dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

föstudagur, september 24, 2004

draumamaðurinn fundinn!!!

Æ nú er allt of lang síðan ég skrifaði hér inn.
Sorrý!
Ég fór á Edith Piaff og skemmti mér alveg konunglega. Á eftir fórum við á Tapas barinn sem var bara æði.
Ég lá í flensu í vikunni og hef því ekki verið mjög virk í því sem ég vil vera virk í.
En það er allt að koma.
Ég ætla að halda upp á afmæli sonar míns á morgun. Gaman gaman.
Allt á fullu við undirbúning í kvöld.

Any ways. Ég vissi að draumurinn væri fyrir einhverju. Það er nefnilega þannig að draumamaðurinn er fundinn. Eða svo er sagt. Þannig er að ég hef eignast kærasta!! : ) sem er bara mjög sætur en það fer samt voða lítið fyrir honum. Hálfgerður Já-ari bara. En segir margt fallegt og er mjög stillltur alla vega ennþá. Ég fékk hann sendan frá Ameríku. Það er kannski ástæðan fyrir því hvað hann er óframfærinn. Þessir kanar eru svo skrítnir. Lagast kannski. Ég vona bara að hann verði duglegur við að laga til og svona þegar fram líða stundir. Ég er svo óánægð með það hvað hann gerir lítið í þeim efnum. Var að vonast til að hann yrði til gagns á heimilinu.
En ég læt ykkur svo vita hvernig hann stendur sig í stykkinu og svona.
Hann verður til sýnis fyrir forvitna en bara eftir pöntunum! Hann fer frekar lítið út sjálfur, hann er svo feiminn.



Ég er annars voðalega vel stemmd.

Ég tók fram klarinettið mitt um síðustu helgi og æfði mig dágóða stund. Þetta eru merkisfréttir þar sem ég hef ekki snert það síðan haustið 1990. 14 ár takk fyrir það.
En stefnan er að fara aftur í lúðrasveitina þegar náminu er lokið. Það verður ótrúlega fyndið líklega. Að rifja upp gamla unglingatíma. Þetta er að miklu leyti sama liðið og var þá. Bara 14 árum eldri.

En það er best að æfa sig eitthvað í vetur til að geta komið þangað aftur næsta vetur. Maður er nú farinn að ryðga pínulítið sko.

Bið að heilsa í bili!



mánudagur, september 13, 2004

draumamaðurinn...

Ég leyfði syni mínum að leyfa vini sínum að gista á föstudagskvöldið. Og það var ekkert smá gaman. Ég bakaði pizzu og bjó til hrískökur í eftirrétt. Svo horfðum við á bíómynd og fórum að sofa. Klukkan rúmlega fimm um morguninn var ég vakin af syni mínum sem var svo spenntur að hann gat ekki sofið lengur. Spurði hvort hann mætti vekja vininn. Ég sagði að hann mætti vekja hann klukkan sjö. Tuttugu mínútur í voru þeir komnir á fætur. Og ég dreif mig fljótlega til að gefa þeim morgunverð og svona. Það var svo ekki fyrr en klukkan sex um kvöldið að ég skutlaði vininum heim. Sem sagt sólarhringsvistun. Þeim fannst alla vega mjög gaman að vera svona lengi saman.
Ég var ægilegur innipúki eitthvað alla helgina. Hélt að ég væri að fá hálsbólgu í gær en hún var horfin þegar ég vaknaði í morgun. Þurfti greinilega bara að sofa þetta úr mér. Eða það vona ég.

