dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

sunnudagur, september 28, 2003

tæknisaga

Tæknisaga
Mín fyrstu kynni af tölvuvinnslu voru þegar ég vann á skrifstofu Herjólfs hf. hér í Vestmannaeyjum. Þar var unnið frumkvöðlastarf varðandi gagnavinnslu. Ég byrjaði að vinna þar tæplega 16 ára gömul árið 1988 og vann á hverju sumri til 1995 og svo aftur 1998. Á þessum tíma var haldið utan um flutningsskrár meðrafrænni skráningu. Einnig var sérstök tölva sem maður skráði og prentaði afsláttarfargjöld. Þegar ég kom aftur þarna 1998 hafði mikið breyst. Þá var verið að hanna sérstakt kerfi til að halda utan um farpantanir. Það náðist aldrei að ljúka þeirri hönnun almennilega þar sem nýir rekstraraðilar tóku yfir og fóru að nota concorde skráningarkerfi.
Ég sat tíma í upplýsingatækni í menntaskólanum við Sund. Ég get ekki sagt að sú kennsla hafi skilið mikið eftir sig til gagns í dag eins og gefur að skilja ;-) þvílík þróun..við erum líka alveg að tala um 15-16 ár...
Ég keypti mína fyrstu tölvu árið 1994/5 þar sem til stóð að fara í Háskólann. En pabbi minn notaði hana nú aðallega. Ég eignaðist barn ´96 og á þeim tíma notaði sambýlismaður minn aðallega þetta tæki. Mér fannst þetta voða flókið allt saman. Við fengum okkur nettengingu 1997 og ég sendi minn fyrsta tölvupóst stuttu síðar. Ég fékk einnig að nota ljósmyndaskanna hjá kunningjakonu vinkonu minnar og sendum við ca 3 myndir af barninu mínu til foreldra minna í Vestmannaeyjum.
Það var svo 1999 að ég hóf fjarnám í ferðamálafræði við HÍ. Þar kynntist ég Web ct fyrst. Ég fór alltaf heim til foreldra minna( því að fyrsta tölvan mín kveikti áhuga pabba míns á þessu og hefur hann grúskað mikið í tölvunni síðan ;-) til að vinna og senda verkefni. Það var vitaskuld alveg glatað. En það var ekki langt að fara 
Ári síðar eða árið 2000 skipti ég um og tók íslensku við HÍ einnig í fjarnámi. Þá gafst ég upp og keypti mér HP brio tölvu sem en enn í góðu lagi. Mér fannst nauðsynlegt að vera með þetta heima. Í janúar 2002 fékk ég mér fartölvu sem ég er enn að nota í dag.
Með tímanum jókst sjálfsöryggi manns varðandi meðhöndlun á þessum tæknitólum. Ég fór að vinna á skattstofunni 2001 og þá fékk maður þetta allt beint í æð. Þar er markvisst unnið að því að gera öll skil og vinnslu rafræn og virðist það ganga vel hjá þeim.
Netið:
Ég er nú bara með gamaldags símatengingu við netið en það stendur til að bæta úr því í náinni framtíð. Ég hef stundum pantað farmiða til útlanda og hótel í gegnum netið og einn og einn hlut sem mig hefur vantað. Ég nota tölvupóst til að hafa samband við vini mína í útlöndum. Á tímabili hafði ég stundum samband við fólk í Bandaríkjunum með msn-messenger. Það var ágætt. Ég nota leitarvélar mikið ef mig vantar upplýsingar um eitthvað ákveðið á skömmum tíma. Oftast Google.com og leit.is
Núna er skylda að halda úti annálum eða bloggi á netinu þannig að ég er að venjast því að geta tjáð mig á þeim vettvangi. Ég fékk fyrsta nasaþefinn af slíku þegar elskulegur vinur minn Brian flutti til Bosníu til að hjálpa stríðshrjáðum börnum. Hann setti upp annál þar sem hann leyfir manni að fylgjast með upplifunum sínum í Bosníu. ( Reyndar hefur hann verið mjög latur upp á síðkastið  ) Svo fór Keli vinur minn að halda annál á annall.is. Það má segja að þessir tveir hafi kveikt áhuga minn fyrir þessu fyrirbæri. Ég reyni að fylgjast með þeim eins oft og ég get. Svo er bara að venjast því að halda þetta sjálfur!
Stafræn myndataka:
Í janúar festi ég kaup á stafrænni myndavél og hef verið að nota hana töluvert. Skemmtileg tækni sem býður upp á mikla möguleika.
Dagsetningar:
1988-1995. vinna hjá Herjólfi hf.
1988 upplýsingatækni, menntaskólinn við Sund.
1994 / 95 fyrsta tölvan keypt
1996 símboði
1997 nettenging, tölvupóstur, skanni.
1998 fyrsti gsm síminn,
1999 fjanám við Hí-webct
2000 betri tölva, nettenging
2001 samskipti við vini og ættingja í útlöndum, msn-messenger/ tölvupóstur.
2002 fartölva,
2003 stafræn myndavél, fyrsta BLOGGIÐ

