dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Pipar og salt

Mín fór í Miðstöðina í gær að skoða flísar og tæki. Alltaf jafn gaman að koma þangað verð ég að segja. Þau eru alltaf boðin og búin að hjálpa manni. Frábær þjónusta í alla staði. Og ef það er eitthvað flottara til hjá þeirra umbjóðendum í Reykjavík þá má maður bara velja það sem maður vill og þau panta það fyrir mann. Komið daginn eftir. En alla vega þá er ég í mestu vandræðum með það hvort ég eigi að velja gráa tóna eða kremaða tóna. Það er fullt til af fallegum flísum. Reyndar kosta þær sem stúlkuna langar mest í vel á áttunda þúsundið á fermetrann! Kemur sér reyndar bara nokkuð vel að vera með lítið baðherbergi þegar velja skal flísar. En meira um það síðar.

Meira af góðri þjónustu. Þegar ég var búin í Miðstöðinni þá fór ég í Axel Ó með strákinn að velja innanhússæfingaskó handa honum. Þegar búið var að velja og ég ætlaði að borga þá mundi ég að ég átti inneignarnótu en var ekki með hana á mér. En heyrðu, ekki málið, nótunni var bara flett upp og tekin með í reikninginn og ég mátti henda mínu eintaki þegar ég kæmi heim! Þetta er nú það sem ég kann einna best að meta við það að búa í Vestmannaeyjum. Svona tel ég að myndi ekki gerast í stærri bæjum eða borgum.

Ég var með lovely pipar og salt kvöld á föstudagskvöldið síðasta. Bauð upp á æðislegan mat, þó ég segi sjálf frá. : ) Mega-kjúklingasalat með hvítvíni.

Ef þið viljið prófa þetta þá set ég uppskriftina hér: Athugið að magnið er miðað við að þetta sé aðalmáltíð fyrir 6-8 manns, það má alveg minnka þetta eða auka eftir smekk og breyta og bæta út í því sem manni þykir gott.

Salat:
1 poki salatblöð að eigin vali
½ poki rucolasalat
handfylli af spínatblöðum (má vera meira)
½ blaðlaukur, saxaður
4 tómatar skornir í tenginga
½ agúrka skorin að vild í strimla eða sneiðar
1 bakki fetaostur í kryddolíu
1 bónda brie skorinn í tenginga
1 piparostur skorinn í teninga

3 paprikur (gul, rauð, græn) brennd á grilli og svo er þetta svarta skafið af og fræin hreinsuð, skorið í ræmur.
1 bréf sparibeikon (mjög lítil fita), steikt á tissjú í örbylgjuofni eða eins og ykkur sýnist, skorið í litla bita
(ólífur ef vill)
(sólþurrkaðir tómatar ef vill)

Þetta hafði ég sér:
6-8 kjúklingabringur skornar í þunnar sneiðar, kryddlegnar í Caj Pind hvítlauksgrillolíu eða með bara kryddaðar með eðalkryddi, steiktar á pönnu. Það er best að hafa þær volgar út á salatið, ekki of heitar.

1 poki furuhnetur, ristaðar á pönnu
1 bréf hráskinka
baguette brauð
hvítlauksgrillsósa, pipargrillsósa, vinaigrette eða hvítlauksolía eða hvað sem maður vill hafa með.

Ískalt hvítvín er svo ómissandi með þessu og svo auðvitað góðra vina hópur!


Á laugardaginn fórum við mæðginin svo í berjamó og lautarferð. Vígðum töskuna frá Margréti Lilju sem er svo mikið krútt. Passar fyrir tvo í pikknikk. : ) Um kvöldið fórum við svo í pysjuleiðangur og fundum eina í Herjólfsdal.
Á sunnudagsmorgun vorum við svo öfga hress að við skelltum okkur í sund saman. Mikið var hann ánægður með mömmu sína drengurinn. : ) Það þarf nú ekki mikið til að gleðja þessi grey, ha!

