dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

mánudagur, ágúst 16, 2004

Auðvitað förum við í tjaldútilegu, elskan mín!!

Ég fór í fyrstu TJALD útileguna mína síðan í júlí 1997. Eftir þá lífsreynslu hét ég sjálfri mér reyndar að slíkt myndi ég ekki leggja á mig framar. En þannig er nú lífið að maður má skipta um skoðun. Ég er reyndar ekki búin að skipta um skoðun en hvað leggur maður ekki á sig fyrir par af bláum saklausum augum og eplakinnum? Auðvitað förum við í tjaldútilegu elskan mín! Tilgangur ferðarinnar var sá að gefa barninu tækifæri til að upplifa gamaldags tjaldútilegu eins og ég og þú upplifðum á sínum tíma. Fyrir tíma fellihýsanna og tjaldvagnanna, sumarhúsanna og annars lúxusútbúnaðar sem okkur bjóðast afnot af nú til dags. ( Skal tekið fram að ég er ekki 95 ára!! J

Jæja, af stað var lagt með einnar nætur tjaldferðalag fyrir augum. Við tókum skemmtiferðaskipið Herjólfi yfir hafið til Þorlákshafnar. Þaðan var ekið beina leið á Selfoss þar sem við droppuðum af okkur síðbúinni fermingargjöf. Þar fylgdi smá spjall og kaffibolli.
Jæja við höfðum mælt okkur mót við Árna Svavar frænda okkar og Dýffu móður hans. Þau biðu okkar við bensínstöðina hinum megin við brúna eins og sagt er.

Eftir fagnaðarfund var haldið af stað í Kerið í Grímsnesi til að verða viðstödd tónleika helstu stórsöngvara landsins. (Incl. Óla stjörnu, sjá fyrri færslu). Í Kerinu var glampandi sólskin og hiti. Ekki slæmt þannig séð en þegar öllu var lokið þá fann maður fyrir að það hafði skinið á mann sól. Nefið skaðbrennt ásamt enni og handleggjum, smá vaffi á bringunni og á leggjum. Drengurinn slapp að mestu, smá roði á öxlum ( heppinn sá stutti að fá húðlit föður síns!) En jæja, það versta var sko eftir í þessum brunamálum.

Eftir tónleikana héldum við að Geysi og áttum þar mjög notalega stund í hlutverki túrista. Það var bara mjög skemmtilegt. Langt síðan maður hefur farið þarna uppeftir. Við skoðuðum Geysisstofu og gengum um svæðið, sátum líka soldið lengi við Strokk og reyndum að átta okkur á gosmynstri hans.

Jæja, þegar hér var komið sögu fórum við að Flúðum þar sem ætlunin var að tjalda. Það gekk allt upp og fengum við fínan stað. Hittum meira að segja frænda minn sem ég hef nú aldrei séð en Dýffa þekkti auðvitað.
Þegar við höfðum komið okkur fyrir á tjaldsvæðinu ákváðum við að grilla pylsur og banana. Þarna var steyptur hringur sem maður gat látið hið forláta hrað/skyndigrill ofan í og svo var setið við hringinn á meðan logaði í grillinu. Alvöru varðelds/skátastemmari. Svo var grillað og gæddum við okkur á brenndum pylsum í brauði með tómatsósu og sinnepi og grilluðum bönunum með súkkulaði í eftirrétt.
Ég held að þessi varðelds/skátastund hafi sett punktinn yfir i-ið fyrir strákana. Þeir voru orðnir þreyttir og alveg sáttir við að fara að sofa eftir þetta. Enda að nálgast miðnætti þegar hér var komið sögu.

Þegar drengirnir voru sofnaðir sátum við Dýffa fyrir utan og drukku sitt hvora mini rauðvínsflöskuna og spjölluðum við undirleik einhverrar ballhljómsveitar sem lék fyrir dansi á barnum sem er staðsettur við hliðina á tjaldsvæðinu ( heppilegt). Fyrir utan tónlistina varð maður nú samt varla var við þetta ball.

Jæja nú kom að því versta fyrir mig og það var að fara að sofa. Eins og mér þykir nú gott að sofa og þá helst við opinn glugga, þá þoli ég varla að sofa í tjaldi. Það er aðallega vegna þess að mér verður alltaf svo viðbjóðslega kalt um 5 leytið á morgnanna. það er svo slæmt að ég trúi því varla sjálf. Samt er ég alveg með góðan útbúnað, ullarsokka og teppi, flíssvefnpoka, tjalddýnu og fleiri teppi. Ég man eftir því viðbjóðslegasta sem ég hef upplifað um ævina. Það var að Skógum með einum af mínum fyrrverandi elskhugum. Við vorum með hústjald sem afi og amma áttu. Við vorum tvö og þið vitið að lofthæðin í þessum tjöldum er allavega 2.20 m. Frekar erfitt að hita þetta rými. Ég hélt að ég yrði bara ekki eldri. En fékk að endingu lánað gamalt og þykkt ullarteppi og þvílíkur munur. Það er ullin sem er aðalatriði í þessu. Samt er ég með hálfgert ofnæmi fyrir henni, en ég held bara í fötum og svona.
En núna vorum við VK í mjög smágerðu tjaldi, eiginlega barnatjaldi, og það var mun betra að vera í því þar sem við náðum að hita loftrýmið betur en í tókst í stóra tjaldinu í fyrndinni.

Ég náði sem sagt að sofa sæmilega en VK fékk líka tjaldgenið frá SK því að hann svaf eins og ungabarn hreinlega, sjóðheitur og yndislegur. Heppinn!!!

En jæja, þegar ég fór svo á fætur fann ég hvað ég var hræðilega illa brunnin á handleggjum og á nefi. Það var nú meiri kvölin skal ég segja ykkur. En maður bítur bara á jaxlinn og heldur áfram ekki satt??
Við skoðuðum Gullfoss og borðuðum að Geysi áður en við brunuðum í bæinn þar sem VK hitti föður sinn til að vera hjá honum þangað til í dag. Mamma fór í morgun og hittir hann þar sem SK þarf að vinna. Ég fer svo á morgun með seinni Herjólfi og verð fram á næsta mánudagskvöld. Það er skólinn sem kallar þið skiljið. En þetta er í síðasta sinn sem ég fer í haustlotu. Ætli maður eigi ekki eftir að sakna þessara tíma??

Þegar ég hafði skutlað barni til föður fór ég í Þorlákshöfn þar sem ég sofnaði á bryggjunni af eintómri kvöl og pínu og leiðindum þar sem ég var allt of snemma á ferðinni. Oj hvað það var erfitt að fara út úr bílnum og upp til að fá klefa. En þvílík nautn að komast í uppbúna koju. Mér hefur líklega aldrei verið jafn hlýtt til míns fyrrum vinnustaðar og í gær. Þegar ég lagði skaðbrennt höfuð mitt á tandurhreinan koddann og var ekki lengi að svífa inn í draumalandið. Takk takk Herjólfur!

Velló velló ég kveð að sinni!





0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home