dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

föstudagur, nóvember 05, 2010

Íslenska netmiðlanna

Ég er Íslendingur. Ég skrifa blogg. Ég hef nokkuð gott vald á íslensku en nota alls ekki fullkomið mál og vissulega slæðast innsláttarvillur inn á milli. Ég geri hins vegar mitt besta eins og ég hef tíma og nennu til í hvert sinn.

Ég les íslenska netfréttamiðla daglega og mér ofbýður stundum ef ekki oftar. Ég reikna með að fólk sem skrifar greinar fyrir netmiðla sé á launum við slíka iðju. Þetta eru blaðamenn í sjálfu sér og þar að auki í að minnsta kosti einu tilfelli á launum hjá íslensku þjóðinni. Ég geri einnig fastlega ráð fyrir því að viðkomandi hafi verið ráðnir til verksins vegna hæfileika sinna við skriftir. Ég óttast um íslenska tungu þegar ég les pistla sem líta út eins og uppkast lesblindra einstaklinga. Það skal jafnframt tekið fram að fólk með sértæka lestrarörðugleika er ekki verra en aðrir. Langt frá því! En ég geri ekki ráð fyrir því að um slíkt sé að ræða í þessum tilfellum. Það er flausturgangur og klúðursleg fljótfærni sem leiðir til þess að sundurklipptar setningar, innsláttarvillur og fleiri ambögur slæðast í skrifin. Mögulega, vegna þess að greinin á ekki að birtast á prenti og alltaf hægt að leiðrétta eftir á, er viðkomandi kærulaus og nennir ekki að eyða tveimur mínútum eða svo í yfirlestur. Það myndi ekki taka meira en eina til tvær mínútur að lesa yfir því pistlarnir eru oftast fremur stuttir. Er virkilega til of mikils mælst að pistlahöfundar netmiðla lesi yfir verk sín áður en þeir henda þeim á netið? Ég skal gjarnan fyrirgefa stöku innsláttarvillu en mér blöskrar metnaðarleysið og ambögustíllinn sem mér finnst sífellt meira áberandi. Mér blöskrar svo mikið að ég sé ástæðu til að nöldra yfir því á mínu eigin bloggi og þá er nú mikið sagt. Hvaða fólki var til dæmis sagt upp hjá Ríkisútvarpinu? Ég reikna með að þeir hæfustu hafi fengið að halda sínum störfum. Eru þeir svo ofhlaðnir verkefnum fyrrum samstarfsfólks síns að þeir hreinlega hafa ekki tíma til lesa yfir eigin skrif? Ef svo er þá finnst mér það gegndarlaust ábyrgðarleysi af hálfu íslenskra stjórnvalda að standa fyrir slíku. Ég hef ekki séð þýtt sjónvarpsefni nýlega en velti fyrir mér hvort það sé á svipaðri leið. Ég ætla bara rétt að vona að svo sé ekki.

Lifum heil og varðveitum undurfagra málið okkar! Líka á netinu!

Hversdagslegar hugleiðingar í Fay

Í augnablikinu er maður að stilla píanóið hans Valla Kalla. Hann sagðist öfunda mig af því að stofan mín líti út eins og frumskógarhús. Hann sagði líka að ég væri heppin að hafa fallegu haustlitina á trjánum núna. Það er víst ekki þannig í Tulsa þar sem hann býr. Jú, ég er einstaklega heppin að mörgu leiti. Lífið hefur leikið við mig að mestu en hefur einnig birt mér hyldýpi sorgar og missis. Þó ekki jafn mörg og sumum. En þetta átti ekki að verða einhver væmnispóstur í dag svo ég held bara áfram með hugleiðingarnar.

Undarleg hljóð hafa borist úr loftræstikerfinu í svefnherberginu undanfarinn mánuð eða svo. Við fengum meindýraeyði sem lagði beitu í rörið en ekki var hún nú snert. Maurunum hefur hins vegar fækkað verulega og ég hef ekki orðið vör við kakkalakka síðan þeir komu. Sem er hvort tveggja jákvætt. Dýraeftirlit borgarinnar kom svo í vikunni og setti upp gildrur til að freista þess að lokka í þær viðkomandi næturgest(i). Það byrjaði kostulega þar sem kötturinn sem býr á hlaðinu hjá okkur fór náttúrulega beint í gildruna. Beitan var líka kattamatur þannig að það mátti svo sem búast við því. Ég sleppti honum og skammaði hann duglega á íslensku. Spennti svo gildruna aftur en auðvitað fór hann strax í hana. Þá leyfði ég honum bara að dúsa þar fram á kvöld. Í það minnsta virðist það hafa dugað því að morguninn eftir var hann fjarri góðu gamni og pokarotta sat í gildrunni í staðinn. Sem er gott. Þannig hefur það verið undanfarna morgna en í morgun var gildran lokuð en viðkomandi hafði tekist að troða sér út. Sennilega mús eða álíka. Nú er hins vegar gildrutímabilinu lokið og ef ég vil fleiri þá verð ég að fara aftur á biðlistann. Sem ég ætla að gera því við vorum vakin kl 4.30 við þvílíku lætin, krafs og klór. Frekar hrollvekjandi svona þegar maður liggur varnarlaus undir sæng.

