dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

þriðjudagur, desember 23, 2003

Ljós og friður í sál.

Komið þið sæl ef þið eruð þá einhver eftir. Ég bið afsökunar á því hve illa mér gengur að standa við fyrirhuguð skrif og fleira. En ég er að byrja að gera mér grein fyrir því að þegar ég er í námi þá dreymir mig um að búa í útópíu námsmannsins. Hún er svona: Ég búin að þrífa húsið mitt hátt og lágt og fíngerð ljós glitra í frönsku gluggunum og blika í trjánum fyrir utan. Það er 1.des! Úti er kalt og stillt en inni snarkar eldur í arni og megastilltir krakkar sitja og föndra á milli þess sem þau bíða eftir snjónum og jólunum. Ég, móðirin og hinn gullmyndarlegi faðir þeirra brosum til hvers annars á milli þess sem við föndrum með börnunum og gerum okkur klár fyrir hinar margvíslegu gleðistundir sem við munum eiga á aðventunni. Svona líður desember í hreinu og fallegu húsi með kátum börnum og dásamlegum eiginmanni og skemmtilegum stundum með vinum og piparkökum og rauðvíni endrum og eins. Ekki gleyma jólailminum sem í mínum huga er ilmurinn af ristuðum hnetum og piparkökum. Oh, ég sé alveg kransinn á útidyrahurðinni sem ég gerði með stelpunum. Og svona skandinavískt jólaskraut. mmm. En því miður þá er þetta ekki svona hjá mér. Ég er búin að vera í prófum fyri jólin síðan 1999. Vegna þess að ég gat ekki látið tímann líða og fór í ferðamálafræði og íslensku í Háskólanum. Svoleiðis að nú er þriðja árið mitt í Kennó hálfnað og ekki nema ein svona prófstreitujól eftir í bili allavega. Svo finnur maður sér bara eitthvað annað til að læra eða vera stressaður út af.
Nú skal ég lýsa desember eins og hann er í alvörunni hjá mér:
1.sunnudagur í aðventu: mikið jólaskap og stemmning til að þrífa og skreyta og föndra með barninu, baka og svona. En nei, ekki aldeilis góða mín. Verkefni, verkefni, verkefni, verkefni, verkefni, próf, próf. Hvað varð um áformin um að vera búin að lesa svo vel allan veturinn að maður rétt þyrfti að rifja upp daginn fyrir próf? Ég veit það eiginlega ekki. Mér finnst þessi önn með þeim skárri svona eftir á að hyggja en samt missti maður sig alveg í skipulagi og fleiru.
Og svo er kominn þorláksmessa og ég er búin að bjóða í Ris a´la mande partí í kvöld, að vanda. Alveg ómissandi og jafnast á við tvö jólaboð. Þannig að í gærkveldi steig stressmælirinn heldur betur. Allt eftir: hrúgur af óhreinum þvotti biðu eftir að komast að í vélina, rykhaugar í flestum hornum og ekki búið að setja nærri því allt jólaskrautið upp, hvað þá baka eitthvað eða laga grautinn. seiseinei! En það er ekki það versta skal ég segja ykkur. Ég er ekki búin að fara með jólagjafirnar í póst. Þannig að það var þeyst á pósthúsið klukkan níu í morgun. Og vakti mikla hneykslan hjá starfsfólki póstsins ;-) En það jafnaði sig fljótlega. Jæja pakkarnir farnir en ófært með flugi og ekki útlit fyrir að neitt af þessu berist fyrir jól. (sem er kannski líka til einum of mikils ætlast). En viti menn, það var flug í hádeginu og ég sé fram á að eitthvað af þessu skili sér á tíma. En svo er alveg efni í aðra sögu reynsla mín af skráningarkerfi bandarísku ríkisstjórnarinnar vegna pakka sem innihalda sælgæti. Það stóð til að senda Sóley greyinu pakka með nammi í en það er svo sannarlega efni til að endurskoða þá ákvröðun, en eins og ég sagði þá er það efni í aðra sögu.
En ég lofa því að ég er ekki stressuð yfir þessu öllu í alvörunni, eða að minnsta kosti ekki svo voðalega mikið. En rykkornin hverfa fyrir sópnum og þvotturinn ratar í þvottavélina og kræsingar möndlupartísins standa tilbúnar á eldhúsborðinu hjá mér klukkan sex í dag. Og svo koma jólin á morgun og ég mun eiga góðar stundir með syni mínum.

