dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Fermingardagurinn minn...

Hún Stebba skutla skoraði á mig að lýsa fermingardeginum mínum. Hálfgert klukk svona. Jæja best að verða við áskoruninni og segja ykkur frá mínum fermingardegi. Það vill einmitt svo skemmtilega til að núna í lok mars verða nákvæmlega tuttugu ár liðin frá þeim merka degi í mínu lífi. Já, ég veit að það er alveg ótrúlegt sko!

Ég man svo vel eftir því þegar fullorðið fólk var alltaf að spyrja hvort ég væri ekki spennt fyrir þessu. Mér fannst þetta svolítið ótrúlegt en vissi svo sem að það kæmi að þessu. Erna heitin frænka mín var sérlega áhugasöm um það hvernig mér þætti þetta og var mikið spekúlerað í hárgreiðslunni og fatnaðinum. Það var fljótlega ákveðið að Íris frænka sem er hárgreiðslukona myndi sjá um greiðsluna en förðun var ekki inni í myndinni enda var maður með eindæmum saklaus í öllu slíku. Maður fór í nokkrar prufuhárgreiðslur á Heiðarveginn til Írisar sem sá um þetta allt af stakri prýði.
Þrátt fyrir að hin illræmda “eighties” tíska hafi verið í algleymingi þá var ég merkilegt nokk ekki sérstaklega mikið að elta hana. Var alveg til í að hafa þetta frekar klassískt. En bíðið bara ég á eftir að lýsa fötunum. Þau voru geðveikt flott kjólföt sem voru þannig úr garði gerð að það var hægt að taka löfin af jakkanum, svona ef maður vildi nota hann sem mittisjakka seinna. Sem var gert nokkrum sinnum. Jæja fötin voru svört og svo var kjólfataskyrta og dökkbleikur mittislindi og slaufa. Ég legg ekki meira á ykkur. Hvað ætli það hafi verið að troða fermingarstúlkum í kallaföt?? Hún Jóhanna vinkona mín fermdist sko í appelsínugulum kjólfötum. Vá hvað mér fannst það eitthvað kúl. ; -)

Athöfnin var nokkuð hefðbundin og svo var haldin þreföld Reynistaðar-fermingarveisla í Alþýðuhúsinu. Eins og svo oft. Við vorum þrjú frændsystkin sem fermdumst þennan dag; Huginn Helga, Pétur Erlings og ég. Erna Þorleifs frænka fermdist reyndar líka þennan dag en var með veislu með Ingó Kristjáns frænda sínum hinum meginn frá. Veislan okkar var rosalega flott; hlaðborð og kransaterta og konfekt í eftirrétt.

Þetta var svaka stuð. Ég man hvað ég hlakkaði til að geta farið heim að skoða gjafirnar og telja peninginn og spjalla við Jóhönnu. Dagurinn eftir er sérlega góður í minningunni því að þá fórum við vinkonurnar niður í bæ og ég keypti mér plötu sem kallaðist Mozart superstar. Til að prófa græjurnar maður. Og maður hlustaði á Mozart í fermingargræjunum. Ótrúlegt nokk að það hafi ekki verið Duran Duran. En maður var náttúrulega nörd. Þetta var svo fallegur dagur og sólin skein og ég var svo ægilega hamingjusöm. Fannst ég soldið fullorðin og svo átti ég græjur og körfustól sem hún Imba Johnsen blessuð frænka mín gaf mér í fermingargjöf. Ég fékk líka langþráð klarinett sem reyndar liggur núna ónotað ofan í tösku og bíður þess að fá að láta ljós sitt skína. Ég man ekki hvað ég fékk mikinn pening en það var alveg hellingur. Mér fannst líka merkilegt hvað ég fékk mikið að lömpum og skartgripum. Svo þóttu mér skeytin frekar merkileg. Sat heillengi við að reyna að átta mig á öllum nöfnunum. Mér þótti æði að fá svona mörg skeyti. Man ekki hversu mörg en þau voru mörg.
Ég var ekki sérlega mikil efnishyggjumanneskja á þessum árum (ekki frekar en núna ha,ha) og það gladdi mig einstaklega mikið að fá athyglina sem fylgdi tímamótunum. Gjafirnar voru bara plús.

