dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

laugardagur, október 04, 2003

Yfirnáttúra

Hvað er hægt að segja um miðla og skyggnilýsingafundi í sjónvarpinu? Hver sá þáttinn með Þórhalli sl. miðvikudag? Já, sástu hann? Hvernig fannst þér? Mér fannst þetta fín skemmtun en þér? úff, ég veit nú ekki hvað skal segja um trúverðugleika þessa þáttar. Jú eitthvað er það sem þessi maður býr yfir. Hvort það hefur eitthvað með yfirnáttúrulega hæfileika að gera skal ég ekki fullyrða um ;-) en vissulega skal ég ekki þræta fyrir það að margt virðist óskiljanlegt í okkar heimi. Ég fór eitt sinn til írskrar konu sem var miðill og tarotspákona. Það eru 10 ár síðan og ég fór með vinkonu minni sem nýlega hafði misst móður sína og langaði til að vita hvort að hún næði "sambandi" við hana. Ég fór með henni til styrks. Það hvarflaði ekki að mér að þó að þessi kona næði sambandi við framliðna að þar væru einhverjir sem hefðu áhuga á að tala við mig ;-) Ég skal ekki þreyta lesendur með því að útlista í smáatriðum það sem þessi ágæta kona hafði við mig að segja. Gott og vel. Ég fór að skæla þegar blessuð konan fór að tala um langömmu mína heitna og var mér mjög kær. Konan hafði margt að segja varðandi mál sem ég var að velta fyrir mér. Á þessum tíma stóð ég á krossgötum í lífinu og hafði nnýlega tekið ákvörðun sem markaði tímamót í mínu lífi. Aðeins foreldrar mínir vissu af þessu. Og þessi írska ;-) hvernig, veit ég ekki. Ekki batnaði það þegar hún dró fram tarotspilin. Þá datt nú af mér andlitið. Enn í dag hef ég ekki hugmynd um það hvernig konan hefði mátt vita þessa hluti. Ég hafði ekki pantað tímann fyrirfram heldur fór þangað óvænt. Þetta var nú þrátt fyrir tárin í byrjun mjög skemmtilega reynsla og var ég afar hissa og bara nokkuð glöð með hana. Þrátt fyrir það tel ég mjög varasamt að stunda svona hluti í öðrum tilgangi en til að hafa gaman af. Ég hef heyrt sögur um að miðlum hafi tekist að hræra illa upp í viðkvæmum sálum. T.d. með því að halda "sambandi" við látinn maka um árabil. Ég held að það sé bara rugl. Það er frábært ef miðli tekst að friða sál þess sem syrgir og létta af honum einhverjum áhyggjum en þegar verið er að viðhalda "persónu" þess sem látinn er verður það nú bara til þess að gera þann eftirlifandi veikann í sinni.
En jæja, þátturinn með Þórhalli var nú samt bara skemmtilegur og saklaus að mínu mati.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home