Ég hlakka svo til!!
Sí you leiter og Merrí kristmas evríboddí!!

þriðjudagur, desember 09, 2003

Fyrsta prófið að baki!

Segi nánar frá þessu seinna, stafirnir fóru í rugl og ég hafði gleymt að vista :-(

laugardagur, desember 06, 2003

afmæli

Heil og sæl. Ég var að koma úr afmælisveislu sem haldin var í tilefni af þrjátíu ára afmæli Hafdísar vinkonu minnar, tvíburabróður hennar, Hafþórs og mannsins hennar, Frikka. Þetta var hin besta veisla og var allt enn í fullu fjöri þegar ég fór. Boðið var upp á ítalska brauðveislu og ávaxtabollu, skemmtiatriði og svo stóð Jarl Sigurgeirsson fyrir fjöldasöng með miklum ágætum. Það rifjuðust upp fyrir mér lúðrasveitarferðalögin í gamla daga þegar spilað var og sungið fram á morgun. Afmælisbörnin fengu að spreyta sig á IDOL keppni þar sem þau voru öll of gömul til að fara í alvöru keppnina. Það verður nú að segjast eins og er að þau hefðu varla komist langt á þeirri frammistöðu sem þau sýndu í kvöld :-) En nú er gamanið að baki og maður verður að fara að drífa sig í háttinn til að geta gluggað í bækur á morgun. Fyrsta prófið verður á mánudag og það er eins gott að rifja námsefnið sæmilega upp. Ég fer svo í næsta próf þann átjánda, sem er svolítið kjánaleg tímasetning. En mér mun sennilega ekkert veita af þeim tíma til að rifja upp sálfræðina. Þetta er svo mikið námsefni og maður hefur svolítiið farið yfir það á hundavaði hingað til.
Ég býð ykkur þess vegna góða nótt í bili!

föstudagur, desember 05, 2003

enn eitt verkefnið af

Jæja þá er enn einu verkefninu aflokið. Gaman að sjá þau hverfa svona eitt af öðru út um tölvupóstlúguna. Þetta fer að klárast og bráðum koma jólin. Æ, hvað ég hlakka til. Ég er stundum næstum komin þangað í huganum en svo þarf ég ekki annað en að líta niður á gólf og þá átta ég mig á draslinu sem flýtur hér um öll gólf eða þannig. Ég er viss um það að ef einhver ætlaði að brjótast hér inn mynd sá hinn sami hætta við. Héldi sennilega að hér byggi alvarlega geðsjúk manneskja og teldi að varla væri eftir miklu að slægjast hér ;) En mikið munaði litlu að ég skipti um bíl í dag. Minn er orðinn dálitið lasinn og héldum við hreinlega að hann færi yfir móðuna miklu. En nei. Ekki aldeilis. Fór bara til læknis og allt orðið gott.´Sonur minn er afar feginn því að hann hafði miklar áhyggjur af því að við ættum ekki nægan pening til að kaupa almennilegan bíl og þyrftum þar af leiðandi að taka lán með 1000% vöxtum (tilvísun í söguna af Rip Rap og Rup í Andrésblaði sem verið var að lesa um daginn). Og mikið varð krakkinn feginn að heyra að við þyrftum ekkert að vera að kaupa nýjan bíl. Honum finnst okkar bara svo fínn, þó að hann sé að verða tólf ára gamall. En nóg um það.