framtíðarsýn - einn áratug fram í tímann

Ég er nokkuð sannfærð um að eftir tíu ár hefur nýting upplýsingatækninnar aukist verulega. Ég sé fyrir mér að námshættir breytist og færist að miklu leyti yfir á rafrænt form. Sérstaklega námsefni frá kennurum og jafnvel námsefni. Einnig tel ég að sú tækni sem er notuð t.d. við fjarnám á framhalds og háskólastigi færist niður í grunnskólana.

Varðandi vinnu mína í dag þá veit ég að innan afar skamms tíma verður allt skattkerfið pappírslaust, fyrir utan útsenda úrskurði. Nú þegar er maður að vinna öll framtöl, skattbreytingar og bréf á rafrænan hátt. Þó að einhver skili á pappír er allt skráð rafrænt og unnið þaðan.

Varðandi vonandi framtíðarstarf mitt, kennsluna, þá tel ég að þessir hluti reigi eftir að þróast þannig að farið verði fram á mun meiri upplýsingaöflun á neti sem og samskipti utan skólatíma, fyrirlestrar og glærur verða settir inn á netið og meira verður um vefleiðangra og slíka upplýsingaöflun í námi grunnskólabarna.

Ég held einnig að innan örfárra ára verði flestar tengingar þráðlausar og að fólk muni nota netið meira til að nota þjónustu.
Nú virðist microsoft vera að takmarka aðgang að spjallrásum og er það vel. Vonandi verður það til að gera þetta umhverfi öruggara. Ég vona að eftir 10 ár verði minna um rusl og viðbjóð á netinu en “gagn og gaman.”
Ég sé fyrir mér að samskiptatæki sem varpa myndum af viðmælendum munu verða algengari. Einnig er ég viss um að allir hlutir smækki enn frekar og mun brátt verða hægt að fá samskiptabúnað sem kemst fyrir í úri eða hálsmeni. Mér finnst líka sjálfvirka ryksugan sem fjallað var um í fréttunum fyrir skömmu, lofa góðu. Mér segir svo hugur að brátt geti maður kveikt á tækjum sem haldi heimili manns hreinu á meðan maður er úti að vinna.  (vonandi) .

föstudagur, september 26, 2003

26.september

26.september er merkilegur dagur í mínu lífi.

Þurfti bara að trúa ykkur fyrir þessu. ;-)

