dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

sunnudagur, nóvember 30, 2003

límingarnar eru að lagast!

Jæja, þá er komið að því að maður kvittar hér aftur. Long time no blogg.
Önnin er að klárast og límingarnar að lagast, ótrúlegt en satt! Það sem hefur á daga mína drifið undanfarið er hvorki mikið né merkilegt. Ég er búin að vera á kafi í verkefnavinnu en nú er ég að fara að sjá fyrir endann á henni. Ég er enn að bauka við að fá persónulega vefinn minn til að tengja undirsíðurnar en það gengur brösuglega. Þetta vill ekki vistast eða sjást að minnsta kosti, því að efnið er að hluta vistað í frontpage á vefnum, þið getið bara ekki séð það.
Ég er að leggja lokahönd á ferlimöppu í skapandi skólastarfi. Þetta er ótrúlega gaman þó að það sé kannski ekki hægt að segja að maður sé neitt voðalega mikið “natural talent” eins og sumir. Þrátt fyrir það er ég viss um að þetta á eftir að nýtast mér þegar ég fer að kenna. Ég er svo innilega hlynnt því að börn eigi að fá að tjá sig með listsköpun. Ég held að það hjálpi þeim svo mikið. Sonur minn er alltaf að teikna og hvet ég hann eindregið til þess. Það er svo skemmtilegt að sjá hvað teiknar. Stundum er það eitthvað í umhverfinu eða atvik í lífinu. Stundum situr hann bara og setur upp reikningsdæmi að gamni sínu. (upprennandi skattstjóri kannski?) sem er af hinu góða að mínu mati. Ég upplifði mig sem mjög listræna á tímabili í kvöld. Ég var að mála fugl sem ég “skapaði” úr pappír. Þetta er gulur ævintýrafugl samkvæmt bókum sonar míns. Ég skal setja söguna um hann hingað inn þegar hann verður tilbúinn og ég hef tekið mynd af honum. Þá fáið þið að sjá dýrðina. En hvað um það ég var að mála gripinn og gekk bara vel þar til ég var búin með umferðina og uppgötvaði að ég var búin að mála hann allan og hélt í lappirnar á honum, útötuð í málningu og hafði engan stað til að leggja hann frá mér. Allavega ekki þannig stað að hann myndi ekki festast við og sóða allt út. Sá fyrir mér kvöldið fara í að halda á honum og bíða eftir að málningin þornaði. En mín reddaði sér. Plokkaði plastpoka upp úr skúffu og tók sjénsinn á að hann losni af. Fannst eitthvað verra að hafa pappírstægjur hangandi niður úr honum eða stofugólfið allt í gulum flekkjum. En svona er þetta. Maður lærir víst af reynslunni, sagði það ekki einhver?
Við erum búin að fá tvo nýja frændur. Baldvin frændi minn eignaðist yndislega fallegan dreng þann 8.nóvember.sl. ég hef reyndar bara séð hann á myndum á netinu en krakkinn er ekkert smá vel heppnaður. Enda er hann heppin með foreldra. Hefði ekki getað orðið öðruvísi en fallegur! Það er sko alveg satt.
Valdís litla sem ætlaði aldrei að eignast börn fyrir sjö árum eignaðist strák þann 26.nóv.sl. Valdís er föðursystir sonar míns. Hún var sextán þegar minn fæddist og var mikið með mér á spítalanum þegar maður var að bauka við að koma drengnum í heiminn. Henni leist ekki betur en svo á meðferðina á hinni verðandi móður að hún spurði ljósmóðurina hvort að það væri hægt að láta taka sig úr sambandi þegar maður væri sextán! En jæja sem betur fer var það ekki hægt og er hún sjálfsagt fegin. Tengdamamma (sem