var svo drukkið brennivín. Hrikalega finnst mér sumir miklar hetjur að geta étið þennan viðbjóð. En Aaroni fannst þetta ekki svo slæmt þangað til að farið var að ræða verkunina á hákarlinum og í ljós kom að hann er staðsettur þannig að ammoníakið leki úr honum. Þá fann hann ammoníakbragðið og átti soldið erfitt. Svo fékk hann harðfisk í eftirrétt og kaffi með brennivíni út í.
Á móti þessum þjóðlega matseðli vorum við svo með mexíkóskar snittur/rúllur, doritos og heita mexíkóska ídýfu. Það var eitthvað meira fyrir mig. Þegar við komum heim þá var minn orðinn pínulítið grænn í framan og ég held að hann hafi ekki sofið mjög mikið í nótt fyrir óþægindum í maga. Ég er ekki frá því heldur að mér hafi fundist ég sjálf anga af hákarli og harðfiski bara af því að vera við hliðina á honum. En þrátt fyrir magaverki þá var þetta alveg súperstund fyrir útlendinginn og á hann eftir að minnast þessa kvöld með tregafullri sælutilfinningu. Svo voru nátttúrulega móttökurnar ekki slæmar, okkur voru sýnd frábær myndbönd sem Tómas Marshall hefur unnið. Mikið er sá drengur fær, greinilega mikill listamaður á ferðinni og ekki skemmir fyrir honum hvað hann er skemmtilegur í tjaldapartýi á Þjóðhátíð (sem er svona það mesta sem ég hef umgengist hann). Reyndar eru þau hjónin eða hjónaleysin kannski ótrúlega skemmtileg á Þjóðhátið. Mikill húmor í frúnni líka. : )

Núna er svo bara planið að fara til Rvk á laugardaginn og taka smá dekurhelgi áður en Aaron minn hverfur af landi brott. Það er ýmislegt á dagskránni t.d. sýning á verkum Errós í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, Bláa lónið á leiðinni út á flugvöll, út að borða, gönguferð, og kannski smá pöbbarölt. Jæja við sjáum til hvað okkur vinnst tími til að afreka mikið. Ég á örugglega eftir að verða eitthvað mikið einmana þegar hann verður farinn aftur út. Við erum alveg að verða eins og hjón og það er reyndar bara nokkuð notaleg tilfinning. Jæja, maður verður bara að vera duglegur að finna sér eitthvað að gera. En þangað til verður maður bara að njóta samverunnar. : )

Bless í bili.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

2:08 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home