Helgin loksins gengin í garð

Jæja, þá er loksins komin helgi og alltaf er maður jafn ánægður með það. Ég horfð á Idol keppnina í kvöld og fannst það fínt en mér finnst ægilegur skepnuskapur þegar það er verið að sýna hrikalega slæma frammistöðu sumra keppenda. En ein eyjastúlka, Natalía að nafni flaug í gegn og er ég nokkuð viss um að hún vinni. Hún er alltaf svo glaðleg og indæl. Hún er ábyggilega góð fyrirmynd og frábær söngkona, það er augljóst. En grey fólkið sem er eins og ég, getur bara ekki sungið óbrjálað lag. En þau hafa greinilega ekki átt eins góða vini í barnæsku og ég. Vini, sem sögðu mér að það væri ekkert sniðugt fyrir mig að fara í kór eða að syngja með í kirkju. Ein þessara sönnu vinkvenna minna er reyndar hámenntuð djass-söngkona í dag. Þannig að þetta hafa verið sönn ráð þó að manni hafi nú sárnað stundum. Sérstaklega í fermingarfræðslunni þegar maður átti að mæta í messu á sunnudögum. Presturinn hvatti alla til að taka undir sálmunum. Ég var svo hlýðin að ég söng með en bara mjög lágt. Áður en leið á löngu fékk maður olnbogaskot og hvísl í eyrað um að maður væri alveg hrikalega falskur. En svona er þetta bara. Ég fyllist samt stundum mikilli samúð í minn eigin garð vegna þessarra athugasemda og tel sjálfri mér trú um að ef ég hefði bara ekki hlustað á þessi ráð heldur stormað í kór þá hefði ég mögulega lært að syngja eins og eitt eða tvö óbrjáluð lög. En svona var maður trúgjarn eða þannig. Nei, má ég heldur biðja um að vera særður aðeins þegar maður var barn en að uppljóstra þessum hrikalega skorti á sönghæfileikum fyrir framan hálfa þjóðina ;-) Já ég var sko heppin...og á sko líka frábæra vinni!

fimmtudagur, september 25, 2003

meira þvarg

jæja þá er ég búin að skila verkefni sem ég var að vinna að. Voða mikið að gera hjá minni. En þetta var voða skemmtilegt verkefni varðandi orðaforða barna. Maður hefur svo mikinn áhuga á svoleiðis löguðu.
Best að halda samt aðeins áfram með rauðsokkuþvargið. Fleiri rök sem maður heyrir til stuðnings útstáelsis óskum vina og kunningja í sinn garð: til dæmis að maður verði ekki einn í ellinni. Mér finnst óskaplega krúttlegt að sjá gamalt fólk sem hefur kosið að eyða saman æfikvöldinu. Það er líklega það fallegasta sem ástin getur veitt manni sjálfum (fyrir utan börnin náttúrulega). En ég því miður er það ekki sjálfgefið að maður lifi svo lengi saman og enn síður sjálfgefið að maður hitti einhvern sem maður vill eyða með lífskvöldinu. En húrra fyrir þeim sem eru svo heppnir. En má maður frekar vera einn en að afplána áratugi í einhverju meðalmennskuleiðindavanasambandi. Elskurnar mínar þið megið samt alls ekki skilja mig þannig að ég sé einhver karlahatari. Síður en svo. Mér finnst margir menn ótrúlega sætir og skemmtilegir og frábærir en nánast undantekningalaust eru þeir eitthvað af eftirtöldu:
1. giftir öðrum konum
2. hommar
3. eiga við drykkju, flagara eða skemmtanaáráttu að stríða

Þeir langsætustu eru samt oftast nær hommar. En nóg um það. ;-)


cc

Viðvörun

Það kemur meira, verið þið viss. Ef ykkur leiðast svona vangaveltur skuluð þið algerlega hætta að lesa færslur mínar á næstunni. Ég er alveg í svona nöldurstuði hvað þetta málefni varðar!
þangað til næst...

