dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

fimmtudagur, desember 30, 2004

Árinu senn lokið!

Í annað sinn síðan 1987 hefur jólaboð Reynistaðarættarinnar verið haldið. Ballið tókst með miklum ágætum og var þátttaka vonum framar. Fólkið kom saman til að borða og skemmta sér. Yngri kynslóðin skemmti sér konunglega og var “míns” ferlega svekktur yfir að þetta væri búið STRAX. : )
Gaman að því! Svo verður þetta bara keyrt áfram á hverju ári og í sumar verður haldið ættarmót. Frænkumafían mun skipuleggja þetta og er það fínt.

Þegar ég var búin í jólaboðinu fór ég í heimsókn til nágrannakonu minnar. Þar voru saman komnar stelpur sem hafa ekki komið saman í 10 ár eða svo. Þetta var bara huggulegasta teiti og VK var alveg alsæll með að fá að vera með “henni” Kristínu langt fram eftir kvöldi.

Og svo á bara að drífa sig á ball á gamlárs. Ekki gerst í mörg ár. Sennilega eitthvað síðan ég vann á ferjunni. Þá átti maður bara þennan eina frídag, nýársdag. Og fannst sóun að eyða honum í þreytu eftir eitthvað ball. Frekar vildi ég vera með lillanum mínum. En nú er sérstakt tilefni. Sóley og Lokesh eru á svæðinu þannig að ég og VK fáum bara kósý seinnipart á lau og svo allan sunnudaginn. Ekkert slæmt. Hef ekki farið síðan áramótin 98-99. Þannig að ég kann þetta ekki svo vel lengur. En hlakka bara til.

Jæja, það er mest lítið að frétta héðan í augnablikinu þannig að ég kveð að sinni og óska ykkur gleðilegs árs ef ég sé ykkur ekki fyrr. Sjáumst hress á nýju ári og gangið hægt um gleðinnar dyr þangað til!

; - )


þriðjudagur, desember 28, 2004

Gleðileg jól

Gleðileg jól

Ég vona að þið hafið öll átt gleðileg jól. Mín voru þvílíkt lovely. Hafði Þorláksmessumöndluna og allir sáttir með hana. Vantaði að vísu nokkra gesti sem ekki komust en það var bara fínt þó.
Við fengum auðvitað margt og mikið í jólagjöf. Við VK höfum haft þann háttinn á undanfarin ár að við opnum einungis helminginn af gjöfunum á aðfangadagskvöld. Hinn helminginn opnum við á jóladagsmorgun. Á náttfötunum í kósý. Ég tók líka upp þann sið núna og hugsa að hann fái að vera, að opna jólakortin líka á jóladagsmorgun. Í kósýinu. Reyndar sé ég að jólakortabókhaldið var ekki alveg nógu nákvæmt í þetta sinn. En ég bið þá sem ekki fenguð kort frá mér að örvænta ekki. Ég er ekki búin að gleyma ykkur. Reyndar fóru kortin ekkert frá mér fyrr en á Þorláksmessu þannig að þau bárust likleg ekki nærri öll á réttum tíma. Og gjafirnar austur á Höfn náðu engan veginn fyrir jól. Því miður. En hver segir að maður verði að fá allar gjafirnar á sama tíma? Ég er einmitt svo sátt við að dreifa þessu aðeins. Börnin verða alveg óð af þessu öllu.



Nú er vetrarveður í eyjum og einmitt von á Lokesh hennar Sóleyjar í dag. Spennandi að vita hvernig honum líst á okkur hér á norðurhjaranum.

Jæja ég er hætt í bili.


þriðjudagur, desember 21, 2004

jólahvað?

Ho Ho Hóóó

Hér er jólasveinninn.... eða jólahvað kannski bara. Hér hefur allt gengið bærilega undanfarið. Síðasta vika var frekar “hectic” eins og Brian myndi segja en allt gekk vel. Maður er þreyttur en gengur enn.

Sonur minn var uppfullur af því í hádeginu að jólasveinar væru ekki til. Sakaði mig um að standa fyrir því sem birtist í skónum hans á morgnanna. Þvílík leiðindi. Eins og ég megi eitthvað vera að svoleiðis löguðu. Hvaðan fær barnið þessa óra? Ég skil það ekki. Ég útskýrði þetta þannig að jólasveinarnir væru eins og Jesú. (úps nú brjálast einhver : ) En jæja þá. Ég á við að fyrir þeim sem trúa á Jesú og Guð eru þeir feðgar að sjálfsögðu til en í augum hindúa eru þeir það ekki. Sama með jólasveininn. Ef maður trúir ekki á hann þá kemur hann ekki til manns. Lætur mann bara alveg í friði. Við skulum svo sjá hvort að efasemdamaðurinn fái eitthvað í skóinn í nótt eða hvort hann sé alveg trúlaus og fái ekki neitt.

