dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

laugardagur, febrúar 04, 2006

Minningar

Enn á ný hefur almættið minnt okkur á hversu lífið er hverfult. Í dag verða bornir til grafar tveir Vestmannaeyingar, þau Júlía Bergmannsdóttir og Hjálmar Guðnason. Ég þekkti Júlíu aðeins af afspurn en líklega hafa flestir bæjarbúar heyrt af baráttu hennar við erfiðan sjúkdóm. Ég samhyggist innilega eftirlifandi fjölskyldu hennar.

Hjalli var maður sem líklega allir Vestmannaeyingar hafa kynnst að einhverju leiti og ætla ég að minnast hans hér með nokkrum orðum:

Eins og svo mörg börn Eyjanna, kynntist ég Hjalla í Tónlistarskólanum þegar ég lærði á blokkflautu undir hans leiðsögn og spilaði seinna í Lúðrasveitinni hjá honum Þær eru margar minningarnar sem lifa í hjarta mínu. Hjalla gat maður alltaf treyst. Hann hafði svo fallega nærveru og allt sem hann gerði var gert af góðmennsku og hugsjón.

Maður gat talað við Hjalla um allt milli himins og jarðar. Hann var maður andans og hafði alltaf ráð undir rifi hverju þegar kom að vandamálum sem manni fundust ógurlega stór. Ef hann gat ekki bjargað málunum í bókstaflegri merkingu þá stappaði hann í mann stálinu þannig að manni leið betur og sá málin á jákvæðari hátt. Í stað þess að skamma okkur þegar við gerðum mistök eða vorum löt lagði hann fyrir okkur krakkana litlar tilvitnanir í guðsorðið sem honum var svo kært. Þær hittu oftast í mark og lagði maður sig í líma til að standa sig vel. Ég er afar þakklát fyrir að sonur minn fékk tækifæri til að kynnast Hjalla. Ég bað sérstaklega um að hann fengi að læra hjá honum því mér fannst að öll börn þyrftu að kynnast honum Hjalla sem var sannur vinur allra barna. Þeir náðu vel saman eins ég bjóst við og á drengurinn minn erfitt með að skilja að hann Hjalli sé skyndilega horfinn.

Hjalli trúði alltaf á hið góða í lífinu og var mörgum sáluhjálpari. Það hlýtur að vera okkur hulin ráðgáta að Drottinn hafi kallað hann til sín svo fljótt. Samfélagið hér í Vestmannaeyjum hefur misst mikið og verður erfitt að fylla skarð Hjalla á sviði tónlistarinnar sem og á öðrum sviðum. Eftir lifir minning um yndislegan mann sem snerti allt í kringum sig með gæsku og gleði. Ég samhryggist innilega eftirlifandi eiginkonu hans, börnum og barnabörnum. Samstarfsfólk hans og nemendur í tónlistarskólanum hafa einnig misst mikið sem og samfélag okkar í heild.

Óvænt dauðsföll vekja mann alltaf til umhugsunar um lífið og tilveruna. Það er auðvelt að efast um þetta allt en ég verð að líta á óvænt fráfall Hjalla sem dýra áminningu um að nota tímann sem okkur er gefinn til hins ýtrasta, reyna að gefa af sér og læra að taka við kærleik annarra. Munum eftir boðorði drottins um að allt sem vér viljum að aðrir menn gjöri oss skulum vér og þeim gjöra.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home