verður alltaf tengdamamma mín þó að ég búi nú ekki með syni hennar lengur) sagði að sá nýfæddi væri mjög líkur mínum þegar hann fæddist. Hann varð nú kátur að heyra það sá stutti og spurði hvort að hann væri þá ekki jafnfallegur! (ekkert að vera neitt að efast um eigið útlit, næ,næ). En ég trúi þessu nú alveg því að Valdimar Karl er og hefur alltaf verið mjög líkur föður sínum, þannig að það er eðlilega einhver ættarsvipur þar. Ég hélt samt að börn væru alltaf eins og feður þeirra þegar þau fæddust. Svona til þess að þeir þekki sín afkvæmi og afneiti þeim ekki. Ég hélt að þetta væri leið náttúrunnar til að sjá um að blessuð börnin lentu ekki í því að feður þeirra efuðust um ætternið...en hvað veit maður?
Svo held ég að ég hafi nú ekki verið búin að segja ykkur frá afmælisbarninu mínu. Vinkona mín eignaðist sem sagt dreng á afmælisdaginn minn og er hann því í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Hann heitir Sindri Þór Friðriksson. Málið er að hann á systur sem heitir Rebekka Rut og er hún fædd á afmælinu hennar Helgu vinkonu. Hafdís misreiknaði sig þá en bætti svona líka hressilega úr því þannig að enginn þarf að vera móðgaður. Hún fær sko prik fyrir það hún Hafdís mín.
En nú fara jólin bara að bresta á bráðum. Mikið verð ég fegin þegar prófin verða á enda. Mér finnst þetta dásamlegur tími en hef ekki haft tíma til að njóta aðventunnar eins og ég hefði viljað undanfarin ár þar sem maður er alltaf í stressi að lesa fyrir próf og svona. Á hverju ári segi ég við sjálfa mig að næst verði þetta sko ekki svona. Þá verði ég búin að þrífa allt og skreyta í nóvember og geti svo bara litið í bók í rólegheitum á aðventunni á milli þess sem ég sæki menningaratburði, leik við son minn í snjónum ( hvaða snjó svo sem ?) og föndra í rólegheitum. En viti menn nóvember er senn á enda og ekki búið að sópa svo mikið sem einu rykkorni héðan út síðan ég man ekki hvenær og jólaskrautið er vel falið uppi á lofti enn þá. Jólagjafirnar eru þó undir kontról. Nánast allt ákveðið. En það á eftir að panta jólakortin og velja myndina á þau. Og skrifa þau og senda. Ætli maður haldi sig ekki við vanann og sendi þau í janúar. En viðkomandi verða bara að sýna manni smá skilning. Ekki nóg með að maður sé alltaf að skólast eitthvað þá þjáist maður líka af minnisleysi, á vægu stigi þó. Ekki þar með sagt að maður gleymi öllu en það er margt sem gleymist og skolast til. Til dæmis að fara með barnið á íþróttaæfingu. Þá upplifði ég mig nú alveg eins og vanhæft foreldri. En mér var fyrirgefið gegn því að þetta kæmi bara aldrei fyrir aftur. Hann mundi þetta nú ekki heldur en hann hefur afsökun því að börn hafa ekki sérlega mikið tímaskyn.
En jæja lesendur góðir (ef þið eruð einhverjir eftir) er ekki bara best að fara að hætta þessu og reyna að klára það sem eftir er og fara að svo að laga til fyrir jólin? Ég ætla nú ekki að hætta þessum skrifum alveg þrátt fyrir að það verði ekki skylda eftir að þessari önn líkur. Mér finnst þetta nú alveg skemmtilegt. Svo að hver veit nema ég verði bara mjög afkastamikil í vangaveltum hér á netinu.
Ég kveð að sinni og heyrumst aftur bráðlega.

