dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Ófríður Grettir í lasagna...

Í gær var rigning og rok á eyjunni fögru. Mér fannst það gott. Ég er samt mjög ánægð með góða veðrið og gæti svo vel vanist því. En þegar rigning kemur svo með rokið með sér þá átta ég mig á því að rigningin er góð og rokið líka. Ég fíla öfga vel að vera úti í svona veðri. Það verður einhvern veginn svo mikið súrefni í loftinu og regnið gerir húðina svo ferska eitthvað. Samt finnst mér best við svona veður að vera heima hjá mér., kveikja á kertum, drekka heitt te, hlusta á fallega tónlist og heyra vindinn gnauða og regnið lemjast við gluggarúðurnar. Algjört dekur. Ég gerði þetta í smástund í gærkvöld en svo fór ég bara snemma í háttinn. Og hvað ég svaf vel í látunum.

Sonur minn fór heim með vini sínum eftir skóla. Litla krúttið mitt. Hann átti sko að fara í eitthvað sem kallast heimanám, eftir skóla. Hann var voða rogginn þegar hann kom heim. Sagðist ekki hafa verið með heimalærdóm svo að þeir fengu bara að lesa og teikna. Svo þegar kom að því að lesa heima kom í ljós stærðfræðihefti sem hann mundi allt í einu eftir að hann ætti að klára. Einn pínulítið utan við sig. þannig að það bættist við einn klukkutími í reikningi.

Svo fékk ég smá niðurbrot sem foreldri um kvöldmatarleytið. Ég hafði eldað lasagna. Notaði bara grænmeti til að hafa þetta soldið hollt og gott. Kallaði svo herlegheitin Grettis-lasagna. Ég hélt að þetta myndi slá í gegn við fyrstu sín. En heyrðu mig. Ekki aldeilis. Barnið fór grátandi inn í rúm því að honum fannst þetta svo ógeðslega ljótur matur. En eftir smá fortölur og samviskutripp fékkst hann til þess að smakka og fannst þetta nú bara alveg ágætt. En fór svo fljótlega að heimta eitthvað annað. Langaði í köku eða brauð eða eitthvað almennilegt eins og hann komst sjálfur að orði. En nei, það var lasagna í matinn og í eftirrétt voru perur á boðstólum. En nei hann hafði ekki lyst á því og svo framvegis. Þangað til hann fattaði að mér yrði ekki haggað og þá var þetta allt svo gott og þurfti ég meira að segja að skera niður auka peru.

Það var eiginlega bæði mjög fyndið og sorglegt að sjá þessa stæla alla saman. Þegar allt var yfirstaðið var það yndislegur og dauðþreyttur strákur sem kúrði hjá mömmu sinni eftir langan dag.

Ég sá brot úr About a boy í hádeginu. Rosalega er Hugh Grant alltaf sætur. Mér finnst það!

Fleira er ekki að frétta að sinni. Lifið heil!



0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home