Smá hugleiðing varðandi hjúskaparstöðu

Gáfnaljósið heldur áfram:
Ég og vinkonur mínar höfum upp á síðkastið mikið verið að ræða hugtakið einhleypur eða einstæður. Við erum allar sammála um það að í hugtakinu felist eftirtaldir þættir: sjálfstæði, frelsi, líf og hamingja. En okkur til mikillar furðu virðast mjög margir ósammála þessum skilningi okkar. Mig langar til að deila með ykkur því sem hefur “dúkkað” upp í þessum oftast bráðskemmtilegu umræðum. Það skal tekið fram að þátttakendur eru oftast konur (sumar mæður) sem búa án eiginmanna eða kærasta, eða höfðu verið einhleypar í töluverðan tíma áður en þær slysuðust til að finna ástina og gifta sig. Mér finnst reyndar hálfgert “niðurtal” fólgið í orðinu einstæður. Þegar maður er foreldri og býr einn ásamt barni (semsagt án maka) er maður orðinn einstætt foreldri. Einhvern veginn finnst mér orðið sjálft bera með sér basl og hálfgerð leiðindi (t.d. alltaf að reyna að fá pössun til að komast út úr húsi, drasl og skítugir og vanræktir krakkar!! En þannig er það sjaldnast og skiptir hjúskaparstaða litlu máli hvað þetta varðar). Mig langar mest að tala um “síngular” mæður. (Þó að það sé algjör sletta og alls ekki viðeigandi fyrir málhreinsunarsinna eins og mig að notast við slíkan viðbjóð. En má maður ekki bara hafa sína hentisemi varðandi erlendar málslettur . Ég játa hiklaust að ég er í reynd mikill tækifærissinni hvað þetta varðar. En það er efni í heila blaðagrein að útlista hvenær mér þykir það forsvaranlegt að sletta. Þannig að síngular mæður öðlast hugsanlega náð hér). Hugsanlega er “basl- og-leiðindi” blærinn sem fylgir “einstæðum” til komið vegna þess að maður ólst upp á þeim tíma sem það var ekki eins algengt og nú að foreldrar búi án maka, með börnum sínum (sem er ekki í neinu samræmi við mína barnæsku þar sem ég og mamma mín bjuggum þvær í u.þ.b.7 ár og sá tími var langt frá því að vera eitthvað svartur í minningunni ;-) . Það er kannski vegna þessarar basl og leiðinda tilfinningar sem einstæð vekur upp, sem einhleypar mæður eru að fá skrítnar athugasemdir og upplifa oft á tíðum afar skringilegar aðstæður og viðhorf. Þegar kona sem er einhleyp skríður yfir þrjátíu ára aldurstakmarkið vakna oft blendnar tilfinningar meðal fólks. Sérstaklega meðal giftra karlmanna. Ég þekki ekki eina einustu “síngula” konu sem hefur spurt mig að því að fyrra bragði hvort mér þyki þetta einlífi ekki glatað og hvort mér þyki ekki kominn tími til fara að koma mér út úr húsi, arka niður á Lunda og ná mér í einn úr landsliðinu. (þetta með landsliðið er reyndar lygi en það munar nú ekki miklu). Ég hef reyndar ekki upplifað áðurnefndan hrylling í mjög miklu magni (enda svo ung ;-) en hef fyrir þessu áreiðanlegar heimildir. Til dæmis lenti vinkona mín í því að fá athugasemdir varðandi utanlandsferðalög sín og fann greinilegan kulda gagnvart þessu "frelsi" okkar. Þannig var að gift kona segir: “já það er ekkert skrítið að þið getið farið svona mikið til útlanda, þið þessar einstæðu.” Núú…?? Segir vinkona mín hissa. Hvernig færðu það út? Nú, þið þurfið bara að borga fargjald fyrir einn. Og svo er miklu ódýrara fyrir ykkur að fara út að borða með hóp af hjónafólki vegna þess að þá er alltaf borgað fyrir þann sem er einn !!!…Hvað með tvöfalda innkomu hjóna miðað við þann sem er einn að vinna fyrir heimili? Þá dettur manni í hug þegar verið er að gefa stórafmælisgjafir, brúðkaupsgjafir og slíkt. Ég hef a.m.k aldrei tekið þátt í slíkri gjöf að ég þurfi að borga helming þess sem hjón borga. Og endilega kynnið mig fyrir þessum hópi hjóna sem alltaf borgar fyrir þá einsömlu ;-)

Ég veit alls ekki hvaða endemis vitleysu ég hef gert hér með þess mynd!

Blogg úti í bæ...

