dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

mánudagur, september 13, 2004

draumamaðurinn...

Ég leyfði syni mínum að leyfa vini sínum að gista á föstudagskvöldið. Og það var ekkert smá gaman. Ég bakaði pizzu og bjó til hrískökur í eftirrétt. Svo horfðum við á bíómynd og fórum að sofa. Klukkan rúmlega fimm um morguninn var ég vakin af syni mínum sem var svo spenntur að hann gat ekki sofið lengur. Spurði hvort hann mætti vekja vininn. Ég sagði að hann mætti vekja hann klukkan sjö. Tuttugu mínútur í voru þeir komnir á fætur. Og ég dreif mig fljótlega til að gefa þeim morgunverð og svona. Það var svo ekki fyrr en klukkan sex um kvöldið að ég skutlaði vininum heim. Sem sagt sólarhringsvistun. Þeim fannst alla vega mjög gaman að vera svona lengi saman.
Ég var ægilegur innipúki eitthvað alla helgina. Hélt að ég væri að fá hálsbólgu í gær en hún var horfin þegar ég vaknaði í morgun. Þurfti greinilega bara að sofa þetta úr mér. Eða það vona ég.

Ótrúlegt hvað mann getur dreymt undarlega stundum. Mig dreymdi aðfaranótt sunnudagsins að ég væri að ganga í gegnum húsasund með gömlum félaga mínum sem ég hef ekki hitt í mörg ár og hef, ef satt skal segja, ekki hugsað til lengi. Jæja við vorum að ganga í gegnum þetta sund og það var voða mikið af trjám og það var nótt.. Við leiddum reiðhjól á milli okkar og töluðum voða mikið saman. Svo var hann allt í einu horfinn og ég var allt í einu komin “heim” til mín í hálfgerðan kofa og var að fara að sofa. Svo bankar félaginn upp á eitthvað seinna þegar ég er að sofna og er að skila hjólinu. Ég hafði víst eitthvað móðgast yfir að hann hefði stungið mig af og stolið hjólinu í þokkabót. Og þá vaknaði ég. Þetta var mjög spúkí eitthvað. Ég vildi að ég hefði draumaráðningabók við hendina til að athuga hvort þetta eigi að þýða eitthvað sérstakt! Ef þið eruð draumaglögg eða eigið svona bók megið þið alveg koma með tillögur að “þýðingu”.
Það hefur komið fyrir að mig hafi dreymt eitthvað fólk sem ég þekki lítið eða ekki séð lengi og svo líða nokkrir dagar og þá annað hvort fæ ég fréttir af þessu fólki eða hitti það bókstaflega. Ja hérna hér. Þetta er allt svo spúkí eða þannig : )

Jæja ég hlakka ekkert smá til að sjá Edith P. Kannski förum við á Tapas barinn áður. Ég hef aldrei prófað hann en held að það sé skemmtilegt.

Jæja bless í bili.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home