dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

laugardagur, nóvember 25, 2006

Hvað annað?Hvað gerir maður á slíkum degi sem í dag? Gengur að sjálfsögðu á fjöll. Við mæðginin röltum upp á Helgafell í dag okkur sjálfum til mikillar gleði.

The answer is blowing in the wind my friend...

Enn ein óveðursvikan að baki! Sem betur fer. Enn og aftur fóru flestir eftirmiðdagar og vikunnar í stúss s.s. sælkerakvöld í Hamarsskóla (ég kom með einn forrétt), kökukvöld í bekk sonar míns (slapp við bakstur í það skiptið), þess á milli gerði ég mitt besta til að rífa mig upp úr krónískri þreytu og svefntruflunum (sleeping disorder) sem hefur hrjáð mig í mesta lagi alla vikuna og reyndar undanfarnar þrjár. Komst að því, sjálfri mér til ósegjanlegrar furðu, að mér getur dauðleiðst í eigin félagsskap. Langt síðan mér hefur þótt ég sjálf svona hrikalega boring. Langar að vera annars staðar. Til dæmis þar sem vindhraði er undir 30 m. á sek. og hitastig yfir 10 gráðum. Staðsetning sjálf aukaatriði.Búin að fá ógeð á sælkerakvöldum og kaffisamsætum. Eða kannski ekki. Hundskaðist loksins í tröppurnar og græddi smá orku sem var svo bætt upp með tveimur græntestöflum (hugleiddi alvarlega að kanna framboð á örvandi efnum sem gæfu orku og kættu geðið um leið en sleppti þeim hugsunum fljótlega...maður er nú í “kjarna”fjölskyldu með rannsóknarlöggu...lét duga að þykjast holl með þessu græna te...i) sem leiddu til þrifa á bakarofni, bak við ísskáp, undir sófa og skápum o.s.frv. (note to self: verð að muna eftir að taka græntestöflur að staðaldri til að viðhalda hreinu heimili).

Fann þúsundkall undir stofuborði. Spurning hvaða gjaldmiðil maður finnur í eldhússkápunum sem bíða alveg eftir tuskunni.

Framundan er indælishelgi sem á að fara í jólabakstur og föndur, matarboð (þarf ekki að koma með neitt í það...) og mögulega meiri þrif og þá væntanlega einhvern peningafund. Hver veit?

Fór í heimsókn í efstu hæðir í kvöld. Það var svo kalt á leiðinni að allt var hvítt án þess að það væri snjór. Yndislega fallegt. Hrím...mmmm. Gekk svo heim eftir miðnætti og fylgdi mínum eigin fótsporum heim aftur. Það var falleg upplifun. Greinilegt að enginn annar hafði átt leið í efstu hæðir á þessum þremur tímum sem heimsóknin varði. Sérstök upplifun að þekkja eigin fótspor og að geta fetað þau alla leið til baka og verið um leið viss um að enginn annar hefði fylgt þeim. Undarlegt? Kannski ekki.

Ég sé í litla drauminn minn um snemmtilbúinn jólaundirbúning. Hef ekki lengur afsakanir um skólaverkefni eða annað yfirhangelsi. Neyddist til að taka fram tuskuna og nú er bara að sækja jólaskrautið og baka til að líf mitt verði eins og mynd í Mörthu Stewart blaði.hehehe...blehhh

Ó vell, ég kveð að sinni. Lifið heil!

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Up to date...eða þannig...

