dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

sunnudagur, febrúar 07, 2010

nöldur og grobb

Í kvöld eldaði ég fasana í fyrsta sinn á ævinni. Mér hefur alltaf þótt þeir svolítið rómantískir síðan Margrét Lilja vinkona bauð mér einu sinni fyrir löngu síðan í dásamlegan kjúkling sem var eldaður eftir franskri fasana uppskrift....með eplum og koníaki man ég sérstaklega. Ógó góður. Ég var með epli í mínum í kvöld og romm en ekki koníak. Það voru nokkrar fjaðrir á þeim og ég þurfti líka að plokka úr þeim agnarlitlu hjörtun...þau höfðu orðið eftir ásamt smá bút af lifrinni. Það tók aðeins á í fyrstu en var svona líka fljót að jafna mig að í þokkabót þá saxaði ég litlu smáu hjörtun og kransæðarnar og lifrarbútana....og notaði í grunn að sósu...örugglega besta sósa sem ég hef gert um ævina...ég er ekki sérlega flink með þær og það er líka allt í lagi.

Ég er voða mikið að hugsa þessa dagana. Það er skrítið að vera svona heimavinnandi. Ég á soldið erfitt með það en það er samt skemmtilegt svona á stundum. Og oft nóg að gera þó svo að ég eigi það til að glápa á sápuóperur og skoða facebook aðeins of oft til að geta talist gagnlegt.

Ég fór í skólaheimsókn um daginn vegna starfs sem ég var að sækja um. Það var ekkert svaka spennandi svo sem...en vinna....Svo þegar ég fékk tilkynninguna um að hafa ekki fengið starfið missti ég aðeins sjálftraustið. Svona er maður skrítin skrúfa en það er ekki um annað að ræða en að halda áfram að leita. Það hlýtur eitthvað að dúkka upp fyrr en síðar. Það sem veldur mér einna mestum áhyggjum með að finna vinnu hér í Englandi er að Englendingar eru svo ofsalega málugir...getur maður sagt svoleiðis? Alla vega mér finnst þeir nota svo mikið af orðum til að skýra hlutina. Og þá finnst mér það sem ég hef að segja svo snubbótt, eins og ég viti ekkert um neitt...og svo nota þeir svo mikið af skammstöfunum...sem ég veit ekkert alltaf hvað eiga að þýða. Það er nú alveg efni í heila bloggfærslu svo sem. Sem dæmi get ég nefnt að ég er á póstlista hjá TES og þarf að vera með QTS en telst ekki NQT svo er spurning hvort maður fari í SEN eða EYFS, nú eða LEA...eða hvort maður lendi með nemendur sem þjást af SEBD..nú svo þarf að fylgjast með PPA og alltaf að kvíða fyrir OFSTED skýrslunni. Ég skora á lesendur, ef einhverjir eru, að giska á þýðingu þessara skammstafana. hehe....þetta er eiginlega bara fyndið.

En jæja, best að hætta að væla.

Við vorum með opið hús hérna heima í gær. Kammertónleika fyrir vini og vandamenn. Það mættu nú ekkert rosalega margir en þetta var rosalega fínt fyrir litla píanóleikarann sem stressaði sig smá áður en fólkið kom og fékk því aðeins að æfa fyrirtónleikastress. Sem er sennilega gott þar sem hann hefur verið beðinn að spila á masterclass hjá kennurum Birmingham Conservatoire þann 28.febrúar. Það er voðalegur heiður.
Svo langar kennarann hans að hann taki þátt í keppni í píanóleik í mars. Ég veit ekki alveg hvað mér á að finnast um svoleiðis keppnir...en þetta er ekki neitt peningadæmi heldur meira að fá umsögn og vottorð um að hafa tekið þátt. Annars eru Englendingar svo metnaðarfullir að hérna verður maður að vera á fullu við að viðhalda ferlinum, þannig að svona hlutir koma eiginlega í beinu framhaldi af prófinu hans síðasta sumar. Gott mál bara held ég.

Það er skrítið að búa núna í öðru landi, svona án þess að ætla heim til Íslands eftir ákveðinn tíma. Það fer vel um okkur. Það vantar ekki en það er furðulegt að vera í burtu frá fjölskyldunnni og vinunum. Spurningar varðandi framtíðina leita á hugann og um leið einhver ónotatilfinning þar sem við erum ekki með neinar fastar áætlanir eftir september. Ekki það að plön breyti nokkru um framvindu lífsins þegar á reynir. Ég var heldur betur með plön þegar hún mamma kom út til okkar haustið 2007 og ég nýbyrjuð í mastersnáminu. En sá sem öllu ræður tók aldeilis fram fyrir hendurnar á manni þá. Það er kannski bara best að vera ekkert með nein sérstök plön þega öllu er á botninn hvolft?

Valli Kalli er að spila noctúrnu eftir Chopin og ég er eiginlega hálfklökk að hlusta á krakkann. Þvílík sorg og dýpt sem hann nær að túlka í þessu verki. Hann hefur lífsreynslu þó ungur sé og einhvern veginn virðist hann ná að tjá sig með tónlistinnni. Svo þegar verkinu er lokið...lítur hann upp og brosir...hvernig fannst þér þetta mamma? Og dettur svo beint í spila Hendrix á píanóið....(við erum orðin pínu þreytt á Hendrix greyinu eftir smá ofspilun bæði á gítar, píanó og svo í tölvunni...hehe). Ég bið hann að endurtaka noctúrnuna, sem hann gerir með gleði. Svona er ég heppin með hann. :-D

Jæja best að fylla ekki skjáinn með einni færslu, þó kominn sé tími á slíkt hérna. Læt þetta duga af nöldri og grobbi í bili. Sjáum hvað setur með framhaldið.

Lifið heil!