dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

föstudagur, september 30, 2005

Allt er breytingum háð...

Jæja, smá breyting á áætlun. AWA ætlar að framlengja dvölinni um eina viku. Fer ekki fyrr en þann tíunda í staðinn fyrir þann þriðja. Ég er mjög sátt við þá ákvörðun. Var farin að kvíða fyrir því þegar hann færi. En þetta þýðir að maður verður að sleppa sælkerakvöldi hjá Kiddu og Bedda á Seltjarnanesinu. Það hefði verið frábært reyndar en svona er þetta. Spáin er heldur ekki neitt svo svakalega góð. Núna stefnir sem sagt bara allt í að við skellum okkur á Lundaball í Höllinni. Og í Indverska veislu til Margoar í kvöld. Það verður örugglega frábært. Er bara að spekúlera í því hvort að maður ætti að tjalda perludressinu eða ekki. Æ ég sé til. Get alla vega ekki sofið á þeirri ákvörðun.

Annars er nú allt gott að frétta hérna. Veðrið sýnir allar sínar hliðar þessa dagana þannig að AWA er búinn að fá sýnishorn af flestum veðurafbrigðum nema blindhríðarbyl. En nálægt því þó :)

Jæja lifi heil.

mánudagur, september 26, 2005

Fögur er Hornafjarðarsólin eins og máninn og fjörðurinn sjálfur...

Hann er fagur Hornafjörðurinn...já það má nú segja. Mikið óskaplega var ferðin okkar nú skemmtileg. Við lögðum af stað á föstudagsmorguninn. Beint í Herjólf og þaðan á Hafið bláa. Sem var frábært. Geðveik staðsetning hreint út sagt. Ætla pottþétt að fara þangað aftur. Líklega eitt það rómantískasta sem ég hef gert lengi. Jæja, þaðan var brunað á Selfoss, tankurinn fylltur og skotist í ríkið eftir smá sulli. Næsta stopp var Seljalandsfoss. Þar dvöldum við dágóða stund í mikilli birtu og enn meira roki. En fagur er fossinn maður minn. : )
Við skoðuðum Skógafoss lítillega og héldum svo af stað austur og stoppuðum næst á Vík í Mýrdal þar sem við keyptum nesti og Íslandskort barnanna. Svo var það bara Jökulsárlónið undurfagra og svo Hornafjörður um 9 leytið. Sem sagt 10 klst ferð samtals og alveg þess virði að eyða þeim í þessa yndisfögru leið. Maður er bara ástfanginn af landinu sínu eftir svona ferð. Þvílíkar andstæður og birtan lék við mann. Mig langar alltaf að ferðast þegar sólin skín í norðanáttinni. Þannig að þetta var alveg fullkomið.

Á Hornafirði var að vanda vel tekið á móti manni. Fiskur á borðum með tilheyrandi kræsingum. Eftir langan dag fór maður þreyttur en sáttur í háttinn á Hornafirði.

Laugardagurinn byrjaði með gönguferð út í Ós, á slaginu klukkan 11. Ekki þýddi að missa úr gönguferð þó maður væri í fríi. Eftir gönguna fór Fanney með okkur á trukknum um allar sveitir og kíktum við m.a. á hestabúskapinn hennar. Um kvöldið fengum við geðveika hreindýrasteik með klikkaðri sósu og fl. + rauðvín. Frábært hjá Fanney. Og rausnarlegt. : )

Á sunnudaginn fórum við svo upp í Lón og vorum þar meirihluta dagsins í frábæru skyggni. Týndum smávegis af krækiberjum og bláberjum. Leituðum að svörtum svani en hann var floginn burt. Um kvöldið komu svo amma og afi austur og borðuðum við saman. Þá var það heilsteikt saltgrafin lúða sem var á borðum. Þvílíkt sælgæti. Ég segi nú ekki annað en það. Með góðu hvítvíni og salati. Jömmí.