Afrek síðustu tveggja vikna eru mörg og merkileg! Þegar ég mætti í vinnu á þriðjudegi en ekki mánudegi eins og fyrirhugað hafði verið fékk ég dásamlegar áminningar um t.d. að það sama kvöld yrði sameiginlegur kvöldverður kennara og ég átti að a)mæta klukkan 14.30 og bera borð og búa til salat og b)koma með einn aðalrétt. Allt í lagi. Það reddaðist allt með herkjum og góðri aðstoð móður minnar. Áminning tvö fólst í tölvupósti sem tilkynnti Olweusarnámskeið á fimmtudagseftirmiðdegi (Nota bene: var búin að plana það eftirmiðdegi til að undirbúa og leggja lokahönd á skreytingar fyrir Hrekkjavökustórafmælisveisluna frábæru á föstudagskvöldið...) En þetta reddaðist allt með aðstoð Helgu vinkonu og Þjóðhildar. Ekki málið! Eftir veisluna og þegar ég var búin að taka til og svona þá ætlaði ég aldeilis að hafa það huggó með "Matthíasi" en honum tókst að svæfa mig með tómum leiðindum. Hann var þó öllu skárri á laugardagskvöldið og sátum við að sumbli langt fram á nótt...Sunnudagurinn rann svo upp með einum mesta blús sem ég hef upplifað lengi. Blúsinn endaði með allsherjar endurskipulagningu á svefnherbergisfataskápum og fékk nú mörg flíkin og margt draslið að fjúka! Í sárabætur fann ég smávegis að bandarískum gjaldeyri falinn í Donna Karan veski síðan í New York. Geri aðrir betur að gleyma slíkum smáatriðum. Fann svo aðeins meira núna í kvöld í svona innanáveski frá Íslandsbanka (úr leðri nota bene...hehehe).
Gott og vel ég var mjög sátt við þennan fund. En samt í voðalega annarlegu skapi eitthvað þarna á sunnudaginn. En það lagaðist alveg heilan helling á mánudeginum. Tók svo þátt í tveimur barnaafmælisveislum og bauð mér í eina fullorðins. Geri aðrir betur á einni viku! Og græddi uppherta kolla að launum fyrir barnaafmælin! Förum ekki nánar út í það sko!

Hápunktur vikunnar var svo ferð á Há með bekkinn og svo inn í Herjólfsbæ í Herjólfsdal til að borða nestið og fá heitt kakó. Rosalega var það gaman. Sérstaklega að brölta upp á fjall í a) fyrir sólarupprás að morgni, b) í snjókomu og c) í strigaskóm. Geri aðrir betur! En allt gekk upp að lokum og bara því miður þá gleymdi ég myndavélinni minni þannig að ég get ekki leyft ykkur að njóta mynda frá því að horfa á sólarupprás frá fjallstoppi í snjókomu. Bara kúl.
Síðar þennan sama daga reyndi aldeilis enn og aftur á hæfileikana í eldhúsinu því að þá átti ég að koma með kaffimeðlæti fyrir fund í skólanum...fjáröflunardæmi eitthvað. Bara fyndið.

Jæja, svo ég hafi þetta nú allt nákvæmt(*hehe*) þá skelltum við mæðginin okkur til Reykjavíkur með seinni á föstudag. Hann að hitta Þorstein Gauta í píanógrúsk og svo til pabba síns og lille bro sem heitir Davíð Már. Bara sætur sá stutti. Langaði enn og aftur að stela piltinum unga. En ætli maður sleppi ekki tilraunum til barnsráns.
Komum svo aftur með seinni í gær og sluppum þar með við ófærð og leiðindi. Fékk mjög skemmtilegt símtal frá Fanney frænku þar sem hún spurði eftir óveðurskrákunni. Mér fannst það frekar ósanngjarnt og fékk hún það óþvegið þar sem hún í þokkabót vakti mig hálfpartinn (ég meina hver hringir í mann fyrir klukkan tólf á sunnudagsmorgni þó að það sé vont veður í Reykjavík og þau haldi að maður sé þar??) Nei, bara smá grín! Ég var náttúrulega löngu vöknuð í sæluvímu eftir samneytið við Matthías kvöldið áður.*hehehe*

Jæja, nú er maður bara kominn með svefngalsa og kominn tími til að skríða undir sæng!
Lifið heil og heyrumst síðar.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Stræti stórborgar...

Þá er frökenin komin heim í góða veðrið...hehe..eftir ískalda en mjög svo skemmtilega helgi í London. Ískalt var í heimsborginni en þar var auðvitað nógu skemmtilegt til að það gleymdist. Svo var veðrið líka svo fagurt og sólin skein og svona...hehehe...væmið? En svona var það.