Annað kvöld fer ég í þrítugsafmæli hjá vinkonunni sem var svo væn að gefa mér barn í afmælisgjöf. Þetta verður svaka partý skilst mér. Þau eru þrjú sem halda veisluna, samanlagt 90 ára afmæli. Munar um minna. Ég má náttúrulega ekkert vera að þessu en ég læt mig hafa það. (Það er alveg verið að snúa upp á handlegginn á mér eða þannig). Þetta verður ábyggilega mjög gaman en ég verð að muna að fara snemma heim. Þýðir ekkert að vera úti fram á morgun eins og táningur. Það er liðin tíð. (í bili, á meðan maður er í skóla).
Ég læt þetta duga í bili, verð að fara að sofa.

miðvikudagur, desember 03, 2003

himmi sæti

Vinkona mín hún Sóley hefur búið í Ameríku síðan 1997 og hefur þar af leiðandi ekki séð mikið af sætasta leikara Íslands. Og hver er það? Spyr kannski einhver! Fyrir þá sem ekki vita þá er það (að öllum öðrum ólöstuðum) Hilmir Snær Guðnason. Hann er svo heppinn. Ég verð að segja það. Eins og það sé ekki nóg að vera bara góður leikari. Sumum er margt til lista lagt og fá fleiri vöggugjafir en aðrir. Í fyrsta lagi er hann afbragðsleikari og er ég bara mest hissa á því að hann skuli ekki vera orðinn heimsfrægur nú þegar. En það er allt að koma, er það ekki. Allavega eru nokkrir bandarískir vinir mínir búnir að sjá myndir með honum á kvikmyndahátíðum í Chicago, Madison og víðar. En eins og ég sagði áðan þá voru leikarahæfileikarnir ekki það eina sem þessi maður fékk í vöggugjöf heldur lítur hann út eins og engill og talar líka fallega íslensku ( sem er náttúrulega það langbesta og mikilvægasta). Vá ég er komin út á hálan ís hérna í lofræðunni. Góð vinkona mín hún Nína Dögg hefur þetta allt líka. Sem og Gísli Örn maðurinn hennar. Fyrir þá sem ekki vita það þá er Nína Dögg besta og fallegasta leikkona Íslendinga. Og gift frábærum hæfileikamanni. Saman eru þau langflottasta leikarapar á Íslandi. Þau hafa bæði fengið það sama í vöggugjöf og Hilmir en af því að hann er eldri þá fær hann aðal- titilinn sem fallegasti og besti leikari Íslendinga.  Eins og þið vitið þá eiga þau Nína og Gísli heiðurinn af Sirkusuppfærsluni á Rómeó og Júlíu í Reykjavík og í London ásamt fleiri afrekum. Ég og Nína kynntumst í Danmörku þegar við vorum þar báðar sem au-pair. Við vorum nokkrar íslenskar stúlkur þar sem kynntumst og áttum saman yndislegan tíma. Þessar stúlkur heita: Sigríður Kolbrún Indriðadóttir (Kolla), Arnheiður Magnúsdóttir (Adda (en bara í Danmörku) ), Birna Málmfríður Guðmundsdóttir (ungfrú Vestfirðir 1993) og Sæunn Ósk Kristinsdóttir. Þessi tími er mér ógleymanlegur og sæki ég oft minningar úr þeim reynslubrunni. En svo ég gleymi ekki ástæðunni fyrir þessum vangaveltum þá var það hann Himmi sæti sem ég ætlaði að tala um því að Sóley hafði greinilega ekki séð hann áður en hún fékk myndina Hafið leigða vestanhafs og varð auðvitað algerlega dolfallin yfir sjarmanum. Ég öfundaði Nínu ekkert smá að hafa fengið að leika á móti honum í Hafinu. Annars segir mér svo hugur að hann verði kominn í röð þeirra ríkustu og frægustu í heiminum áður en langt um líður. Hann er fædd stjarna, það er ekki spurning. Svo er pabbi hans, Guðni Kolbeinsson líka mjög mikill töffari. Sætur íslenskufræðingur. Ekki slæm blanda það. Ég hef heyrt að hann eigi heiðurinn af því að margir sem hafa þurft að kljást við sértæka lestrarörðugleika (dyslexia) hafi fengið bót á þeim vandræðum. Hann mun víst hjálpa fólki að ráða bug á örðugleikunum og kenna því að lesa. Frábærir feðgar á ferð. Fyrst ég er farin að tala um sæta feðga í sviðsljósi þá dettur mér í hug Jón Jónasson, kennari við KHÍ og synir hans Vilhelm Anton og Kári. Ef einhver þekkir ekki til þeirra þá uppljóstra ég því hér með að Jón er í hljómsveitinni Randver sem var upp á sitt besta á áttunda áratugnum (hippakennaraband) og synir hans eru meirihlutinn af 200.000 naglbítum. Gaman að því!!. Ég fjárfesti í hljómdiski Randvers á dögunum og fær hann fyrstu einkunn. Þetta eru erlend þjóðlög með íslenskum texta. Uppbyggilegt efni.
En nú er ég hætt þessu bulli... bæjó