Altarisgangan er líka mjög minnisstæð þar sem ég og móðir mín ásamt ömmu gengum til altaris. Við fengum allar hláturskast sem átti rætur sínar að rekja til þess að mér svelgdist frekar illa á oblátunni. En það tókst alveg að bæla niður flissið og mig minnir að við höfum ekki orðið okkur til skammar.

Eins og Stebba skutla þá fór maður í myndatöku til hans Óskars heitins en það var ekki fyrr en daginn eftir. Maður ætti að skanna eins og eitt stykki og leyfa ykkur að sjá!! Viljið þið það kannski? Við sjáum til...

Jæja það var gaman að rifja upp fermingardaginn og vona ég að þið hafið haft gaman af. Ég ætla að skora á Möttu frænku að rifja sinn upp. Ég man ekki einu sinni eftir veislunni hennar en ég hlýt bara að hafa verið þar.

Móðursýki???

Mér finnst þetta skerí!

sunnudagur, febrúar 26, 2006

Fuglaflensa og Öskubuska...

Vá, ég asnaðist til að glápa á Kompás fyrr í kvöld og þvílík mistök. Umræðuefnið var fuglaflensan ógurlega og ég verð að játa að það fór um mig ískaldur hrollur þegar sóttvarnalæknir og fleiri sérfræðingar töluðu um viðbrögð á Íslandi. Best að byrja að hamstra dósamat og gera ráð fyrir big time inniveru. En ætli maður neyðist ekki til að hrista hrollinn úr sálinni og vona það besta þangað til allt verður vitlaust.

En að öðru. Ekki nóg með að maður hafi skroppið til Nýju Jórvíkur um síðustu helgi heldur bætti maður um betur og skellti sér í Sódómu Íslands. Og hafði gaman af. Markmið ferðarinnar var að sjá Öskubusku Rossinis með Sólveigu systur og Mörtu móður hennar. Við sáum líka kynningu í boði Vina óperunnar. Það var bara snilld og tel ég hana hafa opnað augu mín þannig að sýningin öðlaðist meiri vídd í huga mér. Fyrir sýningu fórum við á Enricos á Laugarveginum og var það bara kósý. Reyndar finnst mér staðurinn frekar dýr en ef maður á miða í Óperuna þá fær maður 20% afslátt af matnum. Sem er gott. En ekki víninu.Sem er verra.*hehe*.

Eftir sýningu var haldið í Reykjavík Centrum þar sem gist var yfir nóttina. Þar líður mér alltaf eins og ég eigi heiminn. Eftir dásamlegan svefn fram að hádegi tók við þrældómur í verslunarleiðangri. Fyrsta mál á dagskrá var að fara í vaskinn. Eða réttara sagt kaupa loksins handlaug og blöndunartæki á fína design-baðherbergið mitt. Fann eina geðveikt flotta í Húsasmiðjunni en viti menn, ekki til...en væntanleg þann 1.mai nk. Nei takk hugsaði mín. Nenni ekki að bíða svo lengi. Dreif sig í Byko en þar var nú ekkert mér að skapi. Þannig að ég brunaði aftur í Húsó og tók valkost númer tvö. Sem er bara flottur. Þannig að nú er þetta allt komið í hús og næsta mál á dagskrá að setja innréttinguna saman og tengja græjurnar. Þá verður kominn tími á Designers promotion. Eða með öðrum orðum gott partí heima hjá mér. Kannski að það verði með amerísku sniði til heiðurs hönnuðinum. Við sjáum til.

Eftir verslunarleiðangur dauðans var svo brunað í Herjólf þar sem manni var vaggað blíðlega alla leiðina heim. Rosalega var ljúft að koma heim á laugardegi. Mér fannst reyndar vera sunnudagskvöld þannig að dagurinn í dag var nokkurs konar plús.

Eitthvað annað krassandi? Veit ekki. Jú smá en ég ætla að bíða aðeins með það.

Annars bara lifið heil og passið ykkur á rjómabollunum!

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

THE SINGING COWBOY



Brian klikkaði náttúrulega ekki á því frekar en fyrri daginn...

Öll afritun bönnuð en...


endilega kommentið. : -)

NEW YORK


Jæja þá er maður kominn heim eftir frábæra ferð til New York. Ferðin heppnaðist í alla staði frábærlega en því miður verð ég að hryggja ykkur með því að þetta var ákveðið í ferðinni:

What happens in New York STAYS in New York!