Ferðin út gekk ótrúlega vel í fylgd óeinkennisklædds rannsóknarlögreglumanns. Ekki beint traustvekjand í frásögn en það var bara nokkuð notalegt þar sem ég var tekin í fjölskyldu þess hins sama rannsóknarlögreglumanns á flugvellinum og í lestinni til Victoria station. (Spurning hvort að Englendingar séu svona frjálslyndir að eðlisfari eða að manneskjan sem benti okkur á að kaupa fjölskyldumiða í lestina, hafi bara verið mormóni...) en jæja við rannsóknarlöggan fengum okkur bara í glas í lestinni og skáluðum með frúnni og syninum... (Ég brjálast nú bara alveg...)

Ég fékk ófá “innri” fliss-köst yfir hótelinu mínu og komst að því hvers vegna það var svona ódýrt. En dvölin var indæl og starfsfólkið bara frábært. En svona til að setja ykkur aðeins inn í húmorinn þá byrjaði það þannig að þegar ég kom inn í herbergið mitt þá kom í ljós að ljósin á baðinu virkuðu ekki alveg en það var hægt að kveikja ljósið á speglinum. Jæja svo var drifið sig að pissa og svo átti að sturta niður en nei nei, ekki hægt!! Hvaða, hvaða?? En mín þurfti að drífa sig á Oxford stræti til að skanna svæðið þannig að það var látið vita í lobbýinu. *Meira neðar á síðunni*

Eftir gönguferðina á Oxford stræti náði ég loksins réttri Túbu neðanjarðar til að hitta hann Helga minn á London Bridge þar sem við snæddum rómantískan kvöldverð með útsýni yfir ána í rökkrinu. Ó mæ mæ, hvað það var nú skemmtilegt.

Á föstudagsmorgun var svo farið í morgunmat á hótelinu en þegar ég ætlaði að opna aftur dyrnar að herberginu mínu þá sat allt pikkfast og ekkert gekk að opna blessaðar dyrnar. Nú voru góð ráð dýr eða þannig (more fuzz=less shopping time*hehe*). Haft var samband við gestamóttökuna og hún sendi úkraínska herbergisþernu til að aðstoða mig en allt kom fyrir ekki. En sú úkraínska dó ekki ráðalaus heldur kallaði í forláta talstöð á ungan síðhærðan pilt sem kom og opnaði dyrnar eins og lítið væri og bauðst svo til að koma bara alltaf og opna fyrir mig ef ég lenti í vandræðum. Je ræt. Reyndar var þetta svona það helsta í hótelævintýrinu fyrir utan rosalega kaldar nætur og kalda sturtu til að byrja með en það hitnaði nú alltaf í kolunum áður en maður vissi af...

Hápunktur ferðarinnar var svo á laugardaginn þegar Tate Modern var heimsótt. Það var alveg sérstök upplifun að sjá með eigin augum verk Matisse, Picasso, Dali og fleiri. Súrrealíska deildin var alveg að virka þarna. Sérstaklega litlir kvikmyndasalir með þöglum stuttmyndum s.s. Un Chien Andalou þar sem Dali o.fl. voru við stjórn. Bara draumur í dós.

Eftir ótrúlega upplifun í safninu fór maður innblásinn af listaverkunum í mat á TAZ, þar sem fram var reiddur tyrkneskur matur með dásemdar hvítvíni frá Tyrklandi.

Sem sagt í hnotskurn: Langar gönguferðir um stræti stórborgarinnar, verslunarmanía, góður matur, fullt af hvítvíni og góður félagsskapur gerði þessa London dvöl alveg magnaða. Langar bara mest að skipuleggja næstu ferð. Hver veit??

Vonbrigði ferðarinnar: seinkun á flugi vegna óveðurs á klakanum og ófært með Herjólfi til Eyja. Hefði alveg þegið einn auka dag í stórborginni en svona er þetta bara og allt í gúddí að vera komin heim.