laugardagur, nóvember 08, 2003

skólaheimsókn

Könnun á notkun upplýsingatækni í skólastarfi Hamarsskóla:
Hvenær hóf skólinn að nota upplýsingatækni við kennslu og skipulag?
1997
Í hvaða greinum er upplýsingatækni (helst) notuð?
Samfélagsfræði, tungumál, íslenska, stærðfræði
Hvernig er upplýsingatækni notuð í daglegu starfi skólans?
Við gagnaöflun, heimildaleit, nemendaupplýsingar, umsjónarkennarar nota tölvur við að halda utan um gögn um nemendur og undirbúning kennslu. Markmið að auka upplýsingastreymi við heimilin í gegnum netið.
Hvernig er upplýsingatækni notuð af nemendum?
Við heimildaöflun, frágang á verkefnum, kennsluforrit
Hvernig er upplýsingatækni notuð af kennurum?

Er upplýsingatækni notuð í öðrum greinum en upplýsingatækni?
Í flestum greinum að einhverju marki.
Fara nemendur í vefleiðangra til að nálgast ítarefni á netinu?

Eiga / mega nemendur að afla sér heimilda á neti?
Já þeir eru eindregið hvattir til þess.
Vinna nemendur verkefni sín í tölvum? Stundum, ekki skylda en nemendur eru hvattir til að nota þá tækni þegar þeir eru komnir í efri bekkina.
Skila nemendur verkefnum á rafrænan hátt? Ekki enn en það er ekki útilokað að slíkt verði tekið upp í unglingadeild
Er markvisst unnið að því að virkja nemendur í að nota netið á uppbyggilegan hátt?
Já, með því að hvetja þá til að leita að efni sem er uppbyggilegt og nýtist þeim í námi og til skemmtunar.Ýmis kennsluforrit eru notuð til að hjálpa þeim sem eiga i erfiðleikum.
Eiga nemendur heimasíður? já
Uppfæra þeir þær reglulega? Misjafnt, það er ekki skylda.
Fara samskipti við foreldra að einhverju leyti fram með rafpósti eða með tilkynningum á neti? Það er takmark að taka slíkt skipulag upp mjög bráðlega.
Eru upplýsingar um nemendur geymdar á rafrænu formi? Já.

Niðurstaða: Skólinn er vel búinn tölvum til afnota fyrir kennara og nemendur. Kennarar hafa góða aðstöðu til undirbúnings kennslu og nemendur fá vikulega kennslu í upplýsingatækni. Í öðrum fögum eru tölvurnar aðallega notaðar til að afla upplýsinga og ítarefnis fyrir einstök verkefni en ekki reglulega í hverri kennslustund.

Þetta kemur á vefinn minn fljótlega vonandi þegar ég finn lausn á vandamáli mínu við að gefa hann út.

bæjó!

bréf til Salvarar:

Sæl Salvör.

Hotmail netfangið þitt er ekki virkt. Ekki hjá mér a.m.k. Vona að þér sé sama þó að ég setji þetta hér inn:-)

Ég er eins og kjáni í þessari vefsíðugerð. Búin að eyða löngum tíma í að setja hana upp en svo kemur á daginn að ég get bara vistað efnið innan frontpage en get ekki "publish web" nema að því leyti að forsíðan vistast en ekki undirvefir eða allavega ekki krækjur í þá.
Þess vegna spyr ég: hvers vegna er ekki hægt að gera "publish web" á sama svæði og síðan er þegar vistuð á , það er beðið um aðra staðsetningu og ég prófa að setja t.d. 2003 í endann en það breytir nú engu samt.
.
Svo er annað: hlutir úr "themes" koma ekki fram á forsíðunni, þ.m.t. fyrirsögnin og hnappar til að fara á undirvefi.

Að lokum langar mig að vita hvort að mögulegt sé að fá FTP aðgang að heimasvæðinu?


Jæja Salvör mín, ég ætla að setja skólaheimsóknina inn á bloggið hjá mér þar til ég finn út úr þessu. Ég hef áður gert vefi en alltaf unnið þá á harða drifið hjá mér áður en ég geri "publish web". Og allt hefur gengið vel. Núna er ég að vinna þetta á netinu og hélt að það væri nóg að vista bara það sem ég geri en það er greinilegt að það er ekki svo :-)

Ég vona að þú eigir svör handa mér :-)

Kær kveðja,
Ásgerður.