Annars er ég að brenna inni með jólakortin. Ég fór með drenginn í myndatöku þann 20.nóvember og fékk myndirnar þann 15.des. Þetta eru stafrænar myndir á diski og ég þarf bara að prenta þær út. En getið bara upp á því hver staðan er. Ég var að prenta myndirnar í dag og Ingi ætlar að skera þær til fyrir mig í dag. Svo að kortin fara líklega á morgun í póstinn. Allt í lagi. Ekkert nýtt við það að fólkið mitt fái kort og gjafir frá mér á milli jóla og nýárs eða bara í janúar. Reyndar eru myndirnar alveg yndislega fallegar. Sá sem tók þær heitir Davíð og fyrirtækið heitir smáfólk.net. Mæli alveg með þeim. Hann hafði svo góða tilfinningu fyrir því sem hann gat boðið barninu. T.d. þegar hann fann að orkan var að minnka þá dró hann fram eplasafa og saltkringlur. Smá pása bara. Ekkert stress.

Ég fór á tónleika í Landakirkju sl. miðv.dagskvöld. Kirkjukórinn, Anna Cwalinska og Óli stjarna eða réttara sagt Ólafur Kjartan Sigurðarson stóðu fyrir yndislegri kvöldstund. Oh, þetta var svo fagurt og heilagt. Mæli með slíku í jólastressinu. Væri bara til í að fara aftur fyrir jól.

Að venju hef ég boðið til Þorláksmessumöndlunnar. Það leggst vel í mig að venju. Þetta eru líklega 5. jólin sem ég geri þetta og það er engin skata sem kemur þar nálægt. Ég býð upp á geðveikan danskan hrísgrjónabúðing með trönuberjasósu, heitan grjónagraut, flatkökur með hangikjöti og rúllupylsu, súkkulaðikökuna hennar Nigellu Bites og heitt súkkulaði. Fólk veltur alveg út skal ég segja ykkur. Svo má ekki gleyma möndlunni fyrir þann heppnu. Svo geri ég stundum smá trít til gamans. Í fyrra skreytti ég kampavínsglös og fyllti þau af konfekti. Krúttlegt ekki satt.

Jæja best að halda áfram að undirbúa herlegheitin.

miðvikudagur, desember 15, 2004

Jólakósy

Jæja í gær smelltum við VK okkur í jóla-kósý. Hann gerði heil 5 stykki jólakort handa bekkjarfélögum. Á tæplega þremur tímum. Drengurinn vandaði sig svo þvílíkt. Svo sætur krúttið mitt. Ég bakaði smávegis af smákökum. Eina tegund sem ég bakaði síðast í Kaupmannahöfn árið 1993. Þegar ég var au-pair. Slumpaði eftir minni. Og viti menn þetta var bara alveg eins. Drengnum fannst þetta nú ekki gott en fullorðnum finnst þetta gott. Fór vel með Kronikkunni sem var endursýnd í gær.

Jæja meira síðar!

mánudagur, desember 13, 2004

Uppvakning fjarnemaskrifanna

Jæja nú er mín að vakna úr námsdvalanum! Síðasta verkefnið farið yfir veraldarvefinn. Næsta verkefnið er svo að passa að maður detti ekki í þunglyndi yfir því hvað maður er þreyttur eftir törnina. En hún Sóley mín elskuleg kemur til landsins og þá verður líklega enginn friður til að falla í sjálfsvorkun yfir ryki og svoleiðis. Annars stefnir alveg í að það verði rykfallið heima hjá mér þangað til eftir helgina. Framundan er stíft prógramm! Þ.e. ég þarf að fara í tásuskveringu, andlitsbað og klippingu + að fara á tónleika, aðra tónleika, gera jólakonfekt hjá Hafdísi frænku, fara í jólapakkaskipti hjá saumaklúbbnum og í vinnunni, kannski að fara á Vodkakúrinn (leikritið þ.e.), taka á móti Sóley, föndra, baka, skúra og skrúbba og síðast en ekki síst eiga gæðatíma með syni mínum. Já já hvernig verður orkubúið eftir helgina?

Annars er ég bara merkilega róleg, finnst verst að finnast ég vera að gleyma einhverju á to do listanum hér fyrir ofan.

Skoðaði Haltu kjafti vefinn hjá Andra og co. Þvílíkur húmor sem þar er á ferðinni.

Skrifa kannski eitthvað meira síðar!