Á mánudagsmorgun var svo haldið í hann eftir nokkra umhugsun vegna slæmrar veðurspár. Við fórum fetið fyrstu tvo tímana kannski en svo var þetta bara allt í góðu. Á leiðinni var mikið stoppað vegna myndatöku þannig að við fórum síðustu metrana til Þorlákshafnar upp úr klukkan 7. Svo er Herjólfsferð alltaf góð ferð þannig að ferðin endaði vel.

Þegar ég var búin að henda peyjanum og draslinu heim fór í til Þóreyjar þar sem hún var með saumó. En allir voru farnir heim. Ég kíkti samt aðeins inn til frú Þóreyjar og gæddi mér á kræsingunum sem ekki voru af verra taginu. Takk Þórey. Verst að missa af hinum stúlkunum. En svona er þetta bara.

Sonur minn var alsæll með ferðina og útlendingurinn líka. Þeim kom mjög vel saman og miðlaði sá eldri teiknihæfileikum sínum til þess yngri við mikinn fögnuð þess síðarnefnda.

Nú er svo ný vinnuvika hafin og jafnframt síðasta vikan hans Aarons hérna á Íslandi. Það verður nú tómlegt í kotinu þegar hann verður farinn en hann kemur nú vonandi aftur fljótlega. Svo förum við VK bara kannski líka til hans bráðum. En það kemur allt með kalda vatninu.

Jæja ekkert meira að frétta í bili.

miðvikudagur, september 21, 2005

28 ára í hjartanu, það stemmir alveg ekki satt?

You Are 28 Years Old
Under 12: You are a kid at heart. You still have an optimistic life view - and you look at the world with awe.
13-19: You are a teenager at heart. You question authority and are still trying to find your place in this world.
20-29: You are a twentysomething at heart. You feel excited about what's to come... love, work, and new experiences.
30-39: You are a thirtysomething at heart. You've had a taste of success and true love, but you want more!
40+: You are a mature adult. You've been through most of the ups and downs of life already. Now you get to sit back and relax.
What Age Do You Act?

mánudagur, september 19, 2005

Karlmenn og hraðahindranir...

Karlmenn og hraðahindranir? Hvað er það? Ég sé það að karlmenn og hraðahindranir á götum fara bara ekki saman! Það er eins og heilabúið nái því ekki að maður þurfi að minnka hraðann á bílnum þegar maður fer yfir hraðahindrun, annars skemmist eitthvað!

Hafið þið svipaða reynslu? Tell me...!

föstudagur, september 16, 2005

Klukkuð

Matta frænka klukkaði mig en það þýðir að maður eigi að setja fram 5 tilgangslausar upplýsingar um sjálfan sig. Hér er það sem mér dettur í hug að enginn þurfi að vita um mig.
Ég ætla að klukka eftirtalda aðila: Stefaníu, Hildi Sæ, Adam, og svo ætla ég hér með að skora á Sóley að setja upp blogg og líka Brian.