Komið þið sæl.
Ég hef verið að lesa ýmis blogg úti í bæ síðustu daga. Ég er afar hrifin af sápuóperunni og les allt sem hún skrifar með mikilli græðgi. Þið gætuð litið við á tengil viðfangs giftingaróra hennar. Þar er maður á ferð sem kemur skemmtilega á óvart. Ég bjóst við ægilegu menntasnobbi, háfleygu orðavali og kannski pínu leiðindum en viti menn bara mér finnst þetta hin læsilegustu skrif. Við erum reyndar gamlir menntaskólafélagar ég og þetta viðfang giftingaróra sápuóperunnar en því fer reyndar fjarri að ég hafi borið slíka óra til hans eða þekkt hann að einhverju ráði. Við vorum reyndar saman í ræðuliði og kepptum saman í hatrammri keppni. Hann kom skemmtilega á óvart þá sem nú og mér þykir skemmtilegt vera minnt á þennan gamla skólafélaga. Bróðir hans var reyndar alltaf örlítið léttari á bárunni og fór oft á kostum. En almáttugur hvað mér þótti þeir gáfaðir. Ég varð alveg andaktug ef þeir yrtu á mig á göngunum ;-) Og þeir hafa víst báðir staðið undir væntingum almúgans um hetjudáðir í menntamálum. Báðir hámenntaðir og farnir að kenna við Háskólann!!!
En nóg um gáfnaljósin í bili. Ég ætla að reyna að láta mitt eigið gáfnaljós skína sem mest á næstunni. Brjálað að gera í skólanum. Þannig að ef ég fer að skrifa eitthvað skrítið hér þá er það kannski ekki vegna þess að ég hafi hreinlega misst vitið heldur bara vegna þess að ég er dálítið önnum kafin og gæti þurft að bæta mér upp orkuna sem mun fara í að virkja gáfnaljósið mitt með því að skrifa eitthvað á léttari nótum…

miðvikudagur, september 24, 2003

Loksins lífsmark

Komið þið sæl og blessuð.
Loksins er eitthvað að gerast hérna megin. Ég hef verið afar upptekin við að halda barnaafmæli ;-) Tvo daga í röð!! Ég tel mig hafa fengið nokkuð góða æfingu í að hafa hemil á eins og einum 7 ára bekk. Þetta tók verulega á en geðheilsan er þokkaleg...ótrúlegt en satt ;-)

Nú er ég alveg búin að klúðra skilaboðaskjóðunum hjá mér. Fékk leiðbeiningar en hef greinilega ekki gert allt rétt og nú er ég strand í bili. En þetta skal takast... og ég mun bráðum bjóða upp á íslenska skilaboðaskjóðu ;-)

Þangað til í betra tómi bið ég að heilsa ykkur...

þriðjudagur, september 16, 2003

Athugasemdir

Komið þið sæl.
Ég var að setja inn athugasemdakerfi hjá mér. Það heitir reyndar shout out sem ég er nú ekki alltof ánægð með. Vil hafa þetta "athugasemdir" en ekki eitthvað á ensku. :-)
En þangað til ég finn eitthvað út úr þessu þá bið ég ykkur að láta ekki enskusletturnar angra ykkur, bara að skrifa sem mest í athugasemdir (shout out) ;-) Ég vil endilega lesa frá ykkur!

Heyrumst eða lesumst fljótlega...

mánudagur, september 15, 2003

Mynd

Myndir:

Vefrallý um Bahá’í trúarbrögð

Komið þið sæl. Loksins birtist vefralllýið:

Vefrallý um Bahá’í trúarbrögð. Þetta vefrallý byggist á því að nemendur fylgja leiðbeiningum um það hvar þeir geta fundið svör við spurningunum.

Farðu á vefinn: http://www.bahai.is/ og smelltu á fróðleikur
Þar átt þú að finna svör við eftirfarandi spurningum.