Þannig að ... best að láta bara myndirnar tala. (Eða þær sem eru birtingarhæfar fyrir alnetið : - )

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Viðskiptafræði næturinnar?

Ég fór á ball í Höllinni í gær. Greifarnir (gömlu?) sáu um stuðið. Og tókst nú bara nokkuð vel til þrátt fyrir fámenni framan af. Úr því rættist nú þegar morguninn nálgaðist. Ég get nú ekki sleppt því að minnast á það að ég sá ballið auglýst á plakati í krónunni og þar stóð að aðgangseyrir væri kr. 1800 í forsölu en kr. 2200 í hurð. Gott og vel. Þegar kom að því að greiða aðgangseyrinn kom í ljós að rukkaðar voru kr. 2500 en ekki 2200. Ég er nú ekki viðskiptafræðingur eða markaðsfræðingur en mér þykja þetta ekki sérstakir viðskiptahættir. En hvað um það, ballið var hin besta skemmtun og skreið ég heim rétt fyrir klukkan fimm í morgun. Og er bara nokkuð hress í dag. Ótrúlegt!

Annars er nú ekki margt í fréttum í dag. Ætli maður hafi það ekki bara notalegt með litla manninum (the wiseguy : ), kíki svo á ömmu og afa í blokkinni klukkan fjögur eins og venjulega á sunnudögum.

Svo er það bara stóra eplið um næstu helgi. Get eiginlega ekki beðið. Er að sjóða saman stundaskrá og svona. Er þetta nokkuð orðið þreytt umræðuefni? Bíðið bara þangað til ég kem heim og segi ferðasöguna og sýni myndir ef þær þarfnast ekki ritskoðunar þ.e.a.s..

Jæja eigið gleðilegan sunnudag!

laugardagur, febrúar 11, 2006

Saumaklúbbur Rauða krossins??

Í morgun bað sonur minn mig um að leyfa sér að prjóna eitthvað. Hann sagðist nú alveg kunna það og langaði að æfa sig svolítið. Jú jú, prjónarnir voru dregnir fram og fitjað upp á nokkrum lykkjum. Prjónaskapurinn gekk þokkalega en drengnum þótti þetta ekkert of auðvelt samt. Ég sagði að hann yrði þó líklega einhvern tíma lista prjónamaður. En hann gaf nú lítið fyrir það og tilkynnti að hann ætlaði nú ekkert að prjóna á börnin sín eða neitt þannig. Langaði bara til að vita hvernig þetta væri.

Meðan æfingin stóð yfir fór eftirfarandi samtal fram:

Sonur: mamma, vilt þú kannski prjóna eitthvað handa mér?
Móðir: já, ég var einmitt að hugsa um að prjóna húfu handa þér í saumaklúbbnum mínum.
Sonur: Já, góð hugmynd....eða...má kannski ekki prjóna í svona saumaklúbbum? Má kannski bara sauma þar?
Móðir: Nei, reyndar er hvorki saumað né prjónað í þessum saumaklúbbi. Þetta er eiginlega frekar svona vinaklúbbur.
Sonur: NÚ????....Og hvað eruð þið þá að gera? Bara tala saman og borða kökur?
Móðir: uhm...ja...ætli það ekki bara...
Sonur: Vá, ég hef alveg misskilið þetta. Ég hélt að þetta væri svona skyldusaumaklúbbur. Svona góðgerðastarfsemi. Að Rauði Krossinn hefði kannski ákveðið þetta. !!
Móðir: uhm...já þú hefur misskilið þetta aðeins.
Sonur: Mikið er það skrítið að vinaklúbbur sem saumar hvorki né prjónar skuli þykjast vera saumaklúbbur.
Móðir: uhm, uhm...*#%/!”#$%&....


Eitt gullkorn í viðbót svona í lokin: Handavinnukennarinn okkar er frábær. Hann leyfir okkur að tala saman!

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Inn á við eða út á við?