Ótrúlegt hvað mann getur dreymt undarlega stundum. Mig dreymdi aðfaranótt sunnudagsins að ég væri að ganga í gegnum húsasund með gömlum félaga mínum sem ég hef ekki hitt í mörg ár og hef, ef satt skal segja, ekki hugsað til lengi. Jæja við vorum að ganga í gegnum þetta sund og það var voða mikið af trjám og það var nótt.. Við leiddum reiðhjól á milli okkar og töluðum voða mikið saman. Svo var hann allt í einu horfinn og ég var allt í einu komin “heim” til mín í hálfgerðan kofa og var að fara að sofa. Svo bankar félaginn upp á eitthvað seinna þegar ég er að sofna og er að skila hjólinu. Ég hafði víst eitthvað móðgast yfir að hann hefði stungið mig af og stolið hjólinu í þokkabót. Og þá vaknaði ég. Þetta var mjög spúkí eitthvað. Ég vildi að ég hefði draumaráðningabók við hendina til að athuga hvort þetta eigi að þýða eitthvað sérstakt! Ef þið eruð draumaglögg eða eigið svona bók megið þið alveg koma með tillögur að “þýðingu”.
Það hefur komið fyrir að mig hafi dreymt eitthvað fólk sem ég þekki lítið eða ekki séð lengi og svo líða nokkrir dagar og þá annað hvort fæ ég fréttir af þessu fólki eða hitti það bókstaflega. Ja hérna hér. Þetta er allt svo spúkí eða þannig : )

Jæja ég hlakka ekkert smá til að sjá Edith P. Kannski förum við á Tapas barinn áður. Ég hef aldrei prófað hann en held að það sé skemmtilegt.

Jæja bless í bili.

þriðjudagur, september 07, 2004

Karíus og Baktus o.fl.

Ég fór í leikhúsið í fyrradag. Að sjá Karíus og Baktus. Ég fór með son minn og Þórhall frænda okkar. Það var alveg meiriháttar gaman. Það sem mér fannst mesta snilldin var að þegar ég borgaði miðana fékk ég eina góða tannkremstúpu á mann. Frábært. Samt kostaði bara 500 kall inn. Lekritið var ágætt. Samt fór smávegis í taugarnar á mér þessar skræku raddir. Þeir eru nú strákar. En stelpurnar skiluðu þessu vel og strákarnir skemmtu sér konunglega. Leikararnir fengu vel útilátið klapp að launum fyrir sýninguna.

Mig langar til að föndra. Mála á glugga eins og á leikskólanum! Kannski geri ég það. Set svona handastimpla í gluggarúðurnar.
Við sjáum til!

Ég fór líka í berjamó með syni mínum á sunnudaginn. Það var sko góð ferð. Tíndum fullt af berjum og gengum Steinstaðahringinn. Eða réttara sagt hann hjólaði og ég labbaði. Í stóru brekkunni var það ég sem ýtti á eftir honum og hljóp með upp brekkuna. Hrikalega erfitt. Það kostaði tár og svita að koma barninu og hjólinu upp þessa brekku en þegar upp var komið var ég allt í einu orðin ein á báti. Hann var langt á undan mér heim. Og fílaði sig ekkert smá vel á hjólinu. En það sem mér finnst best við þessa ferð er að hún í fyrsta lagi gaf okkur góða stund saman og svo sá hann að þegar hann var búinn að púla upp brekkuna fékk hann verðlaunin sem var að hjóla hratt niður hinum meginn. Eða svoleiðis. Hann fór nefnilega að grenja þegar hann sá hina brekkuna hjá Steinstöðum. Eins og hin væri ekki nóg??? En við fengum okkur vatn á brúsapallinum hjá Adda frænda og þá lagaðist nú skapið hjá sumum.

rigningarnostalgíumenningarsnobb!