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Vefsíðuvandræði

Jæja, þá er að tilkynna það að vefsíðan er komin eitthvað áfram en mín lenti í smá útgáfuerfiðleikum. Ég tel mig hafa gert allt rétt en samt þá vill þetta ekki uppfærast nema að hluta! En ég er að vinna í málinu þannig að vonandi verður þetta komið innan skamms tíma!
Verðum í bandi.

mánudagur, nóvember 03, 2003

Þá er að vinda sér í að...

Jæja þá er best að vinda sér í að laga til þessa blessuðu vefsíðu sem ég á.
Endilega kíkið á hana við tækifæri: En kannski verður þetta ekki almennilegt fyrr en á morgun ;-)

verkefni

Jæja nú er loksins eitthvað að gerast! Ég er búin að vera í fríi í dag og almáttugur hvað ég er búin að vera dugleg. :-)
Nú er ég að fara að setja inn powerpoint verkefnið. Ég er breytti reyndar og vona ég að það verði í lagi. Ég ætla að setja inn glærur um íslenska goðafræði. Kannski ekki svo frumlegt en mér fannst ég vera að bera algerlega í bakkafullan lækinn með því að vera að taka sólkerfið. Það vil ég þá gera með einhverri flottri grafík en ég hef ekki kunnáttu til þess.
Ég hef verið í smá vandræðum með að tengja síðurnar á vefnum mínum. Þetta kemur ekki þar sem ég vil hafa það en ég held að þetta sé að koma hjá mér.
Skólaúttektin kemur því miður ekki fyrr en á fimmtudag vegna þess að ég hef ekki komist í heimsóknina enn. Ég á bókaðan tíma í viðtal við aðstoðarskólameistara. Ég þarf að gera úttekt á fleiru vegna annarra kúrsa þannig að ég ákvað að taka þetta allt í einu viðtali. Vona að það verði í lagi.

sunnudagur, nóvember 02, 2003

regnbogi næturinnar

Mikið er veðrið fallegt í dag. í ljósaskiptunum fór himininn á fulla ferð í dansi norðurljósanna. Langt síðan ég hef séð svona líflegan norðurljósadans. Allir litir og máninn glottandi, feitur og pattaralegur heilluðu mig verulega. Og son minn sem sagði að þetta væri alveg eins og regnbogi í myrkri. Þrátt fyrir að engin rigning kæmi við sögu. Regnbogi næturinnar! afar ljóðrænt. Mikið hlakka ég til jólanna. Ég vona bara að þau verði snjóhvít og rómantísk eins og jólakort. En mikið langar mig til að eiga kærasta þegar frostið og himininn eru svona falleg eins og í dag og í kvöld. Mig langar í gönguferð suður á eyju með einhverjum sætum manni sem kann að meta þessa fegurð. Ekki verra að taka með sér heitt kakó á brúsa til að fá sér á bak við Helgafell eða úti á Skansi eða úti í Klauf jafnvel. Hafið er svo stillt og meinlaust á svona dögum. Algjör blekking! ó hvílík fegurð! Ég vona að hann banki upp á með kakóbrúsa í hönd og leiði mig um frosna fegurðina til að njóta hennar í friði og sátt. Æææ hvað er að gerast með rauðsokkuna? Er þetta merki um að maður er að kikna undan og miklu álagi? Ég ætla að athuga hvort að ég geti ekki fengið eins og tveggja eða þriggja daga launalaust frí til að klára það sem liggur á mér eins og mara og sviptir mig sálarró. Sjáum til!

En annars ef svo ólíklega vill til að einhver sem les þetta er einhleypur og á aldrinum 25 ára til 39 , rómantískur og myndarlegur, og langar í kakóferð þá má alveg banka hjá mér í kvöld ;-) Nei ég segi nú bara svona. Ég ætla að horfa á Nikolaj og Júlíu. Verst að mig langar alltaf ti að flytja aftur til Danmerkur þegar ég sé þessa þætti. En það getur nú alveg gerst einhvern tíma! Hver veit?

