dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Stræti stórborgar...

Þá er frökenin komin heim í góða veðrið...hehe..eftir ískalda en mjög svo skemmtilega helgi í London. Ískalt var í heimsborginni en þar var auðvitað nógu skemmtilegt til að það gleymdist. Svo var veðrið líka svo fagurt og sólin skein og svona...hehehe...væmið? En svona var það.

Ferðin út gekk ótrúlega vel í fylgd óeinkennisklædds rannsóknarlögreglumanns. Ekki beint traustvekjand í frásögn en það var bara nokkuð notalegt þar sem ég var tekin í fjölskyldu þess hins sama rannsóknarlögreglumanns á flugvellinum og í lestinni til Victoria station. (Spurning hvort að Englendingar séu svona frjálslyndir að eðlisfari eða að manneskjan sem benti okkur á að kaupa fjölskyldumiða í lestina, hafi bara verið mormóni...) en jæja við rannsóknarlöggan fengum okkur bara í glas í lestinni og skáluðum með frúnni og syninum... (Ég brjálast nú bara alveg...)

Ég fékk ófá “innri” fliss-köst yfir hótelinu mínu og komst að því hvers vegna það var svona ódýrt. En dvölin var indæl og starfsfólkið bara frábært. En svona til að setja ykkur aðeins inn í húmorinn þá byrjaði það þannig að þegar ég kom inn í herbergið mitt þá kom í ljós að ljósin á baðinu virkuðu ekki alveg en það var hægt að kveikja ljósið á speglinum. Jæja svo var drifið sig að pissa og svo átti að sturta niður en nei nei, ekki hægt!! Hvaða, hvaða?? En mín þurfti að drífa sig á Oxford stræti til að skanna svæðið þannig að það var látið vita í lobbýinu. *Meira neðar á síðunni*

Eftir gönguferðina á Oxford stræti náði ég loksins réttri Túbu neðanjarðar til að hitta hann Helga minn á London Bridge þar sem við snæddum rómantískan kvöldverð með útsýni yfir ána í rökkrinu. Ó mæ mæ, hvað það var nú skemmtilegt.

Á föstudagsmorgun var svo farið í morgunmat á hótelinu en þegar ég ætlaði að opna aftur dyrnar að herberginu mínu þá sat allt pikkfast og ekkert gekk að opna blessaðar dyrnar. Nú voru góð ráð dýr eða þannig (more fuzz=less shopping time*hehe*). Haft var samband við gestamóttökuna og hún sendi úkraínska herbergisþernu til að aðstoða mig en allt kom fyrir ekki. En sú úkraínska dó ekki ráðalaus heldur kallaði í forláta talstöð á ungan síðhærðan pilt sem kom og opnaði dyrnar eins og lítið væri og bauðst svo til að koma bara alltaf og opna fyrir mig ef ég lenti í vandræðum. Je ræt. Reyndar var þetta svona það helsta í hótelævintýrinu fyrir utan rosalega kaldar nætur og kalda sturtu til að byrja með en það hitnaði nú alltaf í kolunum áður en maður vissi af...

Hápunktur ferðarinnar var svo á laugardaginn þegar Tate Modern var heimsótt. Það var alveg sérstök upplifun að sjá með eigin augum verk Matisse, Picasso, Dali og fleiri. Súrrealíska deildin var alveg að virka þarna. Sérstaklega litlir kvikmyndasalir með þöglum stuttmyndum s.s. Un Chien Andalou þar sem Dali o.fl. voru við stjórn. Bara draumur í dós.

Eftir ótrúlega upplifun í safninu fór maður innblásinn af listaverkunum í mat á TAZ, þar sem fram var reiddur tyrkneskur matur með dásemdar hvítvíni frá Tyrklandi.

Sem sagt í hnotskurn: Langar gönguferðir um stræti stórborgarinnar, verslunarmanía, góður matur, fullt af hvítvíni og góður félagsskapur gerði þessa London dvöl alveg magnaða. Langar bara mest að skipuleggja næstu ferð. Hver veit??

Vonbrigði ferðarinnar: seinkun á flugi vegna óveðurs á klakanum og ófært með Herjólfi til Eyja. Hefði alveg þegið einn auka dag í stórborginni en svona er þetta bara og allt í gúddí að vera komin heim.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Frábær frásögn af þessari ferð til "Londons". Mér finnst þú hetja að fara bara svona ein út í heim... eitthvað sem mér skyldi aldrei detta í hug.

9:14 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home