1 þoli ekki opnar klósettsetur og blaut handklæði á gólfum baðherbergja
2 var einu sinni sjúklega hrædd við hrossafiðrildi en komst yfir það og finnst köngulær spennandi en um leið ógeðslegar.
3 get ekki sungið og alls ekki spilað á gítar þrátt fyrir margar tilraunir í þá áttina
4 er veik fyrir yngri mönnum með sítt hár
5 lenti einu sinni í því að fara út að ganga með tík fjölskylduvinkonu. Tíkin sem var af góðum ættum, var á lóðaríi og var mér tjáð að ég yrði að passa að hún færi ekki með einhverjum hundi því að þau voru búin eða ætluðu að láta einhvern hreinræktaðan á hana. Ég hélt nú að það yrði ekki mikið mál, hún yrði bara í bandi. Jæja við leggjum af stað og fyrr en varir er hún náttúrulega farin að sýna einhverjum kunningja áhuga en mér tókst að skikka hana af. Þegar við nálguðumst íþróttahúsið mætti skyndilega einn sá ljótasti rakki sem ég hef augum litið og nema hvað að mín fellur svona algerlega fyrir honum. Ég reyndi hvað ég gat að hafa hemil á tíkinni en allt kom fyrir ekki og ég missti takið á bandinu og var einnig svolítið hrædd við lætin í þeim. Þannig að ég mátti bara bíða á meðan þetta tæki enda eins vandræðalegt og það nú var. : ) jæja, við vorum stödd við íþróttahúsið og á sama augnabliki er æfing hjá meistaraflokki ÍBV og hver stöddinn kemur skokkandi á fætur öðrum framhjá mér og hundaævintýrinu. (skal tekið fram að ég var 18-19 ára þegar þetta átti sér stað og þ.a.l. mjög viðkvæm fyrir almenningsálitinu og sértaklega áliti myndarlegra íþróttamanna!) og þvílíka lúkkið sem maður fékk frá strákunum. Nema að einn þeirra sem kannast eitthvað við rakkann nemur staðar og spyr mig þessarar ógleymanlegu spurningar: Af hverju hleyptirðu honum eiginlega upp á hana??????... eins og ég hafi ráðið við þetta? Þegar þessu var svo öllu saman lokið fór ég heim með skömmustulega tík og ég varð ekkert hissa á því þar sem standardinn var greinilega ekki mjög hár! Þvílíkt rónalegur rakki maður... Daginn eftir hitti ég svo roskinn mann sem ég þekkti úr lúðrasveitinni. Hann býr þarna rétt hjá og var greinilega að fylgjast með herlegheitunum daginn áður því að hann segir við mig: mikið rosalega hafði ég gaman af því að fylgjast með þér þarna í gær!!!.... ég man enn hvað mér fannst þetta pínlegt atvik og roðna alveg inni í mér þegar ég hugsa um þetta!

fimmtudagur, september 15, 2005

Brjálað að gera...

Vá hvað það er mikið að gera á stóru heimili. : ) Sonur minn fékk vægt taugaáfall yfir því í dag hvað það væri stutt eftir af dvölinni hans Aarons hér á Íslandi. Það var nefnilega þannig að í síðustu viku var brjálað veður og þess vegna tók Aaron það að sér að skutla prinsinum í tónlistarskólann. Nema að sumir fengu þá flugu í höfuðið að þannig ætti þetta að vera og þess vegna fékk ég táraflóðið í símann þegar ég sagði honum að það væri ekki hægt núna (maðurinn vill kannski gera eitthvað annað en að vera einkabílstjóri fyrir mig og fjölskylduna mína!). Hann (VK) var nefnilega búinn að “hlakka svo rosalega mikið til að hitta hann” (tækifærissinni aldarinnar?)...svo var svo stutt eftir af tímanum hans hér og hann hélt að þetta yrði miklu lengra...o.s.frv. ó mæ god þvílíkur prins. En hann þurfti að redda sér í þetta sinn! : )

Annars er þetta allt í góðum gír svona þannig lagað. Ég eldaði Burritos handa okkur í gær og hafði hrísgrjónasalat með. Í hádeginu fórum við svo aftur í Skýlið og fengum okkur hressingu hjá Jóa.

Við ætlum að fara austur á Höfn í Hornafirði þarnæstu helgi. Ég hlakka rosalega til að sýna honum meira af landinu mínu. Hann á eftir að falla gjörsamlega fyrir suður og austurlandinu. Sérstaklega Jökullóninu og Vatnajökli sjálfum. Ég segi ykkur frá því þegar þar að kemur.

Ég verð að fara eitthvað með hann á flakk um eyjuna um helgina. Ég er með einhverjar hugmyndir og það kemur svo í ljós hvernig það gengur upp. Kannski fjöruferð, fjallaganga eða bara lautarferð í gamla hraunið. Við sjáum til. Allar góðar hugmyndir vel þegnar!

