dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Up to date...eða þannig...

Afrek síðustu tveggja vikna eru mörg og merkileg! Þegar ég mætti í vinnu á þriðjudegi en ekki mánudegi eins og fyrirhugað hafði verið fékk ég dásamlegar áminningar um t.d. að það sama kvöld yrði sameiginlegur kvöldverður kennara og ég átti að a)mæta klukkan 14.30 og bera borð og búa til salat og b)koma með einn aðalrétt. Allt í lagi. Það reddaðist allt með herkjum og góðri aðstoð móður minnar. Áminning tvö fólst í tölvupósti sem tilkynnti Olweusarnámskeið á fimmtudagseftirmiðdegi (Nota bene: var búin að plana það eftirmiðdegi til að undirbúa og leggja lokahönd á skreytingar fyrir Hrekkjavökustórafmælisveisluna frábæru á föstudagskvöldið...) En þetta reddaðist allt með aðstoð Helgu vinkonu og Þjóðhildar. Ekki málið! Eftir veisluna og þegar ég var búin að taka til og svona þá ætlaði ég aldeilis að hafa það huggó með "Matthíasi" en honum tókst að svæfa mig með tómum leiðindum. Hann var þó öllu skárri á laugardagskvöldið og sátum við að sumbli langt fram á nótt...Sunnudagurinn rann svo upp með einum mesta blús sem ég hef upplifað lengi. Blúsinn endaði með allsherjar endurskipulagningu á svefnherbergisfataskápum og fékk nú mörg flíkin og margt draslið að fjúka! Í sárabætur fann ég smávegis að bandarískum gjaldeyri falinn í Donna Karan veski síðan í New York. Geri aðrir betur að gleyma slíkum smáatriðum. Fann svo aðeins meira núna í kvöld í svona innanáveski frá Íslandsbanka (úr leðri nota bene...hehehe).
Gott og vel ég var mjög sátt við þennan fund. En samt í voðalega annarlegu skapi eitthvað þarna á sunnudaginn. En það lagaðist alveg heilan helling á mánudeginum. Tók svo þátt í tveimur barnaafmælisveislum og bauð mér í eina fullorðins. Geri aðrir betur á einni viku! Og græddi uppherta kolla að launum fyrir barnaafmælin! Förum ekki nánar út í það sko!

Hápunktur vikunnar var svo ferð á Há með bekkinn og svo inn í Herjólfsbæ í Herjólfsdal til að borða nestið og fá heitt kakó. Rosalega var það gaman. Sérstaklega að brölta upp á fjall í a) fyrir sólarupprás að morgni, b) í snjókomu og c) í strigaskóm. Geri aðrir betur! En allt gekk upp að lokum og bara því miður þá gleymdi ég myndavélinni minni þannig að ég get ekki leyft ykkur að njóta mynda frá því að horfa á sólarupprás frá fjallstoppi í snjókomu. Bara kúl.
Síðar þennan sama daga reyndi aldeilis enn og aftur á hæfileikana í eldhúsinu því að þá átti ég að koma með kaffimeðlæti fyrir fund í skólanum...fjáröflunardæmi eitthvað. Bara fyndið.

Jæja, svo ég hafi þetta nú allt nákvæmt(*hehe*) þá skelltum við mæðginin okkur til Reykjavíkur með seinni á föstudag. Hann að hitta Þorstein Gauta í píanógrúsk og svo til pabba síns og lille bro sem heitir Davíð Már. Bara sætur sá stutti. Langaði enn og aftur að stela piltinum unga. En ætli maður sleppi ekki tilraunum til barnsráns.
Komum svo aftur með seinni í gær og sluppum þar með við ófærð og leiðindi. Fékk mjög skemmtilegt símtal frá Fanney frænku þar sem hún spurði eftir óveðurskrákunni. Mér fannst það frekar ósanngjarnt og fékk hún það óþvegið þar sem hún í þokkabót vakti mig hálfpartinn (ég meina hver hringir í mann fyrir klukkan tólf á sunnudagsmorgni þó að það sé vont veður í Reykjavík og þau haldi að maður sé þar??) Nei, bara smá grín! Ég var náttúrulega löngu vöknuð í sæluvímu eftir samneytið við Matthías kvöldið áður.*hehehe*

Jæja, nú er maður bara kominn með svefngalsa og kominn tími til að skríða undir sæng!
Lifið heil og heyrumst síðar.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég ætlaði að tjá mig alveg rosalega gáfulega hérna í gær en kerfið var bara eitthvað bilað og í dag man ég bara ekkert hvað ég ætlaði að segja! En hélt að ég myndi nú samt segja bara hæ og láta vita að ég er að fylgjast með ;) Verð víst að fara að pilla mér í vinnu

Gaman að heyra í þér sjáumst!
sóley

7:36 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home