En hvað er svo meira að frétta? Ég er að fara í borgina um helgina að ná í hann Aaron minn. Mikið verður gaman að hitta hann loksins aftur. Alltof langt síðan síðast. Ég er alveg á fullu að semja prógram! Eða svona þannig, ég ætla með hann austur á Höfn að heimsækja Fanney frænku. Það er svo fallegt að keyra þetta og svo tala ég nú ekki um umhverfið þarna austur frá. Fyrir náttúrubarnið verður þetta paradís á jörðu! Eða það vona ég alla vega. Ég hlakka rosalega til að sjá svipinn á honum þegar hann sér Jökullónið og svo bara útsýnið úr eldhúsinu hennar Fanneyjar. Hún er nefnilega praktiklí með Vatnajökul í garðinum hjá sér.
Svo á bara að hafa það kósí á eyjunni fögru. Verður örugglega skroppið í nokkra göngutúra og stjörnuskoðunarferðir. : ) Ég segi ykkur betur frá því síðar!

Jæja, ég er hætt í bili. Verð að fara að teikna baðherbergið mitt.

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Pipar og bað...

Hvað er að frétta?

Ég var með matarboð í gærkvöldi. Bauð bróður mömmu og hans familíu og svo ömmu og afa, syni mínum til ómældrar gleði. Var með lasagna með spínati. Ekkert smá langt síðan ég hef eldað svoleiðis. Ætti ég kannski að gera meira af því þar sem ég er ekki frá því að ég hafi heillað SK á sínum tíma upp úr skónum með mínu óviðjafnanlega lasagna. : ) en það er kannski ekki svo góðs viti því að ekki gekk það nú lengi. Þ.e. þegar ég hætti að nenna að gefa honum lasagna reglulega þá fór áhuginn að þverra. Eða eitthvað annað. Ætli það ekki bara?


En jæja ég plataði frænda minn til að mæla baðherbergið mitt fyrir mig og gefa mér góð ráð. Mér líst voðalega vel á þetta því ef hann hefur rétt fyrir sér þá mun myndast þó nokkuð aukapláss þegar ég tek niður veggklæðningarnar og þá kem ég almennilegu baðkeri fyrir í þessu fremur takmarkaða rými sem kallast baðherbergi. Ef herbergi getur talist næstum því. Ætti eiginlega frekar að kallast skápur eða eitthvað í þá áttina. Nei ég segi nú bara svona.


Svo fór ég á bókasafnið að skoða blöð um innanhússarkitektúr og svoleiðis. Fékk líka heila bók um baðherbergi og svefnherbergi. Maður ætti nú að geta fengið einhverjar hugmyndir þar. VK vill endilega fá extreme makeover home edition heim til okkar. Ég þakka nú bara fyrir á meðan hann er bara að biðja um svoleiðis fyrir heimilið en ekki mömmu sína : )

Svo er bara piparpartý á föstudaginn. Þetta verður reyndar bara hálft því að HI er náttlega gengin út og svo erum við með eina aukalega í þetta sinn sem er gift. Þannig að það þarf að fara að gera eitthvað í þessu piparkornafélagi. Annað hvort að finna einhverja handa okkur ÁK eða breyta nafninu. Kannski að endurnýja meðlimina. Fá nokkra gilda limi í félagið!: ) Nei, ég segi nú bara svona.

Bless bless í bili.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Engan veginn og alls ekki hress...