Bið að heilsa í bili!

miðvikudagur, september 14, 2005

Dagbók...

Jæja þá er búið að fara með útlendinginn á ball í Höllinni. Mikið rosalega var helgin vel heppnuð. Við erum náttúrulega búin að fara svo seint að sofa undanfarið að við vorum bæði orðin úrvinda. En maður hristi það nú bara af sér. Ég byrjaði laugardaginn á því að hitta hina ofurhressu hlaupagarpa. Þetta er hlaupa og skokk klúbbur sem nokkrir einstaklingar hér í bæ hafa komið á laggirnar. Ég er nú reyndar engin hlaupari en finnst mjög gaman að ganga þannig að ég fór bara í það. Óla Heiða rifjaði nú upp fyrir manni leikfimistímana í gamla daga. : ) Þetta var rosalega vel heppnað fannst mér. Óla Heiða kom með nokkrar leiðir sem búið var að mæla upp og völdum við næststyttstu leiðina en það var nú bara vegna þess að ég ætlaði að fara að sækja Jóhönnu og vinkonu hennar Shirley upp á flugvöll. En það var nú ekkert flug fyrr en seinna þannig að ég hefði getað farið lengri leið. En það verður bara næst. Endilega ef ykkur langar að hreyfa ykkur með skemmtilegu fólki einu sinni í viku að mæta bara og koma með. Ég er alveg búin að fatta það að ég fer bara ekki ef þetta er ekki í stundaskránni. Ég er reyndar alltaf á leiðinni en það er svo erfitt að fara einn. Eða fyrir mig alla vega. En hvað um það, eftir yndislega göngu í slagviðri og fjöri sótti ég svo Jóhönnu og Shirley sem voru komnar yfir frá Bakka. Við skelltum okkur á Café Maria að borða og svo í skoðunarferð um eyjuna. Það er ekkert smá gaman að sjá sínar heimaslóðir með augum gestanna. Svo fórum við í mat til mín. Ég hafði eldað gigantískan skammt af cous cous og hitaði svo naanbrauð og spínat- og kjúklingabaunabuff. Allt eldað í örbylgjuofni en mjög gott með smá rauðvíni. Eftir matinn fórum við í teiti hjá Stefaníu og Jóni Högna. Jón Högni var númer kvöldsins. Bæði Aaron og Shirley voru alsæl með móttökurnar hjá honum. Stefanía var eitthvað feimnari að tala ensku en ég held að öllum hafi komið vel saman. Svo var farið á ballið og þá kom þetta gullkorn af vörum míns góða vinar: Why is everyone here dressed up in costumes! Og svo skömmu síðar: “wow, this is great, just like a giant neighbourhood party” . Þannig að minn var alsæll með herlegheitin. Þurfti svo líka að taka nokkrar myndir og svona. En hvað um það við vorum komin í rúmið um sex-sjö leitið þannig að sunnudagurinn var nett erfiður. Ég gat ekki sofið mikið en var ekki heldur í stuði til að gera neitt af viti. Við fórum svo í Skýlið í smá þynnkubrunch. Sá græni fékk sér meira að segja Skýlisborgara! Mér finnst það ótrúlega sniðugt. Svo fannst honum staðsetningin alveg meiriháttar: This is probably the worlds most dramatic location for a diner!

Við enduðum á að heimsækja Margréti Lilju! Helgin var sem sagt í einu orði sagt frábær!

Á mánudaginn fórum við að skoða 30 m/sek á Skansinum. Það var mjög skemmtilegt nema að hárið á mér, andlitið og munnurinn fylltust af sandi. Maður smjattaði ósjálfrátt á söltum sjónum og húðin í andlitinu fékk alveg sérstaka sjávar-therapíu. Ég var ekki alveg í formi þennan dag en það slapp allt. Munaði litlu að ég gerði mig að fífli með einhverju grömpí attitúdi en það slapp fyrir horn samt!