Óóó mikið er maður glataður!! Ég kveð að sinni! Ég ætla að fara að gera eitthvað í sálfræði núna og reyna svo að tala aðeins við barnið sem ég á. Sem betur fer þá á hann afa og ömmu sem búa á efri hæðinni. Annars væri hann örugglega fluttur að heiman. Móðirin er svolítið skrítin þessa dagana!
Bless í bili!! Njótið norðurljósanna í kvöld. sérstaklega ef þið eruð svo heppin að eiga kærasta/u. Ekki sleppa því! Þið eruð heppin! Það er ekki eins gaman að fara einn. En samt skárra en ekkert....

Tónlist

Ég keypti mér nýja diskinn hennar Eivarar Pálsdóttur í borginni. Mig langar að tala aðeins um hann hér. Ég hef heyrt í stúlkunni í útvarpi og sjónvarpi og féll alveg fyrir henni frá byrjun. Ég er reyndar alveg kolfallin fyrir þjóðlagatónlist þannig að það ætti ekki að koma á óvart að mér líkaði vel við hana. Diskurinn kom þó dálítið á óvart. Ég hafði gert mér hugmyndir um að þar væri að finna létta færeyska söngva með íslensku ívafi. Jújú þarna eru færeysk þjóðlög en þetta er engin sápukúlutónlist. Reyndar eru öll lögin sungin á færeysku nema það síðasta sem er á íslensku. En það er líka á færeysku. Þetta er falleg tónlist og greinilega miklir tónlistarmenn sem sjá um undirleik. Eyvör er afa tilfinningarík í textum og angurvær á stundum. Ég upplifi hana sem afar norræna en líka er í henni að finna austræna strauma. Þetta er svona blanda af norrænum þjóðvísum, arabískum hita og djúpum sársauka og ást(arsorg). Ég hlusta á þennan disk í einrúmi ég myndi aldrei setja hann á í partýi. Hann er of erfiður til þess. Ekki erfiður eins og leiðinlegur heldur verður maður að gefa sér tíma og leyfa honum að fara inn í sálina í friði. Það er mín reynsla að minnsta kosti. Mér finnst maður komast í tæri við hinn norræna arf sem býr í manni. Ég táraðist meira að segja.

Ég er viss um að Eivör nær afar langt ef hún vill það. Hún er svolítið sorglega falleg núna en samt óskaplega ljúf og angurvær. En það er samt alveg í stíl við arfinn að mínu mati. Því að einhvern vegin kemur hún stritinu og baráttu lífsins hér á norðurhjara í gegnum aldirnar til skila í gegnum tónlistina.

Takk fyrir frábært listaverk Eivör!

I am back!

Jæja þá er ég komin til baka í þennan kúrs. Ég verð að játa það að skipulagið hjá mér gæti verið aðeins betra. En þetta kemur allt saman vonandi. Ég var í innilotu í skapandi skólastarfi í vikunni. Það var voða gaman að fá að föndra smávegis í þessu námi. Margir þeir sem spyrja mig um þetta nám halda að þetta sé bara klipp og föndur. En það er víst ekki þannig. Nema tvo daga í síðustu viku. Og ég held að ég fari bara í eitt aukaár í textílmennt eða myndlist. Tek námslán, flyt til Reykjavíkur og eyði dögum mínum í listgreinahúsi Kennaraháskólans. Ekki slæm tilhugsun og aldrei að vita nema maður geri eitthvað í því.
Annars sá ég að það var verið að auglýsa eftir umsækjendum um skiptinemapláss á vorönn 2004. Ég veit ekki alveg hvað ég er að pæla en á fyrsta árinu sagði ég sem svo að ég vildi fara sem skiptinemi eina önn á svona þriðja ári. En núna er allt í einu þriðja árið og ég ekki enn farin sem skiptinemi. Mér finnst einhvern veginn ekki alveg gera sig að fara á lokaárinu. En kannski má það bara. Það væri ekki vitlaust að taka síðasta vettvangsnámið í útlöndum. Ææææ ég held að ég sé bara komin með hjartsláttartruflanir af streitu. Í alvöru sko. Ég er alltaf að anda djúpt en svo skelfur maður bara inní sér. En ég treysti því að þetta gangi allt upp á endanum.