Hvernig er hægt að vera svona latur? Að nenna ekki neinu. Ekki að vinna, ég er ekki einu sinni með draumóra um að vera að þrífa heima hjá mér eða neitt slíkt. Nú hef ég engar afsakanir lengur og neyðist til að viðurkenna letina. Mig langar bara til að sofa í tandurhreinu rúmi og lesa á milli þess sem ég dorma. Hvað er það? Jólin eru ekki einu sinni nálæg. Bara að einhver semdi fyrir mig ljóð eða smásögu. .: ) Var reyndar að lesa smásögur eftir Gerði Kristnýju; Eitruð epli. Rosalega furðulega sögur maður. Brosti nú alveg að sumum en fékk hroll af öðrum. Svo er bara að finna sér eitthvað annað að lesa. Er að lesa Móður í hjáverkum en næ ekki að festasta nógu vel í henni. Kannast við sumt sem er á seyði hjá frúnni en það vantar spennuna í þetta fyrir mig. Þetta netástarsamband hennar mætti vera meira spennandi og karlinn hennar mætti ergja sig meira. Bara svona til að maður missi ekki þráðinn í lýsingum af skítugum krökkum, hneykslaðri tengdafjölskyldu, skilningslausum samstarfsfélögum og kalli sem Vala vinkona myndi kalla borðtusku. : ) Ég verð nú að segja að ég hefði líklega fundið mig betur í sögum af Bridget Jones eftir að hún og Darcy eru skilin og hún býr ein með börnin. En hvað ætli sé að frétta af Bridgeti? Er ekki H. Fielding að skrifa meira frá henni? Einhverja dálka eða er það saga? Man ekki.

Ég er ekki í vondu skapi en samt einhvern veginn í engu skapi. Langar bara til að gera þetta ofantalda og láta einhvern annan um að elta rykið heima hjá mér. Væri samt gaman ef maður væri búinn með þann eltingarleik. Þá væri ég hressari, ég veit það alveg.

Jæja ég ætti eiginlega að fá mér lifnipillu áður en ég lognast út af hreinlega. Kannski á Helga í Apótekinu eitthvað svoleiðis handa mér! C vítamín eða eitthvað. Ég er nú búin að borða fullt af gulrótum í dag. Þær ættu að gefa mér eitthvað vítamín. En það virkar kannski ekki strax. Hvað um það. Bless ég er farin upp í rúm að lesa!

mánudagur, ágúst 15, 2005

af ættarmóti og afmælum

Jæja þá er frábært ættarmót Reynistaðarættarinnar á enda og stóru dagarnir okkar Valla Kalla liðnir. Ég og Gunnar Freyr Hafsteinsson frændi minn (krúsidúlla) áttum afmæli þann 12. ágúst þ.e. sl. föstudag, hann varð 7 ára og ég 23 (eða það var alla vega ákveðið : ). Að sjálfsögðu fengum við söng og hamingjuóskir í tilefni dagsins. Prinsinn minn átti svo 9 ára afmæli þann 13. ágúst og fékk hann sína stærstu afmælisveislu hingað til á laugardaginn. Hún heppnaðist alveg prýðilega. ;-) Myndirnar koma síðar.
Skemmtun ættarmótsins var framúrskarandi vel heppnuð enda frábært fólk á ferð. Með góðri aðstoð Valgeirs Skagfjörð stjórnaði undirrituð dagskránni. Var með smá kvíðahroll alveg þangað til og alveg rosalega fegin þegar það var afstaðið. En allir segja að þetta hafi verið fínt og ég kýs að trúa því. En Valgeir var bara brilliant og fær hann bestu þakkir fyrir aðstoðina.

Við brunuðum svo í borgina í gær og VK heimsótti pabba sinn. Ég gat ekki annað en brosað þegar ég sá hvað þeir voru samrýmdir með Star Wars myndirnar. Siggi Kalli lánaði syni sínum safnið dýrmæta og er drengurinn í skýjunum yfir örlæti föður síns.

Ég er komin með hálsbólgu og skemmtilegheit bara svona til að hressa mig og kæta en vonandi lagast það nú þegar maður nær að sofa heila nótt í einum dúr.

Jæja myndirnar frá ættarmótinu koma svo von bráðar hér inn fyrst maður er orðinn svona rosalega klár. :-)

Lifið heil

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Gullkorn...

Frábær brandari fyrir Möggu Lilju: það eru líklega fleiri skógræktarfræðingar en tré á Íslandi. Góður!
Svo er annar sem ég sá á auglýsingaskilti í Chicago fyrir nokkrum árum:
maximise your potentials, minimise your wardrope; consider priesthood! Líka góður þessi!

Myndir fyrir Sóley og Lokesh




Hér eru nokkrar myndir fyrir Sóley og Lokesh frá því um jólin. Mikið var nú gaman hjá okkur ha!

