dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

miðvikudagur, desember 03, 2003

Persónulegur vefur

Jæja þá er persónulegi vefurinn minn loksins orðinn sýnilegum íbúum vefsins. Þetta var svo lítið smá atriði sem vantaði að ég held að það ætti ekki að fréttast en ég get trúað ykkur fyrir því að það var bara eitthvað með það að þegar maður vistar; include in navigation bar þá er sjálfgefin stilling inni í forritinu sem ákveður hvaða síður tengjast. Ég var allan tímann með ranga stillingu. Þetta hefur kostað heilabrot og leiðindi en núna er þetta allt voða ljúft. Ég setti meira að segja inn nokkrar myndir ef þið hafið áhuga á að skoða þær. Anyways nú er allt að gerast í lokaskilum og prófaundirbúningi. Ég er að dunda mér við verkefni um frávik í málþróun barna, tvítyngi og fleira. Ég á nokkrar vinkonur sem eiga foreldra af sitthvoru þjóðerninu og ég öfundaði þær alltaf voða mikið af því að geta talað tvö tungumál. Það er þó það versta sem ég veit þegar foreldrar og þá sérstaklega mæður tala ekki sitt eigið móðurmál við börnin sín. Það hlýtur alltaf að koma niður á tilfinningatengslum móður og barns nema að mamman tali þeim mun betur tungumál landsins sem búið er í. Ég veit að krakkar eru svo flinkir að þeir eiga ekki í vandræðum með þetta. Að vísu kemur þetta kannski eittvhað niður á því hvenær þau fara að tala ef þau eru mjög ung. En oftast er þetta ekkert mál þó að það sé bara við móðurina sem málið er talað. En allavega þá var það draumur minn í æsku að eiga útlenskt foreldri, helst að búa í útlöndum, vera með spangir og gleraugu og helst prófa að vera með gifs/ hækjur. Sem betur fer þá rættist ekki þetta með spangirnar, gleraugun og gifsið en mig langar enn til að búa í útlöndum um tíma. En svona var maður klikkaður. Alltaf langaði mann til að vera öðruvísi en maður var. Ég vildi líka helst vera kínverji, indíáni, egypsk eða indversk prinsessa. Eða að minnsta kosti vera með dökkt hár, blá eða brún augu og vera afar lítil og nett. Og heita María, Eva eða Elísabet. En eins og þeir sem þekkja mig vita vel þá er þetta nokkuð langt frá raunveruleikanum.
Ég held samt að sonur minn hafi ekki þessa drauma. Það er kannski ekki eins með stráka. Hann er ánægður með það hvernig hann lítur út og finnst gaman að skreyta sig eins og hann kallar það, en það er að setja dálítið af rakspíra á sig og smá glimmer í hárið þegar hann fer í spariföt og heldur af stað í afmæli. Hann er í íþróttum og er mikið að spá í heilsuna og hollustuna. Hann skoðar sig í speglinum og er ánægður með það sem hann sér. Finnst hann svolítið stæltur og svona. Þetta er ég bara ánægð með þó að sumum þyki þetta bara vera að búa til montinn spjátrung. Ég segi bara að ef maður er ekki ánægður með sjálfan sig hvernig geta aðrir verið það. En auðvitað leggur maður áherslu á að það eigi ekki að vera að monta sig eða gaspra um afrek sín. Það vekur bara upp öfund og leiðindi. Og kemur í bakið á manni sjálfum.
En jæja ég er að hugsa um að fara að sofa núna í allra nánustu framtíð. Maður hefur verið vansvefta vegna verkefnavinnu að undanförnu.
Só gúddbæ evrívonn ver ever jú ar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home