Bahá’í trúin telst til sjálfstæðra trúarbragða heimsins og er þeirra yngst. Á Íslandi er trúin iðkuð en það eru þó mjög fáir sem þekkja hana. Hér á eftir átt þú að leita að svörum við spurningum henni tengdum og þú munt án efa verða margs vísari um trúna og fólkið sem hana stundar. Góða skemmtun ;-) .

Hver er stofnandi Bahá’í trúarbragðanna?
Hvert er meginstefið í boðskap Bahá’u’lláh ?
Hver er tilgangur lífsins samkvæmt Bahá’u’lláh?
Hvernig lýsti Bahá’u’lláh lífi í þessum heimi?
Hvar andaðist Bahá’u’lláh og hvar er hann grafinn ?
Hver var Bábinn?
Hver urðu örlög hans?
Hver var fyrsti bahá'ínn á Íslandi?

Farðu á tengilinn fréttir og finndu svör við eftirfarandi spurningum:

Hvar er fyrsta tilbeiðsluhús bahá’ía á vesturlöndum og hvenær var það reist ?
Hvar var sumarskóli bahá’ía starfræktur ?
Hvaðan kemur aðalfyrirlesari skólans?
Hvaða leiði merkrar bahá'í konu fannst í London á dögunum?
Hvað verður fjallað um á málþingi um samskipti fólks af ýmsum trúarbrögðum sem haldið verður þann 20.September nk.?
Hvað fannst þér áhugaverðast á þessari vefsíðu?
Hver vegna?
Hvað kom þér mest á óvart?
Hvers vegna?
Hvað áhrif telur þú að Bahá’í trúarbrögðin hafi haft á heimsbyggðina og mannkynið?
Hefur þú lært eitthvað af þessu vefrallýi?

miðvikudagur, september 10, 2003

Má maður vera bjáni í friði ??

Ég ætlaði að breyta eitthvað útliti síðunnar en áttaði mig alls ekki á því að þá færu allar tengingar út. Þannig að ég mun laga þær eins fljótt og hægt er ;-) ...

Myndin af Eggert

Ég verð að biðja ykkur að fyrirgefa mér það að ég er enn með myndina af Eggerti uppi. Það er vegna þess að ég hef ekki getað minnkað myndina af mér. En ykkur finnst Eggert nú bara svo sætur þannig að ég hef ekki áhyggjur alveg strax. Vona bara að þetta valdi ekki misskilningi ;-)...

Powerpoint námsefni!

Ég á að skila námsefni með powerpoint sniði og hanna vefrallý fyrir nemendur. Ég hef áhuga á að fjalla um sólkerfið okkar í ppt-glærum. Ég hef áhuga á því vegna þess að sonur minn er mikið að spekúlera í slíku efni þessa dagana. Ég tel að það gæti verið gaman að leyfa honum að fylgjast aðeins með þessu. (Reyna að sameina nám og uppeldi ;-) .

Efni fyrir vefrallýið er ekki alveg komið á hreint í augnablikinu en það verður fljótlega...

mánudagur, september 08, 2003

Pysjurnar!

Ekki má gleyma pysjutímanum sem er reynda á undanhaldi þessa stundina. Nú er það þannig að maður skal skrá hverja pysju sem maður bjargar og vigta a.m.k. fjórar. Við höfum ekki verið fengsæl þetta árið en þó bjargað einhverjum. Þvílík sæla hjá börnum þessarar eyjar að fá að vaka frameftir við björgunarstörf og horfa svo á eftir unganum fljúga á haf út fyrir þeirra gæsku og hjálpsemi. Ég held að þetta sé afar þroskandi fyrir börn og ekki síður fyrir foreldrana. Maður skemmtir sér að minnsta kosti ekki síður en barnið...