Rigningin er bein eins og í Tékkóslóvakíu. Eða þannig. Ég hef aldrei komið þangað en hef alltaf einhvers konar ímynd í hausnum eftir að ég las Óbærilegan léttleika tilverunnar. Eða það held ég . Alla vega eitthvað eftir hann Milan Kundera sem er eiginlega alveg mitt uppáhald í skáldsögunum. Ég held að inni við beinið sé ég pínupons gamaldags bolséviki sem hrífst af rómantískum höftum kalda stríðsins. En ég geri mér grein fyrir því að sú hrifning ristir ekki djúpt. Eiginlega ekki dýpra en sem nemur skáldsögum eftir Milan Kundera. Nú er regnið hætt að vera tékkneskt. Og ég held að það teljist bara íslenskt. Sem er gott. Við erum á Íslandi þú skilur. Ég veit líka að Silvía vinkona mín myndi gefa mikið fyrir að lenda í almennilegu íslensku roki og rigningu. Svona er það þegar við erum fjarri sumum hlutum. Sérstaklega þeim sem okkur finnst ekki svo spes en þegar við njótum þeirra ekki lengur förum við að sakna þeirra. Alveg eins og með suma kærasta. Eða þannig. Til dæmis þegar ég bjó í Danmörku þá fór ég að sakna ORA grænna bauna. Mér hafði alltaf fundist þær ógeðslega vondar. En þegar ég var þarna langaði mig í þær. Gat ekki beðið eftir að komast í þær þegar ég kæmi heim. Mér fannst þær ágætar en ég kaupi þær næstum því aldrei í dag. Kemur samt alveg fyrir.
Mér finnst rigning og rok æðislegt veður vegna þess að það er svo gott að koma inn eftir að hafa verið úti og rignt niður nánast. Eitthvað ljúfar minningar tengdar einhverju svoleiðis mómenti. Mamma eða amma beið eftir manni þegar maður kom rennandi blautur og hrakinn úr skólanum. Gaf manni einhverja hressingu og oftar en ekki kom ég mér fyrir í stofunni og hlustaði á útvarpssöguna. Eða af bandi einhverja sögu. Vú ég er komin í nostalgíufíling. Ég man líka eftir því að amma opnaði gosflöskur þannig að hún gerði gat á tappann í staðinn fyrir að taka hann af. Það þótti mér algjör snilld. En það var víst ekki alltaf þannig í rigningu sko.

Jæja ég veit ekkert hvaða bull ég er komin út í núna. Sorrý.

Ég er búin að panta miða á Edith Piaf 18.sept. Ég ætla að fara með Jóhönnu vinkonu minni. Menningarsnobbklúbburinn ( eða réttara sagt dúóið) er semsagt kominn í gang annað haustið í röð!!!

Gleðilegan rigningardag!

miðvikudagur, september 01, 2004

Vá hvað ég var syfjuð í gærkvöldi. Sofnaði yfir einhverri framhaldsmynd á ríkinu. Svei attan. Sá svo að ég hafði ekki einu sinni rumskað við símann. Sá það bara í morgun að Sóley hafði verið að hringja frá Ameríku. Sorrý Sóley mín. Ég verð bara að tala við þig síðar! Ef ég verð ekki sofnuð þá!

LOKSINS...Loksins hrósaði sonur minn mér fyrir eldamennsku mína. Honum finnst reyndar oftst nær óttalegt eiturbras á mér. Vill frekar fá eitthvað gott hjá ömmu sinni. Nema hvað. Í gær bjó ég til Yoga mat. Eða þannig. Uppskriftin er úr bók um Yoga-fæðu. Hreina og holla :- ) Jæja, aðal uppistaðan var Buttenut-grasker ásamt glás af grænmeti + karrý og kókosmjólk. Þið ættuð bara að vita hvað þetta var gott. Meira að segja sonur minn hrósaði þessu og tók það fram að graskerið væri mjög gott og spurði svo hvort að þetta væri hrekkjavökumatur. Haha. Jú ég var alveg á því. Í eftirrétt var svo tofu-gráfíkjuterta. Algert jömmí. Engin egg, ekkert smjör og bara ekkert óhollt nema kannski eitthvað eitt pínulítið.

En jæja þér er sennilega alveg sama um það hvað við borðum. En málið er eiginlega þannig að það er ekkert svo oft sem ég elda matinn. Okkur er svo oft boðið til mömmu að ég nenni þessu varla á milli. Þannig að þetta teljast fréttir í minni veröld.

Það er bara annars ekki baun að frétta hjá mér. Ekki byrjuð á skólanum eða neitt. Nema það hvað ég hugsa mikið um sumt sem ég ætla að gera í vettvangsnáminu. Telur það ekki??

Bless í bili. Ég nenni ekki að skrifa meira um ekki neitt.
Hafið það gott.