Frönsk pylsa á Kóngsins Nýjatorgi í Kaupmannahöfn.


Nú er maður bara alveg að tryllast. Verð að smella þessari vinalegu mynd hér í viðbót. Rosalega langar mann að skella sér aftur í frí þegar veðrið hér er hvorki til að hressa mann né kæta. : )

Dekurblogg...


Nú er ég bara að experimenta. Talandi um dekurverkefni. Ég sagðist myndu sinna blogginu lítillega í haust. En nú er verið að taka smá forskot. Var að fatta að nú get ég hent inn myndum hérna. Ógeðlega klár skilurðu? Eða þannig. Svo að til prufu þá smelli ég einni af dekurdrengnum mínum sem tekin var í Legolandi í sumar. Við fórum í brunaliðskeppni. Skíttöpuðum reyndar en það var ekki að marka því að við vorum bara tvö og þetta er hugsað fyrir heilu fjölskyldurnar. En skemmtilegt var það. : )

Gúrkutíð?

Ættarmótið hefst á morgun. Mikið hlakka ég til. Sonur minn ekki síður. Það á sko að flagga því sem eftir lifir af Þjóðhátíðarglamúr. Þ.e. hálsmen, armbönd og jójó með ljósi, grænt, appelsínugult og silfurlitað hársprey o.s.frv. Við leggjum í hann í fyrramálið með Herjólfi. Frá Thorlakshafen verður brunað beint á Selfoss að sækja afmælistertu og skanna nokkrar búðir í bænum. Svo verður haldið í humátt að Fljótshlíðinni. Nánar til tekið að Goðalandi. Ég held að það verði mjög gaman að vera þarna. Alltaf fallegt um að litast í Fljótshlíðinni. Langafi minn sem einmitt hefði átt afmæli á laugardaginn eins og sonur minn fæddist þarna í nágrenninu. Svo á ég sjálf ágætar minningar frá þessu svæði. Má til dæmis nefna ferð sem var farin hálfa leið upp í Tindfjöll fyrir mörgum árum, og rómantískar skoðunarferðir að stöðum eins og Gluggafossi, sem er, eða það minnir mig, einn krúttlegasti foss á landinu. En það verður nú hvorki rómantík né reyktur lundi í Fljótshlíðinni í þetta sinn en fögur er Hlíðin sagði Gunnar og það stendur.

Þessa vikuna hef ég stundað jóga hjá Jóhönnu í Hressó. Það er bara svo yndislegt. Ég vildi að hún byggi hérna og byði upp á reglulega tíma. Jóga er svo mannbætandi og hreinsandi fyrir sálina. Ég var hjá henni í jóga fyrir nokkrum árum en eftir að hún flutti hef ég ekki haft mig í að gera þetta alveg sjálf. Hef reyndar gert eitthvað stundum en ég þyrfti að koma þessu inn í daglegu rútínuna hjá mér.

Nú nálgast haustið og ég var búin að lofa sjálfri mér að sinna dekurverkefnum (og ekki gleyma dekurdrengnum mínum : ). Jóginn er fyrsta dekurverkefnið sem fer í framkvæmd. Næsta mál er að koma mér upp tölvu til að vinna myndirnar sem ég hef tekið síðan í janúar 2003 og eru geymdar á diskum. Ég vil setja þær upp í netalbúm og líka prenta eitthvað út. Maður er eiginlega alveg ferlegur með þessar stafrænu myndir. Prentar aldrei út og svo er maður búinn að gleyma hvað maður á og svona. En það stendur allt til bóta.

Svo er það baðherbergið. Ég er í erfiðleikum með að velja mér flísar en það hlítur að koma fljótlega. Ég ætla að rífa allt út eins og ég sagði og fá mér baðker í staðinn fyrir sturtuna og svo bara nett tæki. Og svo verður flísalagt í hólf og gólf. Nenni ekki þessum viðbjóðslega panel lengur. Ekki alveg mín týpa. Jæja við sjáum til hvernig til tekst.

