dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Gúrkutíð?

Ættarmótið hefst á morgun. Mikið hlakka ég til. Sonur minn ekki síður. Það á sko að flagga því sem eftir lifir af Þjóðhátíðarglamúr. Þ.e. hálsmen, armbönd og jójó með ljósi, grænt, appelsínugult og silfurlitað hársprey o.s.frv. Við leggjum í hann í fyrramálið með Herjólfi. Frá Thorlakshafen verður brunað beint á Selfoss að sækja afmælistertu og skanna nokkrar búðir í bænum. Svo verður haldið í humátt að Fljótshlíðinni. Nánar til tekið að Goðalandi. Ég held að það verði mjög gaman að vera þarna. Alltaf fallegt um að litast í Fljótshlíðinni. Langafi minn sem einmitt hefði átt afmæli á laugardaginn eins og sonur minn fæddist þarna í nágrenninu. Svo á ég sjálf ágætar minningar frá þessu svæði. Má til dæmis nefna ferð sem var farin hálfa leið upp í Tindfjöll fyrir mörgum árum, og rómantískar skoðunarferðir að stöðum eins og Gluggafossi, sem er, eða það minnir mig, einn krúttlegasti foss á landinu. En það verður nú hvorki rómantík né reyktur lundi í Fljótshlíðinni í þetta sinn en fögur er Hlíðin sagði Gunnar og það stendur.

Þessa vikuna hef ég stundað jóga hjá Jóhönnu í Hressó. Það er bara svo yndislegt. Ég vildi að hún byggi hérna og byði upp á reglulega tíma. Jóga er svo mannbætandi og hreinsandi fyrir sálina. Ég var hjá henni í jóga fyrir nokkrum árum en eftir að hún flutti hef ég ekki haft mig í að gera þetta alveg sjálf. Hef reyndar gert eitthvað stundum en ég þyrfti að koma þessu inn í daglegu rútínuna hjá mér.

Nú nálgast haustið og ég var búin að lofa sjálfri mér að sinna dekurverkefnum (og ekki gleyma dekurdrengnum mínum : ). Jóginn er fyrsta dekurverkefnið sem fer í framkvæmd. Næsta mál er að koma mér upp tölvu til að vinna myndirnar sem ég hef tekið síðan í janúar 2003 og eru geymdar á diskum. Ég vil setja þær upp í netalbúm og líka prenta eitthvað út. Maður er eiginlega alveg ferlegur með þessar stafrænu myndir. Prentar aldrei út og svo er maður búinn að gleyma hvað maður á og svona. En það stendur allt til bóta.

Svo er það baðherbergið. Ég er í erfiðleikum með að velja mér flísar en það hlítur að koma fljótlega. Ég ætla að rífa allt út eins og ég sagði og fá mér baðker í staðinn fyrir sturtuna og svo bara nett tæki. Og svo verður flísalagt í hólf og gólf. Nenni ekki þessum viðbjóðslega panel lengur. Ekki alveg mín týpa. Jæja við sjáum til hvernig til tekst.

Fleiri dekurverkefni? Jú jú en ég er ekki búin að skipuleggja meira í bili. En það kemur.

Annars er bara gúrkutíð í mínu lífi. Engar bitastæðar fréttir. Alla vega ekki hæfar til birtingar á alnetinu. : ) Æ, ég segi nú bara svona.

Ég kveð að sinni, lifið heil.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Það voru pantaðar 185 myndir í dag! alveg frá sumrinu 2003 og ekki allar pantaðar heldur.....maður er alveg ferlegur ég er alveg sammála því.....rosalega flott að hafa stafræna vel en aldrei fer þetta inn í albúm, en nú stendur sko bót í kúnni...þarf ekki einu sinni að kaupa albúm á 2 heil ónotuð ohhhh hvað ég hlakka til ;)

8:48 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home