Rosalega á ég erfitt með þessa innlits-útlits þætti í sjónvarpinu. Nú er Vala Matt bara komin á stöð 2. Ég horfði á hana um daginn. Ég fæ einhvern ferlegan fiðring við að horfa á svona þætti. Finnst einhvern veginn allt hjá mér svo gamalt og ljótt. Og langar að gera svo ótal margt. En maður verður víst að forgangsraða í lífinu. Spurning hvað maður vill hafa steypuna og innréttingarnar flottar eða hvað maður vill gera til að njóta lífsins. Svona er nú það!

mánudagur, febrúar 06, 2006

Ég get alveg sagt þér hvernig...

Ég verð bara að deila með ykkur kommenti frá syni mínum. Þannig er að um helgina hefur verið svolítið eppisót að koma sumum í háttinn. Þetta hefur kostað mikið þras og þvarg. Í gærkvöldi lítur drengurinn á mig, svolítið svona bessewisser á svipinn. Segir svo: mamma, ég get alveg sagt þér hvernig þú getur haft betri stjórn á mér. NÚ?
Já, í fyrsta lagi þá þyrftirðu að finna þér mann og svo þarftu bara að vera strangari og hafa meiri aga á mér! EINMITT!!!!??? Í kvöld átti svo að draga allt til baka því honum fannst ég aðeins OF ströng. Hann var nú ekki að meina þetta svona bókstaflega sko. Hvað getur maður sagt?

Friðelskandi þjóð.

Allt að tryllast í Mið-Austurlöndum út í Dani. Já er það ekki skrítið að DÖNUM af öllum, hafi tekist að ergja múslima svona líka. ?? Hvað á þetta að þýða? Ég nenni bara ekki að tala of mikið um þetta.

Maður elskar bara friðinn er það ekki?

Nú er ég í mestu vandræðum með að velja hvað ég á að gera í New York. Þetta verður voðalega stutt stopp en maður verður víst að forgangsraða. Ég er búin að setja upp smá plan og svo á bara eftir að testa það með hinum í partýinu. Allar ábendingar eru vel þegnar!

Ég fór í mega snyrtingu í daga. Andlitsbað og fótsnyrtingu. Var eiginlega búin að gleyma hvað þetta er þægilegt. Ég held ég hafi vakið sjálfa mig þrisvar eða oftar með hrotum. Það eina sem mig vantaði var dúnsæng og koddi og þá hefði ég getað sofið í stólnum til morguns. Væri ekki frábært að hafa einhvern í vinnu við að gera svona við mann heima hjá manni nokkrum sinnum í viku. Svo sofnaði maður og viðkomandi færi bara heim. Æði.

En nóg um svona loftkastala.

Á að fara í Höllina á laugardaginn. Það væri nú gaman að sjá þá gömlu greifana. Ég man þegar þeir unnu Músíktilraunir í Tónabæ 1986 minnir mig. Fermingarárið mitt sko. Ég veit að það er skrítið en í ár eru stutt 20 ár frá því að ég fermdist. Finnst það bara hafa verið í fyrra. Eða kannski ekki alveg svo stutt. En svona er þetta.
Jæja kannski maður píni einhvern með sér í Höllina, hver veit?

En nú er þetta orðið fínt í bili. Ég er farinn að sofa.

Lifið heil!

laugardagur, febrúar 04, 2006

Minningar

Enn á ný hefur almættið minnt okkur á hversu lífið er hverfult. Í dag verða bornir til grafar tveir Vestmannaeyingar, þau Júlía Bergmannsdóttir og Hjálmar Guðnason. Ég þekkti Júlíu aðeins af afspurn en líklega hafa flestir bæjarbúar heyrt af baráttu hennar við erfiðan sjúkdóm. Ég samhyggist innilega eftirlifandi fjölskyldu hennar.

Hjalli var maður sem líklega allir Vestmannaeyingar hafa kynnst að einhverju leiti og ætla ég að minnast hans hér með nokkrum orðum:

Eins og svo mörg börn Eyjanna, kynntist ég Hjalla í Tónlistarskólanum þegar ég lærði á blokkflautu undir hans leiðsögn og spilaði seinna í Lúðrasveitinni hjá honum Þær eru margar minningarnar sem lifa í hjarta mínu. Hjalla gat maður alltaf treyst. Hann hafði svo fallega nærveru og allt sem hann gerði var gert af góðmennsku og hugsjón.