Gleðilegan mánudag :-)

Komið þið sæl aftur. Þrátt fyrir fögur áform um langdvalir við nám fór helgin aðallega í að hjálpa til í barnaafmæli og taka á móti gestum. Eða þannig. Afmælið var hjá vini sonar míns og ég bauð fram aðstoð við að halda uppi gleði og aga. Kennaraneminn sjálfur þótti efnilegur veislustjóri. Þetta gekk nú allt stóráfallalaust fyrir sig en mikið ofboðslega var ég þreytt að þremur klukkustundum liðnum! Mér fannst ég hafa verið heilan dag í því að afvopna 7 ára stráka og reyna að hafa hemil á þeim. Þeim þótti bara nokkuð gaman held ég en höfðu lítinn skilning á því hvers vegna þeir áttu að vera stilltir, máttu ekki klifra í gluggum og spranga í gardínum. En við gerðum okkar besta og ég held að þeir hafi nú alveg unað glaðir við sitt. En kennaraneminn fór heim og hvíldi sig þar sem öll orka var uppurin. Það var ekki laust við að það hvarflaði að honum að hugsanlega væri þetta starf ekki mikið fyrir hann, hvort það væri ekki bara best að læra viðskiptafræði! En svo rann af honum þreytan og daginn eftir var hann þess fullviss að þetta væri einmitt starfið fyrir hann og þrátt fyrir þreytu eftir síðustu veislu þá muni hann bara læra af því og skipuleggja sig betur næst.
Sunnudagurinn var svo annars eðlis. Þá var mín dregin upp úr rúminu klukkan 09:45 og mátti byrja að taka á móti ættingjum sonarins sem var alveg hin besta skemmtun þrátt fyrir smá syfju. Um var að ræða langömmu og langafa ofan af fastalandinu sem voru á ferð með harmonikufélaginu. Sonur minn á nefnilega langömmu sem spilar á harmonikku. Geri aðrir betur.
Þegar þau höfðu kvatt og drengurinn gabbað langafa með sér í smá kúluvarp úti í garði komu vinir okkar í rifsberjaísveislu sem var löngu ákveðin. Drengirnir höfðu verið svo myndarlegir að týna rifsber af rifsberjatrénu í garðinum okkar og fengu umræddan ís í verðlaun. Sem var góður. Um að gera að nota uppskeruna úr garðinum ;-). Að lokum fengum við yndilega stúlku í heimsókn ásamt Helgu minni. Umrædd stúlka er af indverskum ættum og er alveg yndisleg. Hún er náttúrulega geislandi falleg og hefur þessa líka útgeislunina. Hún bókstaflega glitrar af gleði og gefur mikið af sér. Vonandi eigum við eftir að sjá meira af henni í framtíðinni.
Þannig að það fór lítið fyrir námi þessa helgina því miður en nú situr maður bara í vinnunni í hádeginu og les til að vinna upp það sem glataðist.

föstudagur, september 05, 2003

Sápuópera í Reykjavík

Ég verð að smella hér krækju á "blogg" sem ég sá á annálnum hans Kela. Lesið endilega lýsingarnar á stefnumóti hennar við einhvern sem hún fann á einkamál.is ;-)

miðvikudagur, september 03, 2003

Mynd af mér og Helgu vinkonu minni ;-)

Hér erum við Helga á Hippaballi í Höllinni í Vestmannaeyjum í mars 2003.

þriðjudagur, september 02, 2003

Netleikir

Betra.net er mjög sniðugur leikjavefur. Þar eru skemmtilegir stærðfræðileikir sem maður getur brjálast yfir og ýmsir fleiri. Kvikmyndaprófið er líka skemmtilegt. Ég fékk 3 af 20. Horfi næstum þvi aldrei á bíómyndir. Prófið endilega! Það er heill hellingur af leikjum á þessum vef. Ef ykkur leiðist þá ættuð þið að finna eitthvað við ykkar hæfi.
Þessi leikjavefur er ágætur.
Fyrir þá sem eru komnir í jólaskap, þá er hér einn jólasveinaleikur.Ég skil bara ekki hvernig börn geta haft þetta svona vel á valdi sínu. Ég fékk "too slow" í einkunn :-) En hafði bara gaman af.

