Fermingardagurinn minn...
Ég man svo vel eftir því þegar fullorðið fólk var alltaf að spyrja hvort ég væri ekki spennt fyrir þessu. Mér fannst þetta svolítið ótrúlegt en vissi svo sem að það kæmi að þessu. Erna heitin frænka mín var sérlega áhugasöm um það hvernig mér þætti þetta og var mikið spekúlerað í hárgreiðslunni og fatnaðinum. Það var fljótlega ákveðið að Íris frænka sem er hárgreiðslukona myndi sjá um greiðsluna en förðun var ekki inni í myndinni enda var maður með eindæmum saklaus í öllu slíku. Maður fór í nokkrar prufuhárgreiðslur á Heiðarveginn til Írisar sem sá um þetta allt af stakri prýði.
Þrátt fyrir að hin illræmda “eighties” tíska hafi verið í algleymingi þá var ég merkilegt nokk ekki sérstaklega mikið að elta hana. Var alveg til í að hafa þetta frekar klassískt. En bíðið bara ég á eftir að lýsa fötunum. Þau voru geðveikt flott kjólföt sem voru þannig úr garði gerð að það var hægt að taka löfin af jakkanum, svona ef maður vildi nota hann sem mittisjakka seinna. Sem var gert nokkrum sinnum. Jæja fötin voru svört og svo var kjólfataskyrta og dökkbleikur mittislindi og slaufa. Ég legg ekki meira á ykkur. Hvað ætli það hafi verið að troða fermingarstúlkum í kallaföt?? Hún Jóhanna vinkona mín fermdist sko í appelsínugulum kjólfötum. Vá hvað mér fannst það eitthvað kúl. ; -)
Athöfnin var nokkuð hefðbundin og svo var haldin þreföld Reynistaðar-fermingarveisla í Alþýðuhúsinu. Eins og svo oft. Við vorum þrjú frændsystkin sem fermdumst þennan dag; Huginn Helga, Pétur Erlings og ég. Erna Þorleifs frænka fermdist reyndar líka þennan dag en var með veislu með Ingó Kristjáns frænda sínum hinum meginn frá. Veislan okkar var rosalega flott; hlaðborð og kransaterta og konfekt í eftirrétt.
Þetta var svaka stuð. Ég man hvað ég hlakkaði til að geta farið heim að skoða gjafirnar og telja peninginn og spjalla við Jóhönnu. Dagurinn eftir er sérlega góður í minningunni því að þá fórum við vinkonurnar niður í bæ og ég keypti mér plötu sem kallaðist Mozart superstar. Til að prófa græjurnar maður. Og maður hlustaði á Mozart í fermingargræjunum. Ótrúlegt nokk að það hafi ekki verið Duran Duran. En maður var náttúrulega nörd. Þetta var svo fallegur dagur og sólin skein og ég var svo ægilega hamingjusöm. Fannst ég soldið fullorðin og svo átti ég græjur og körfustól sem hún Imba Johnsen blessuð frænka mín gaf mér í fermingargjöf. Ég fékk líka langþráð klarinett sem reyndar liggur núna ónotað ofan í tösku og bíður þess að fá að láta ljós sitt skína. Ég man ekki hvað ég fékk mikinn pening en það var alveg hellingur. Mér fannst líka merkilegt hvað ég fékk mikið að lömpum og skartgripum. Svo þóttu mér skeytin frekar merkileg. Sat heillengi við að reyna að átta mig á öllum nöfnunum. Mér þótti æði að fá svona mörg skeyti. Man ekki hversu mörg en þau voru mörg.
Ég var ekki sérlega mikil efnishyggjumanneskja á þessum árum (ekki frekar en núna ha,ha) og það gladdi mig einstaklega mikið að fá athyglina sem fylgdi tímamótunum. Gjafirnar voru bara plús.
Altarisgangan er líka mjög minnisstæð þar sem ég og móðir mín ásamt ömmu gengum til altaris. Við fengum allar hláturskast sem átti rætur sínar að rekja til þess að mér svelgdist frekar illa á oblátunni. En það tókst alveg að bæla niður flissið og mig minnir að við höfum ekki orðið okkur til skammar.
Eins og Stebba skutla þá fór maður í myndatöku til hans Óskars heitins en það var ekki fyrr en daginn eftir. Maður ætti að skanna eins og eitt stykki og leyfa ykkur að sjá!! Viljið þið það kannski? Við sjáum til...
Jæja það var gaman að rifja upp fermingardaginn og vona ég að þið hafið haft gaman af. Ég ætla að skora á Möttu frænku að rifja sinn upp. Ég man ekki einu sinni eftir veislunni hennar en ég hlýt bara að hafa verið þar.