dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

fimmtudagur, september 25, 2003

Smá hugleiðing varðandi hjúskaparstöðu

Gáfnaljósið heldur áfram:
Ég og vinkonur mínar höfum upp á síðkastið mikið verið að ræða hugtakið einhleypur eða einstæður. Við erum allar sammála um það að í hugtakinu felist eftirtaldir þættir: sjálfstæði, frelsi, líf og hamingja. En okkur til mikillar furðu virðast mjög margir ósammála þessum skilningi okkar. Mig langar til að deila með ykkur því sem hefur “dúkkað” upp í þessum oftast bráðskemmtilegu umræðum. Það skal tekið fram að þátttakendur eru oftast konur (sumar mæður) sem búa án eiginmanna eða kærasta, eða höfðu verið einhleypar í töluverðan tíma áður en þær slysuðust til að finna ástina og gifta sig. Mér finnst reyndar hálfgert “niðurtal” fólgið í orðinu einstæður. Þegar maður er foreldri og býr einn ásamt barni (semsagt án maka) er maður orðinn einstætt foreldri. Einhvern veginn finnst mér orðið sjálft bera með sér basl og hálfgerð leiðindi (t.d. alltaf að reyna að fá pössun til að komast út úr húsi, drasl og skítugir og vanræktir krakkar!! En þannig er það sjaldnast og skiptir hjúskaparstaða litlu máli hvað þetta varðar). Mig langar mest að tala um “síngular” mæður. (Þó að það sé algjör sletta og alls ekki viðeigandi fyrir málhreinsunarsinna eins og mig að notast við slíkan viðbjóð. En má maður ekki bara hafa sína hentisemi varðandi erlendar málslettur . Ég játa hiklaust að ég er í reynd mikill tækifærissinni hvað þetta varðar. En það er efni í heila blaðagrein að útlista hvenær mér þykir það forsvaranlegt að sletta. Þannig að síngular mæður öðlast hugsanlega náð hér). Hugsanlega er “basl- og-leiðindi” blærinn sem fylgir “einstæðum” til komið vegna þess að maður ólst upp á þeim tíma sem það var ekki eins algengt og nú að foreldrar búi án maka, með börnum sínum (sem er ekki í neinu samræmi við mína barnæsku þar sem ég og mamma mín bjuggum þvær í u.þ.b.7 ár og sá tími var langt frá því að vera eitthvað svartur í minningunni ;-) . Það er kannski vegna þessarar basl og leiðinda tilfinningar sem einstæð vekur upp, sem einhleypar mæður eru að fá skrítnar athugasemdir og upplifa oft á tíðum afar skringilegar aðstæður og viðhorf. Þegar kona sem er einhleyp skríður yfir þrjátíu ára aldurstakmarkið vakna oft blendnar tilfinningar meðal fólks. Sérstaklega meðal giftra karlmanna. Ég þekki ekki eina einustu “síngula” konu sem hefur spurt mig að því að fyrra bragði hvort mér þyki þetta einlífi ekki glatað og hvort mér þyki ekki kominn tími til fara að koma mér út úr húsi, arka niður á Lunda og ná mér í einn úr landsliðinu. (þetta með landsliðið er reyndar lygi en það munar nú ekki miklu). Ég hef reyndar ekki upplifað áðurnefndan hrylling í mjög miklu magni (enda svo ung ;-) en hef fyrir þessu áreiðanlegar heimildir. Til dæmis lenti vinkona mín í því að fá athugasemdir varðandi utanlandsferðalög sín og fann greinilegan kulda gagnvart þessu "frelsi" okkar. Þannig var að gift kona segir: “já það er ekkert skrítið að þið getið farið svona mikið til útlanda, þið þessar einstæðu.” Núú…?? Segir vinkona mín hissa. Hvernig færðu það út? Nú, þið þurfið bara að borga fargjald fyrir einn. Og svo er miklu ódýrara fyrir ykkur að fara út að borða með hóp af hjónafólki vegna þess að þá er alltaf borgað fyrir þann sem er einn !!!…Hvað með tvöfalda innkomu hjóna miðað við þann sem er einn að vinna fyrir heimili? Þá dettur manni í hug þegar verið er að gefa stórafmælisgjafir, brúðkaupsgjafir og slíkt. Ég hef a.m.k aldrei tekið þátt í slíkri gjöf að ég þurfi að borga helming þess sem hjón borga. Og endilega kynnið mig fyrir þessum hópi hjóna sem alltaf borgar fyrir þá einsömlu ;-)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home