dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

þriðjudagur, desember 27, 2005

Jólin snúast ekki bara um jólasveina og svoleiðis...

Ég vona að lesendur mínir og dyggir athugasemdamenn hafi allir átt gleðileg jól. Mín jól voru alveg yndisleg. Við sonur minn höfðum það svo kósý á jóladag og annan í jólum að það var engu lagi líkt. Jólagjafirnar slógu í gegn eins og endranær. Ég hef gert það undanfarin ár að skipta gjöfunum þannig að við opnum helminginn af þeim á aðfangadagskvöld og restina á jóladagsmorgun. Þá erum við bara tvö og það er alveg dásamlegt fyrir okkur. Við fórum varla út úr húsi öll jólin en það var vegna þess að það var bara svo kósý að vera inni í rokinu og slagveðrinu.
Næsti höfuðverkur verður svo að ákveða hvort maður á að bregða undir sig betri fætinum og skella sér á áramótaskrall. Hvort heillar mig meira: Að fara á ball og drekka nokkur skot og fleira, sem leiðir til þreytu og skeljatilfinningar í höfði að morgni fyrsta dags ársins, eða vera heima í kósý og vakna hress og kát að morgni þess 1. janúar? Ég er að hallast að því að vera heima en fara í staðinn á skrall á þrettándanum. Þá skilst mér að Vinir vors og blóma muni trylla lýðinn eins og fyrir þremur árum eða svo (þegar ég var tvítug og þeir ótrúlega vinsælir). Reyndar finnst mér tómt svindl að vera ekki með Steina söngvara innanborðs. Hvað varð um besta vininn hann Steina??? Getur einhver frætt mig um það? En hvað um það maður verður bara að ímynda sér að þessi maður sem er þekktur fyrir að syngja með annarri hljómsveit sé umræddur Steini og þá ætti þetta að verða í lagi.

En hvað skyldi svo nýja árið bera með sér?? Ég er að hugsa um að setja niður stuttan annál og velta því fyrir mér hvað árið sem er að líða bar í skauti sér og hvað muni fylgja því nýja.

Að lokum ætla ég að deila með ykkur gullkorni af vörum sonar míns: mamma...þarna í sambandi við jólasveinana og það? Já. ...Þú verður að athuga að jólin snúast ekki bara um jólasveina og gjafir og svoleiðis...þau snúast meira um engla og Jesús og svoleiðis...og kertaljós. (Þetta kom eftir kirkjuheimsókn og jólatónleika kirkjukórs Landakirkju á aðventunni)
Reyndar vöktu þessi orð sonar míns mig til umhugsunar um viðhorf mín til jólanna. Það eru nokkur atriði sem ég gæti hugsað mér að breyta varðandi jólahaldið hjá mér. En það er verkefni næsta árs að setja það niður á blað og gera einhverjar breytingar jafnvel.

Lifið heil!

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Gleðilega hátíð Ása mín...
vel athugað hjá Valla Kalla... nokkuð gott hjá honum.
Bíð spennt eftir annálnum.. var einmitt að henda einum slíkum inn á mína síðu.

2:58 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home