Maður gat talað við Hjalla um allt milli himins og jarðar. Hann var maður andans og hafði alltaf ráð undir rifi hverju þegar kom að vandamálum sem manni fundust ógurlega stór. Ef hann gat ekki bjargað málunum í bókstaflegri merkingu þá stappaði hann í mann stálinu þannig að manni leið betur og sá málin á jákvæðari hátt. Í stað þess að skamma okkur þegar við gerðum mistök eða vorum löt lagði hann fyrir okkur krakkana litlar tilvitnanir í guðsorðið sem honum var svo kært. Þær hittu oftast í mark og lagði maður sig í líma til að standa sig vel. Ég er afar þakklát fyrir að sonur minn fékk tækifæri til að kynnast Hjalla. Ég bað sérstaklega um að hann fengi að læra hjá honum því mér fannst að öll börn þyrftu að kynnast honum Hjalla sem var sannur vinur allra barna. Þeir náðu vel saman eins ég bjóst við og á drengurinn minn erfitt með að skilja að hann Hjalli sé skyndilega horfinn.

Hjalli trúði alltaf á hið góða í lífinu og var mörgum sáluhjálpari. Það hlýtur að vera okkur hulin ráðgáta að Drottinn hafi kallað hann til sín svo fljótt. Samfélagið hér í Vestmannaeyjum hefur misst mikið og verður erfitt að fylla skarð Hjalla á sviði tónlistarinnar sem og á öðrum sviðum. Eftir lifir minning um yndislegan mann sem snerti allt í kringum sig með gæsku og gleði. Ég samhryggist innilega eftirlifandi eiginkonu hans, börnum og barnabörnum. Samstarfsfólk hans og nemendur í tónlistarskólanum hafa einnig misst mikið sem og samfélag okkar í heild.

Óvænt dauðsföll vekja mann alltaf til umhugsunar um lífið og tilveruna. Það er auðvelt að efast um þetta allt en ég verð að líta á óvænt fráfall Hjalla sem dýra áminningu um að nota tímann sem okkur er gefinn til hins ýtrasta, reyna að gefa af sér og læra að taka við kærleik annarra. Munum eftir boðorði drottins um að allt sem vér viljum að aðrir menn gjöri oss skulum vér og þeim gjöra.

föstudagur, febrúar 03, 2006

Boltaleiðindi...

Boltavika.

Ólíkt sumum sem hafa tapað sér yfir sigrum og ósigrum íslenska landsliðsins í handbolta og jafnvel skriðið út úr íþróttahatursskápum, hef ég ekki séð einn einasta leik. Og gæti ekki verið meira sama. Reyndar gæti mér ekki verið meira sama um þennan bolta almennt(sérstaklega sjónvarpsbolta). Jú gaman ef vel gengur en óþarfi að drepast yfir tapleikjum. Aðeins einu sinni hef ég horft á fótboltaleik í sjónvarpi ótilneydd. Það var 21. júní árið 2000 og leikurinn var milli Portúgala og einhverra annarra. Í miðjum leik reið jarðskjálfti yfir suðurlandið og djöfull brá mér. Pottþétt bara út af þessari skrítnu iðju minni. :-) Ástæðan fyrir áhuganum voru aðallega undurfagrir fótleggir Portúgalanna það árið. ;-) Jú jú svo heldur maður náttúrulega alltaf með ÍBV og íslenska landsliðinu hvar sem er!

En nóg um boltaleiðindi. Það er voðalega lítið að frétta í augnablikinu. Mér fannst fyrir skömmu rosalega stutt í Ameríkuferðina en svo er hún bara eftir nokkra daga. Því miður verður opnunarhanastélið á ljósmyndasýningunni hans B þann 11. en ekki 16.feb. En það er nú samt skemmtilegra því að þá verður hann ekki upptekinn við að setja myndirnar upp þegar ég verð þarna heldur getum við stöllurnar notið óskiptrar athygli hans. Ekki leiðinlegt! : -) Og séð sýninguna!!!

Ég hélt að janúar mánuður yrði svaka langur og leiðinlegur. Hann hefur svo sem ekki verið skemmtilegasti mánuður lífs míns en hann var svakalega stuttur í mínum huga. Maður er varla búinn að taka niður jólaskrautið þegar það er farið að styttast í páskana. Eða þannig.

Jæja ég hætt í bili.
Meira á morgun.