himmi sæti
Vinkona mín hún Sóley hefur búið í Ameríku síðan 1997 og hefur þar af leiðandi ekki séð mikið af sætasta leikara Íslands. Og hver er það? Spyr kannski einhver! Fyrir þá sem ekki vita þá er það (að öllum öðrum ólöstuðum) Hilmir Snær Guðnason. Hann er svo heppinn. Ég verð að segja það. Eins og það sé ekki nóg að vera bara góður leikari. Sumum er margt til lista lagt og fá fleiri vöggugjafir en aðrir. Í fyrsta lagi er hann afbragðsleikari og er ég bara mest hissa á því að hann skuli ekki vera orðinn heimsfrægur nú þegar. En það er allt að koma, er það ekki. Allavega eru nokkrir bandarískir vinir mínir búnir að sjá myndir með honum á kvikmyndahátíðum í Chicago, Madison og víðar. En eins og ég sagði áðan þá voru leikarahæfileikarnir ekki það eina sem þessi maður fékk í vöggugjöf heldur lítur hann út eins og engill og talar líka fallega íslensku ( sem er náttúrulega það langbesta og mikilvægasta). Vá ég er komin út á hálan ís hérna í lofræðunni. Góð vinkona mín hún Nína Dögg hefur þetta allt líka. Sem og Gísli Örn maðurinn hennar. Fyrir þá sem ekki vita það þá er Nína Dögg besta og fallegasta leikkona Íslendinga. Og gift frábærum hæfileikamanni. Saman eru þau langflottasta leikarapar á Íslandi. Þau hafa bæði fengið það sama í vöggugjöf og Hilmir en af því að hann er eldri þá fær hann aðal- titilinn sem fallegasti og besti leikari Íslendinga. Eins og þið vitið þá eiga þau Nína og Gísli heiðurinn af Sirkusuppfærsluni á Rómeó og Júlíu í Reykjavík og í London ásamt fleiri afrekum. Ég og Nína kynntumst í Danmörku þegar við vorum þar báðar sem au-pair. Við vorum nokkrar íslenskar stúlkur þar sem kynntumst og áttum saman yndislegan tíma. Þessar stúlkur heita: Sigríður Kolbrún Indriðadóttir (Kolla), Arnheiður Magnúsdóttir (Adda (en bara í Danmörku) ), Birna Málmfríður Guðmundsdóttir (ungfrú Vestfirðir 1993) og Sæunn Ósk Kristinsdóttir. Þessi tími er mér ógleymanlegur og sæki ég oft minningar úr þeim reynslubrunni. En svo ég gleymi ekki ástæðunni fyrir þessum vangaveltum þá var það hann Himmi sæti sem ég ætlaði að tala um því að Sóley hafði greinilega ekki séð hann áður en hún fékk myndina Hafið leigða vestanhafs og varð auðvitað algerlega dolfallin yfir sjarmanum. Ég öfundaði Nínu ekkert smá að hafa fengið að leika á móti honum í Hafinu. Annars segir mér svo hugur að hann verði kominn í röð þeirra ríkustu og frægustu í heiminum áður en langt um líður. Hann er fædd stjarna, það er ekki spurning. Svo er pabbi hans, Guðni Kolbeinsson líka mjög mikill töffari. Sætur íslenskufræðingur. Ekki slæm blanda það. Ég hef heyrt að hann eigi heiðurinn af því að margir sem hafa þurft að kljást við sértæka lestrarörðugleika (dyslexia) hafi fengið bót á þeim vandræðum. Hann mun víst hjálpa fólki að ráða bug á örðugleikunum og kenna því að lesa. Frábærir feðgar á ferð. Fyrst ég er farin að tala um sæta feðga í sviðsljósi þá dettur mér í hug Jón Jónasson, kennari við KHÍ og synir hans Vilhelm Anton og Kári. Ef einhver þekkir ekki til þeirra þá uppljóstra ég því hér með að Jón er í hljómsveitinni Randver sem var upp á sitt besta á áttunda áratugnum (hippakennaraband) og synir hans eru meirihlutinn af 200.000 naglbítum. Gaman að því!!. Ég fjárfesti í hljómdiski Randvers á dögunum og fær hann fyrstu einkunn. Þetta eru erlend þjóðlög með íslenskum texta. Uppbyggilegt efni.
En nú er ég hætt þessu bulli... bæjó
En nú er ég hætt þessu bulli... bæjó
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home