Í gærkv. fórum við út að borða á Café María again. Bara tvö! Ógeðslega rómó! Og hvað haldið þið svo? Að skoða Norðuljósin auðvitað. Fórum upp í Hrafnakletta og hann tók myndir á tíma og alles. Mjög spennandi fyrir hann og mig líka því að það er mjög langt síðan ég hef farið svona út að kvöldi til að skoða Norðurljósin. Finnst ég verða að hafa einhvern að tala við! Það var bara svolítið kalt þannig að næst verður maður að taka með sér eitthvað heitt að drekka! ;-)

miðvikudagur, september 07, 2005

túristagobbinn komin!

Jæja þá er gobbinn kominn frá Ameríku. Það var rosalega gaman að hitta hann loksins eftir svona langan tíma. Nú þarf maður bara að vera húsmóðir með meiru í heilan mánuð! Sjáið þið það fyrir ykkur? Ekki ég. En hvað um það, ég tók á móti honum í Keflavík á sunnudagsmorguninn og fór beint með hann að skoða Íslending í Reykjanesbæ. Flott hjá Árna frænda að kaupa hann og hafa til sýnis. Mjög kósý líka kotið við hliðina. Svo vorum við bara í kósý í Reykjó á sunnudag. Fórum í göngu meðfram sjónum og svo á Maru, sushi staðinn og þar á eftir á Lækjarbrekku til að fá okkur te. Rosalega var sushi-ið gott maður. Mig langar ekkert smá til að fá mér aftur fljótlega. Þar hittum við líka Bobbý Fisher, skákmeistara. Það var mjög fyndið. Aaron fór að tala við hann og fékk hann til að árita nafnspjald frá staðnum svo hann gæti gefið pabba sínum sem er aðdáandi. Heppilegt það.
Svo fórum við til eyja á mánud. og hann var að tryllast yfir fegurð eyjanna í þokunni. Það sem svo gott við að fá útlendinga í heimsókn er að maður fær tækifæri til að sjá sína eigin heimahaga með augum ferðamanns. Það er aðeins öðruvísi sjónarhorn. Til dæmis tók hann eftir því að einhver kastaði rusli í runna og viðbrögð hans voru eins og hann hefði orðið vitni að glæp. Sagði svo að þar sem hann byggi fengi maður háa sekt fyrir að gera svona. Þetta varð til þess að ég var alltaf að reka augun í rusl á víðavangi og tók svo eftir því að einhver fleygði rusli út um bílglugga. Og ég skammast mín fyrir þetta. Þetta er ósiður og ósómi í svo fögru landi eins og Íslandi. Þrátt fyrir að vindurinn sjái um að feykja þessu eitthvert annað eftir smástund þá er ekki þar með sagt að ruslið hverfi fyrir einhverja töfra!
Í gær fórum við svo á fiskasafnið og fengum höfðinglegar móttökur hjá Erni Hilmis. Við fengum að skoða einar tuttugu pysjur sem eru þar í fóstri vegna smæðar. Mikið var nú útlendingurinn ánægður með mig þá skal ég segja ykkur. Hann langar mest til að fara með eina með sér heim og eiga hana. Og svo líka að hitta Björk og fá eiginhandaráritun fyrir systur sína sem er einlægur aðdáandi Bjarkar.

En svona er nú lífið á heimilinu núna og verður næsta mánuðinn. Ferðamennska í fyrirrúmi og kvöldmatur á borðum hvert kvöld. Ekki getur maður farið með hann í mat til mömmu á hverju kvöldi. Hann er líka grænn svo að þetta er gaman fyrir mig líka því að mér finnst leiðinlegt að elda kjöt nema kannski kjúlla. En hann borðar fisk og af honum eigum við víst nóg þannig að það eru nokkrar veislur framundan.

En nóg um þetta í bili. Heyrumst síðar!