Kennaravefir :-)

Hér er tenging í Gullkistu Námsgagnastofnunar. Þetta er skemmtilegur vefur með hugmyndum að heimanámi fyrir snjalla krakka. Mikið úrval af skemmtilegum verkefnum fyrir nemendur.
Hér er einn á ensku reyndar með kennsluhugmyndir fyrir kennslu yngri barna. Ég set þetta með þar sem ég veit að það eru nokkrir á þessu námskeiði sem hefa einnig valið kennslu yngri barna sem kjörsvið.
Ölsuselsskóli er greinilega með á nótunum. Þar er ýmsar góðar tengingar að finna:
Hér er einn sem maður getur notað til að útbúa vefpróf/ gagnvirk próf.Ég held að þetta komi sér vel fyrir okkur þar sem tækninni fleygir sífellt fram og nemendur okkar munu vafalaust nota hana í náminu í auknum mæli.
Hulduheimar er mjög spennandi vefur.
Jæja ég vona að eihverjum verði þetta að gagni. Ég er viss um að ég á eftir að nota eitthvað af þessum hugmyndum.
Gott í bili ;-)

Samskiptakerfi.

Samanburður á samskiptakerfum á vefnum:
Málefnin.com þessi vefur er ágætlega uppsettur. Honum er skipt upp eftir málefnum og allir geta tjáð sig þar.
Einkamál.is. Uppsetningin er ágæt en mér finnst þetta einhvernveginn alltof "skerí". En Páll Óskar eða Dr.Love er með leiðbeiningar fyrir þá sem þora að hitta einhvern þarna. Persónulega finnst mér Friendster sniðugt fyrirbæri. Ég fékk svona boð um að skrá mig frá vini mínum sem er bandarískur en er að vinna í Bosníu. Mér fannst það sérstaklega gaman að sjá þá sem hann þekkir og þá sem þeir þekkja o.s.frv. en ég hef nú ekki notað þetta nema bara til að skoða myndir og lýsingar á þessu fólki. En mjög góð hugmynd fyrir þá sem eiga ólíka vinahópa.
Þá er það Web-ct. Það venst mjög vel og ég kann afar vel við það kerfi sem samskiptatæki við samnemendur og kennara. Mætti vera sérstök krækja í eitthvað sem væri svipað sett upp og t.d. Friendster þannig að nemendur geti sett upp myndir af sér og kynnt sig á einfaldan hátt.

Táknin ;-)

Ég læt þessi skrítnu tákn standa áfram þar sem það sýnir ferlið eins og það er.

Kynning taka tvö ;-)

Best að gera þetta núna eftir sakramentinu og klára þessa kynningu.

Ég er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum og bý þar ásamt syni mínum, Valdimari Karli, 7 ára. Ég útskrifaðist sem stúdent af félags- og sálfræðibraut frá framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum vorið 1993. Ég stundaði fjarnám í ferðamálafræði og íslensku við Háskóla Íslands, haustið 1999 og 2000. þannig að maður er nú orðinn voða sjóaður í fjarnáminu. Ég hóf svo nám í grunnskólaskor við KHÍ haustið 2001. Kjörsvið mín eru upplýsingatækni og kennsla yngri barna. Valdi það þar sem tæknin er orðin svo mikilvægur hluti samfélagsins og svo hefur sálfræði og þá sérstaklega þroskasálfræði alltaf heillað mig. Ég hef einhvern veginn alltaf ætlað að verða kennari en hef samt enga reynslu af því starfi. En hún kemur nú bara síðar. Ég hef alveg trú á að ég muni standa mig í starfinu en efast ekki um að þetta er krefjandi starf. Fyrir utan námið og fjölskyldulífið hef ég áhuga á tónlist, ljósmyndun og ferðalögum. Gott í bili ;-)

Greinilega skárra!

Ég lenti í vandræðum með skrifin á sunnudaginn. 'Eg hef eitthvað ruglast í þessu og þá virðist sem þetta sé vandamál sem er bundið við tölvuna en ekki bloggsíðuna sjálfa. Ég mun endurbirta fyrri færslu fljótlega en þar kynni ég mig.

Prufa!

Ég er að athuga hvort að þetta komi öðruvísi út í annarri tölvu!