Hann er fagur Hornafjörðurinn...já það má nú segja. Mikið óskaplega var ferðin okkar nú skemmtileg. Við lögðum af stað á föstudagsmorguninn. Beint í Herjólf og þaðan á Hafið bláa. Sem var frábært. Geðveik staðsetning hreint út sagt. Ætla pottþétt að fara þangað aftur. Líklega eitt það rómantískasta sem ég hef gert lengi. Jæja, þaðan var brunað á Selfoss, tankurinn fylltur og skotist í ríkið eftir smá sulli. Næsta stopp var Seljalandsfoss. Þar dvöldum við dágóða stund í mikilli birtu og enn meira roki. En fagur er fossinn maður minn. : )
Við skoðuðum Skógafoss lítillega og héldum svo af stað austur og stoppuðum næst á Vík í Mýrdal þar sem við keyptum nesti og Íslandskort barnanna. Svo var það bara Jökulsárlónið undurfagra og svo Hornafjörður um 9 leytið. Sem sagt 10 klst ferð samtals og alveg þess virði að eyða þeim í þessa yndisfögru leið. Maður er bara ástfanginn af landinu sínu eftir svona ferð. Þvílíkar andstæður og birtan lék við mann. Mig langar alltaf að ferðast þegar sólin skín í norðanáttinni. Þannig að þetta var alveg fullkomið.
Á Hornafirði var að vanda vel tekið á móti manni. Fiskur á borðum með tilheyrandi kræsingum. Eftir langan dag fór maður þreyttur en sáttur í háttinn á Hornafirði.
Laugardagurinn byrjaði með gönguferð út í Ós, á slaginu klukkan 11. Ekki þýddi að missa úr gönguferð þó maður væri í fríi. Eftir gönguna fór Fanney með okkur á trukknum um allar sveitir og kíktum við m.a. á hestabúskapinn hennar. Um kvöldið fengum við geðveika hreindýrasteik með klikkaðri sósu og fl. + rauðvín. Frábært hjá Fanney. Og rausnarlegt. : )
Á sunnudaginn fórum við svo upp í Lón og vorum þar meirihluta dagsins í frábæru skyggni. Týndum smávegis af krækiberjum og bláberjum. Leituðum að svörtum svani en hann var floginn burt. Um kvöldið komu svo amma og afi austur og borðuðum við saman. Þá var það heilsteikt saltgrafin lúða sem var á borðum. Þvílíkt sælgæti. Ég segi nú ekki annað en það. Með góðu hvítvíni og salati. Jömmí.
Á mánudagsmorgun var svo haldið í hann eftir nokkra umhugsun vegna slæmrar veðurspár. Við fórum fetið fyrstu tvo tímana kannski en svo var þetta bara allt í góðu. Á leiðinni var mikið stoppað vegna myndatöku þannig að við fórum síðustu metrana til Þorlákshafnar upp úr klukkan 7. Svo er Herjólfsferð alltaf góð ferð þannig að ferðin endaði vel.
Þegar ég var búin að henda peyjanum og draslinu heim fór í til Þóreyjar þar sem hún var með saumó. En allir voru farnir heim. Ég kíkti samt aðeins inn til frú Þóreyjar og gæddi mér á kræsingunum sem ekki voru af verra taginu. Takk Þórey. Verst að missa af hinum stúlkunum. En svona er þetta bara.
Sonur minn var alsæll með ferðina og útlendingurinn líka. Þeim kom mjög vel saman og miðlaði sá eldri teiknihæfileikum sínum til þess yngri við mikinn fögnuð þess síðarnefnda.
Nú er svo ný vinnuvika hafin og jafnframt síðasta vikan hans Aarons hérna á Íslandi. Það verður nú tómlegt í kotinu þegar hann verður farinn en hann kemur nú vonandi aftur fljótlega. Svo förum við VK bara kannski líka til hans bráðum. En það kemur allt með kalda vatninu.
Jæja ekkert meira að frétta í bili.