dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

föstudagur, desember 29, 2006

Ilmandi dömubindi...

Ég fór í búðina í dag til að kaupa ýmislegt til áramótanna. Ekki í frásögur færandi nema það að mig vantaði dömubindi og greip pakka af slíkum varningi. Kannaðist við framleiðandann en tiltekna tegund hef ég ekki prófað áður. Jæja, það er nokkuð langt síðan ég las frönsku í MS en ég hefði nú alveg getað skilið að þegar það stendur controle les odeurs, senteur fraiche...að þá er eitthvað í gangi. En allavega þá skildi ég þetta ekki fyrr en ég opnaði blessaðan pakkann og upp gaus þessi líka blómailmurinn...hehe...aldrei vitað annað eins...ætli maður fái ekki bara exem af þessu ilmefnaveseni?

mánudagur, desember 25, 2006

Gleðileg jól

Ég óska lesendum mínum, nær og fjær, gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Jólin byrja vel hjá okkur eftir smá hassle í blíðviðrinu á Þorláksmessukvöld þegar einn þakglugginn hjá mömmu fauk af og lenti með brambolti hinum megin á þakinu, í þúsund molum að sjálfsögðu. Með naumindum tókst að fiska stiga út úr þegar yfirfullum bílskúrnum og nálgast flakið af glugganum. En nú voru góð ráð dýr þar sem regnið streymdi og vindurinn blés og enginn var glugginn til að halda vatni eða vindi. Sem betur fer þá er hann Raggi smiður ráðagóður drengur og var hann ekki lengi að mæta á svæðið og taka það út. Hann var svo búinn að redda málinu eftir um það bil 20 mínútur eða svo. Ekki lengi að þessu. En þau þurfa pottþétt að fá sér nýjan glugga eftir hátíðarnar.*hehehe*
Eftir þetta ævintýri þá átti að skreyta jólatréð í stofunni hjá móður minni. Jújú, serían sett upp og var í lagi áður en þegar hún var komin upp þá dó hún. Ég ákvað þá að fórna minni þar sem ég og VK höfðum ákveðið að sleppa jólatrénu í ár þar sem píanóið tekur það mikið pláss í stofunni að heilt jólatré myndi nú bara verða til þess að við fengjum aðþrengingarkennd. Gott og vel en þegar mín var komin á og drengurinn farinn að skreyta þá nátttúrulega dó mín algerlega. Og þá var nú skapið aðeins farið að segja til sín. Sem betur fer þá á ég til að missa mig aðeins í Ikea og viðlíka stöðum þannig að ég bjó svo vel að eiga eina 100 ljósa sem var sett upp í snarhasti. Nei, ekki aldeilis, haldiði ekki að við höfum fundið eina brotna peru og engar varaperur. En við tróðum næstu peru sem passaði í gatið og hún hefur lafað síðan undir eftirliti. Mér finnst nú alveg spurning þegar maður er nánast farinn að bölva þegar maður er að græja jóladót að þá sé nú eitthvað að...

En þetta fór nú allt vel að lokum...

Ég verð að fara núna en segi meira síðar... Lifið heil og njótið hátíðanna!

fimmtudagur, desember 21, 2006

Aðventudraumur kennslukonunnar kátu..

Ótrúlegustu hlutir hafa átt sér stað; það eru að koma jól! Hvenær gerðist þetta eiginlega? Ég þori varla að játa það að einungis 6 jólakort hafa verið skrifuð hingað til. Hins vegar eru næstum allir pakkar sem á að senda farnir frá mér og var það sannarlega tilbreyting að vera ekki stödd inni á pósthúsi á Þorláksmessu til að græja þá hluti. Þetta hefur nú samt sem áður alltaf skilað sér á réttu staðina og oftast á réttum tíma. Af jólaundirbúningi á mínu heimili er nú ekki mikið að frétta. Var alveg komin í gírinn um síðustu helgi, pakkaði inn og svona og bauð svo vini VK og mömmu hans í listastund. Sem var óhemju skemmtileg en ég er eiginlega ennþá í vonnabí artist mód. Því það er víst það lengsta sem ég kemst í hinum listræna heimi. En þetta hlýtur nú að verða betra frá og með morgundeginum því að í dag komst ég í langþráð jólafrí. Kennslukonustarfið er óhemju skemmtilegt og gefandi það verður að viðurkennast en mikið svakalega er það góð tilfinning að sjá fram á smá tíma til að hlaða batteríin. Toppurinn var samt í dag. Ég held að það hafi verið einn skemmtilegasti dagurinn minn í vinnunni. Ég fékk að taka þátt í litlu jólunum með öðrum bekk. Innifalið í þeim var helgileikur, litlu-jól í stofu og litlu-jól á sal. Yndisleg upplifun og rifjaði upp æsku mína. Þetta var líka toppurinn hjá mér þá! Allir í sparifötum að dansa í kringum jólatré við tónlistarflutning Páls Viðars og Helgu Bjarkar. Og rólegheitin í stofunni.

Ég fór svo á fjölskyldujólatónleika í gömlu Höllinni í gærkvöldi. Þeir voru sálarnæring fyrir mig og peyjann. Við skemmtum okkur konunglega við fagran tónlistarflutning úrvals hljómlistarmanna. Mikið er ég þakklát því að einhver skuli leggja á sig svona vinnu til að gleðja mann!

Fleiri tíðindi: haldiði ekki að frökenin hafi bakað Sörur á aðventunni!! Með kennurunum reyndar og undir góðri leiðsögn. En mjög skemmtilegt að geta boðið upp á Sörur á Þorláksmessunni sem ég ætla reyndar að halda hátíðlega þann 22.des. Geri aðrir betur.

Jæja gott fólk, ég ætla nú ekki alveg að kæfa ykkur með skrifum þó ég sé dottin í jólafrí en það er aldrei að vita nema maður dundi sér við að skrifa ykkur smá pistla af og til meðan þessi sælutími varir...lofa samt engu...hehe...