dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

sunnudagur, nóvember 02, 2003

regnbogi næturinnar

Mikið er veðrið fallegt í dag. í ljósaskiptunum fór himininn á fulla ferð í dansi norðurljósanna. Langt síðan ég hef séð svona líflegan norðurljósadans. Allir litir og máninn glottandi, feitur og pattaralegur heilluðu mig verulega. Og son minn sem sagði að þetta væri alveg eins og regnbogi í myrkri. Þrátt fyrir að engin rigning kæmi við sögu. Regnbogi næturinnar! afar ljóðrænt. Mikið hlakka ég til jólanna. Ég vona bara að þau verði snjóhvít og rómantísk eins og jólakort. En mikið langar mig til að eiga kærasta þegar frostið og himininn eru svona falleg eins og í dag og í kvöld. Mig langar í gönguferð suður á eyju með einhverjum sætum manni sem kann að meta þessa fegurð. Ekki verra að taka með sér heitt kakó á brúsa til að fá sér á bak við Helgafell eða úti á Skansi eða úti í Klauf jafnvel. Hafið er svo stillt og meinlaust á svona dögum. Algjör blekking! ó hvílík fegurð! Ég vona að hann banki upp á með kakóbrúsa í hönd og leiði mig um frosna fegurðina til að njóta hennar í friði og sátt. Æææ hvað er að gerast með rauðsokkuna? Er þetta merki um að maður er að kikna undan og miklu álagi? Ég ætla að athuga hvort að ég geti ekki fengið eins og tveggja eða þriggja daga launalaust frí til að klára það sem liggur á mér eins og mara og sviptir mig sálarró. Sjáum til!

En annars ef svo ólíklega vill til að einhver sem les þetta er einhleypur og á aldrinum 25 ára til 39 , rómantískur og myndarlegur, og langar í kakóferð þá má alveg banka hjá mér í kvöld ;-) Nei ég segi nú bara svona. Ég ætla að horfa á Nikolaj og Júlíu. Verst að mig langar alltaf ti að flytja aftur til Danmerkur þegar ég sé þessa þætti. En það getur nú alveg gerst einhvern tíma! Hver veit?

Óóó mikið er maður glataður!! Ég kveð að sinni! Ég ætla að fara að gera eitthvað í sálfræði núna og reyna svo að tala aðeins við barnið sem ég á. Sem betur fer þá á hann afa og ömmu sem búa á efri hæðinni. Annars væri hann örugglega fluttur að heiman. Móðirin er svolítið skrítin þessa dagana!
Bless í bili!! Njótið norðurljósanna í kvöld. sérstaklega ef þið eruð svo heppin að eiga kærasta/u. Ekki sleppa því! Þið eruð heppin! Það er ekki eins gaman að fara einn. En samt skárra en ekkert....

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home