dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

föstudagur, janúar 18, 2008

Breska skólastúlkan...komin á kreik...

Komið þið sælir, ágætu lesendur. Gleðilegt ár!
Ég vel daginn í dag til að hefja skrif mín aftur eftir næstum fjögurra mánaða hlé. Þetta er góður dagur, hún Anna Lása, frænka mín, á 75 ára afmæli í dag. Þeir sem til mín þekkja persónulega, vita mætavel hver ástæðan fyrir blogg-hléinu er og það er svo sem ekki auðvelt að koma til baka. En...bloggið er hluti af hinni „venjulegu“ Ásu, sem ég er að reyna að finna í augnablikinu, þannig að ég ætla að brjóta ísinn í dag. Nýtt ár er hafið og ég vona svo sannarlega að það færi sjálfri mér og fjölskyldu minni, nú ásamt öllum öðrum auðvitað líka, gæfu og gleði. Ég þakka fjölskyldu og vinum fyrir ómetanlegan stuðning í gegnum áfallið sem fjölskyldan mín varð fyrir. Ég hef reyndar alltaf vitað að ég ætti yndislegt fólk að en ég fékk fullvissu um það allt saman núna. Ég vona að ég verði ykkur sami stuðningur þegar þið þurfið á mér að halda!
En snúum okkur nú að léttara hjali. Við VK komum aftur til UK á Þrettándanum og fengum mjög svo herramannslega fylgd frá flugvellinum heim til Helga og Palla á London Bridge. Minn yndislegi vinur, Matt, tók á móti okkur og hélt á töskunum fyrir okkur í gegnum neðanjarðarlestakerfi Lundúnaborgar. Ekki allir sem fá svona þjónustu. Dr.Helgi tók á móti okkur með myndarskap eins og venjulega. Fórum í hádegismat á enskum pöbb og svo í rómantíska gönguferð meðfram Themes ánni. VK var alveg að tapa sér yfir athygli tveggja karlmanna...og ég líka...heheh.. um kvöldið naut ég síðan snilldarhæfileika Helga í eldhúsinu...á meðan VK svaf eftir okkar langa ferðalag...fiðluleikarinn Martin var reyndar líka með okkur...enn einn sæti strákurinn...hehe..maður þarf nú athygli segðu...
Lendingin í Heronbank var lævi blandin en ekki svo slæm þó og það var virkilega gott að hitta skólafélagana og kennarana. Þetta er hátt í 30 manna hópur sem hefur staðið við bakið á mér sem ein heild. Fyrir það er ég óendanlega þakklát og það er ekki síst þeim að þakka að ég lét verða af því að koma til baka...Mohammed, frá Palestínu, kom t.d. fyrsta kvöldið til okkar í te...VK til mikillar gleði...en hann heldur að Mo sé á svipuðum aldri og hann...þó hann sé í reynd 31 árs. Finnsku vinir okkar tóku líka vel á móti okkur. Marjut var búin að fara í Tesco og versla það helsta fyrir okkur, þannig að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því...þarf ég nokkuð að segja meira?
Veðrið hérna leikur við okkur...tjöllunum finnst þetta frekar dreadful...en þetta er satt að segja svipað og milt haust eða vor heima...þannig að ég kvarta ekki meðan við getum farið ferða okkar hjólandi eða gangandi.
Dagurinn í dag og helgin framundan er tileinkuð ritgerðunum mínum sem ég fékk frest til að skila. Ég tel mig vera að komast yfir athyglisbrestinn smám saman...en það er mikið átak...sést kannski best á því að ég vel einmitt þennan dag til þess að koma aftur í bloggheiminn..heheh
Jæja, ég held að þetta verði að duga í bili...Gullna gæsin kallar...og ég verð að vera dugleg... svo ég fái verðlaunin!
Lifið heil elskurnar mínar!