Persónulegur vefur

Jæja þá er persónulegi vefurinn minn loksins orðinn sýnilegum íbúum vefsins. Þetta var svo lítið smá atriði sem vantaði að ég held að það ætti ekki að fréttast en ég get trúað ykkur fyrir því að það var bara eitthvað með það að þegar maður vistar; include in navigation bar þá er sjálfgefin stilling inni í forritinu sem ákveður hvaða síður tengjast. Ég var allan tímann með ranga stillingu. Þetta hefur kostað heilabrot og leiðindi en núna er þetta allt voða ljúft. Ég setti meira að segja inn nokkrar myndir ef þið hafið áhuga á að skoða þær. Anyways nú er allt að gerast í lokaskilum og prófaundirbúningi. Ég er að dunda mér við verkefni um frávik í málþróun barna, tvítyngi og fleira. Ég á nokkrar vinkonur sem eiga foreldra af sitthvoru þjóðerninu og ég öfundaði þær alltaf voða mikið af því að geta talað tvö tungumál. Það er þó það versta sem ég veit þegar foreldrar og þá sérstaklega mæður tala ekki sitt eigið móðurmál við börnin sín. Það hlýtur alltaf að koma niður á tilfinningatengslum móður og barns nema að mamman tali þeim mun betur tungumál landsins sem búið er í. Ég veit að krakkar eru svo flinkir að þeir eiga ekki í vandræðum með þetta. Að vísu kemur þetta kannski eittvhað niður á því hvenær þau fara að tala ef þau eru mjög ung. En oftast er þetta ekkert mál þó að það sé bara við móðurina sem málið er talað. En allavega þá var það draumur minn í æsku að eiga útlenskt foreldri, helst að búa í útlöndum, vera með spangir og gleraugu og helst prófa að vera með gifs/ hækjur. Sem betur fer þá rættist ekki þetta með spangirnar, gleraugun og gifsið en mig langar enn til að búa í útlöndum um tíma. En svona var maður klikkaður. Alltaf langaði mann til að vera öðruvísi en maður var. Ég vildi líka helst vera kínverji, indíáni, egypsk eða indversk prinsessa. Eða að minnsta kosti vera með dökkt hár, blá eða brún augu og vera afar lítil og nett. Og heita María, Eva eða Elísabet. En eins og þeir sem þekkja mig vita vel þá er þetta nokkuð langt frá raunveruleikanum.
Ég held samt að sonur minn hafi ekki þessa drauma. Það er kannski ekki eins með stráka. Hann er ánægður með það hvernig hann lítur út og finnst gaman að skreyta sig eins og hann kallar það, en það er að setja dálítið af rakspíra á sig og smá glimmer í hárið þegar hann fer í spariföt og heldur af stað í afmæli. Hann er í íþróttum og er mikið að spá í heilsuna og hollustuna. Hann skoðar sig í speglinum og er ánægður með það sem hann sér. Finnst hann svolítið stæltur og svona. Þetta er ég bara ánægð með þó að sumum þyki þetta bara vera að búa til montinn spjátrung. Ég segi bara að ef maður er ekki ánægður með sjálfan sig hvernig geta aðrir verið það. En auðvitað leggur maður áherslu á að það eigi ekki að vera að monta sig eða gaspra um afrek sín. Það vekur bara upp öfund og leiðindi. Og kemur í bakið á manni sjálfum.
En jæja ég er að hugsa um að fara að sofa núna í allra nánustu framtíð. Maður hefur verið vansvefta vegna verkefnavinnu að undanförnu.
Só gúddbæ evrívonn ver ever jú ar.