Fleiri dekurverkefni? Jú jú en ég er ekki búin að skipuleggja meira í bili. En það kemur.

Annars er bara gúrkutíð í mínu lífi. Engar bitastæðar fréttir. Alla vega ekki hæfar til birtingar á alnetinu. : ) Æ, ég segi nú bara svona.

Ég kveð að sinni, lifið heil.

mánudagur, ágúst 08, 2005

Lífið eftir Þjóðhátíð...

Jú, jú, Skvísusundið var besta gatan í Dalnum þetta árið. Og nokkrar fleiri reyndar líka. Hátíðin var með besta móti í mínu lífi hingað til. Og úthaldið alveg til fyrirmyndar. Augunum var lokað klukkan 06.15 á laugard.morgun. 07.15 á sunnud.morgun og 10.00 á mánudagsmorguninn. Ekki oft sem maður hefur staðið sig svona vel. Nokkur atriði sem standa upp úr: bakkelsi a la Reynó undir íslenskum fána, ræða Össurar og lúðrablástur í sól og blíðu á föstud., sonur minn í skyttubúningi á föstud.kv., Skítamórall í tjaldi að Sigurbraut 2, Lotta frænka, Bobbie McGee á íslensku í flutningi Ásdísar Haraldsd. frænku minnar, föðurfjölskyldufundur í tjaldi við Skvísusund, Brattur í bekkjabíl á mánudagsmorgun, alltaf hress, Eyjólfur efnafræðingur og Jónatan jarðfræðingur, vafasöm saga af aðgerðum miss Hillary til að losna undan kynferðislegu áreiti og s.frv.. o.s.frv.

Næst á dagskrá er ættarmót minnar ástkæru móðurfjölskyldu sem kennd er við Reynistað í Vestmannaeyjum. Þetta verður mikið fjör er ég viss um og pottþétt mál að maður verður þreyttur mánudaginn fimmtánda ágúst. Við mæðginin eigum líka afmæli þessa helgi þ.e. á fös og lau og maður skálar fyrir því get ég sagt þér.

Þar á eftir stendur til að græja baðherbergið. Rífa allt út og setja allt nýtt inn. Mikið verður það skemmtilegt verkefni.

Svo er ég að tryllast úr spenningi yfir því að góðvinur minn hinn ameríski A.W.A. hefur hug á að heimsækja eyjuna fögru fljótlega. Spurning hvort það verði ekki hægt að hafa ofan af fyrir honum einhvern veginn.

En svo er það bara veðrið sem hressir mann hvorki né kætir þessa dagana. Mikið er gott að hátíðin mikla var ekki haldin núna. Þá hefði maður nú aldeilis tapað peningnum eða endað á frekar dýru balli í Týsheimilinu. Efast um að maður hefði meikað það eins lengi og áður sýnd tímataka gaf til kynna.

Mikið rosalega höfðum við mæðgin það gott í gærkv. Tókum spólu á Kletti og gláptum á Evu og Adam (sumir alveg að fíla smá rómans en bara í hófi þó) og klukkutíma af syni grímunnar sem var svo gölluð þannig að við fengum Star Wars í staðinn. Gleðin sem skein úr augum barnsins yfir að fá að sjá Star Wars minnti mig óhemju mikið á föður hans sem birtist reglulega í fari sonar míns. Mér til ómældrar kátínu á köflum. Sumt er bara í genum manna, Star Wars incl. Það er eins og það er.

Á laugardaginn var Artí partí á Hólagötunni. Drengirnir VK og BB unnu að myndlist á striga sem maður kaupir tilbúinn á blindramma. Algjör snilld fyrir þá sem vilja eignast málverk á góðu verði. Kaupa bara rammana svona tilbúna og grunnliti í flöskum. Kostar ekki mikið. Gefa svo krökkunum lausan tauminn og afraksturinn getur ekki klikkað. Ég segi ykkur það alveg satt. Sómir sér vel í hverri stofu. Ekki síður en Kjarval, Karólína og fleiri. Tala nú ekki um hvað þetta verður skemmtilegt þegar frá líða stundir. J

Lifið heil.