Ég er enn að bíða eftir vinnuleyfi hérna. Ég vona að ég geti fengið vinnu því það er spes að vera heimavinnandi. Hef reyndar aðeins verið virk í leiklistinni en veit ekki hvert það mun leiða mig. Kemur í ljós. Vonandi á góðan og skemmtilegan stað.

Mér finnst æðislegt að fara á bændamarkaðinn á miðbæjartorginu á morgnanna. Hingað til hefur hann verið á þriðjudögum og fimmtudögum auk laugardaga. Ég fíla fimmtudagsmorgnana best. Þá er minni asi og tími til að spjalla við áhugavert fólk. Fólkið er svo vingjarnlegt og afurðirnar svo girnilegar. Í nóvember verður hann bara á laugardögum og hættir svo fram í apríl. Það verður skrítið. En við finnum eitthvað út úr því.

Þetta er gott í bili. Lifið heil.

fimmtudagur, nóvember 04, 2010

Lífsins rafræni annáll

Var að lesa í gegnum bloggið mitt og verð að játa það að ég er Salvöru Gissurardóttur afar þakklát fyrir að hafa skyldað mig til að opna þetta blogg á sínum tíma. Rúmlega 7 ár og ekkert minna. Auðvitað með mislöngum hléum milli pósta en ég geri mér grein fyrir því hversu dýrmæt heimild bloggið er yfir líf mitt undanfarin ár. Ég gleðst í hjarta mínu við að lesa gullkorn sonar míns sem ég hef haft vit á að færa í blogg og ýmsir atburðir eða hugsanir sem ég hef gleymt rifjast upp við lesturinn. Þetta er sérlega dýrmætt á þessum síðustu og verstu tímum þar sem maður fer ekki einu sinni með myndir í framköllun lengur og hvað þá að maður haldi dagbók. Lifið heil

Kreppumáltíð úrræðagóðu húsfreyjunnar

Mér fannst ég þvílíkur snillingur í eldhúsinu í kvöld. Úr tvennu sem hefði mjög sennilega endað í ruslinu á morgun tókst mér að útbúa dýrindis máltíð.

Ég ætla að nótera snilldina fyrir stóru framtíðarkreppuna. Hún er sem hér segir:

Aðalréttur:

Kjúklingasúpa

1 beinagrind af kjúklingi sem var í matinn í fyrradag, mjög gott að hafa afgangsgrænmeti sem var eldað með kjúllanum. Ég hafði eldað kjúllann í stórum ofnpotti og smellt sætum kartöflum, lauk og gulrótum með til að bakast. Ég notaði þennan sama pott og hliðarnar voru aðeins svartar sem er eiginlega bara betra.
Vatni bætt í pottinn þar til að kjúllinn er nokkurn veginn kominn á kaf.
Hitað þar til bullsýður. Þá er sett á minnsta hita og lok sett yfir pottinn. Látið malla í klukkutíma eða þar til vatnið er búið að taka bragð og lit.

Í potti er steikt ein gulrót, hálfur sellerístöngull og smá laukur (magn og tegund fer eftir smekk eða því sem maður á)
þegar þetta er farið að brúnast er sigti sett yfir pottinn og vatninu af kjúllanum hellt yfir.

Bragðbætt með smá ljósri sultu, sojasósu og chilli ef maður vill hafa þetta sterkt. Bara þangað til maður er ánægður.

Út í þetta bætti ég að lokum afgangs smákartöflum, grænum baunum, þremur sneiðum af spægipylsu skornar í teninga, vorlauk í litlum bitum, hálfri niðurskorinni kjúklingabringu (afgangurinn af kjúllanum) og nokkrum bitum af ítölsku brauði sem var orðið hart. Vitaskuld má nota hvað sem er út í. Eða nánast ekkert. Bara eins og efni gefa til.


Og gjörið svo vel: orkusúpa sem losar kvef og kvilla.

Eftirréttur:

Möndlu-krydd-strúdel

4 Mexíkóskar hveiti pönnukökur (tortilla)
Sykur með kryddi (kanill &/eða allrahanda)
1 msk smjör (brætt)
4 msk möndlusmjör (má vera hnetusmjör eða bara venjulegt smjör)
perusulta (má vera hvaða sulta sem er)
Flórsykur

Pönnslurnar eru smurðar með möndlusmjörinu og sultunni. Kryddsykrinum stráð yfir.
Rúllað upp og penslað með smjörinu sem hefur verið blandað við kryddsykur eða bara krydd ef maður vill minni sykur.
Skorið í bita þversum en þó soldið langsum líka, þannig að sneiðarnar verða stærri.

Bakað á 190 °C í 10 mín eða lengur eftir því hvernig ofninn er.

Raðað á bakka og flórsykri sigtað yfir. Ég ætlaði að setja möndluflögur yfir en gleymdi því...held samt að það væri smart.

Ógó flott og gott.