dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

laugardagur, maí 27, 2006

Jæja þá er au-pair dögunum löngu lokið og allir komust nokkurn veginn heilir frá því.*hehehe* Börnin voru yndisleg í alla staði en þetta endaði með því að au-pair stúlkan fékk þessa líka heiftarlegu gubbupest. Annað eins hefur maður nú bara varla upplifað síðan ofnæmi fyrir skelfiski uppgötvaðist eftir rómantíska sjávarréttamáltíð á gamla Skútanum með X-loverboy. Rómansinn var ansi fljótur að hverfa það kvöldið en það er önnur saga. En núna er heilsan komin aftur þrátt fyrir þó nokkra þreytu og máttleysi.

Uppstigningardagur (Jesus Christ take off day (eins og einhver útskýrði það fyrir amerískum vinum sínum)) var hlaðinn viðburðum eins og venjulega. Þá er nefnilega hátíð í skólanum sem sonur minn gengur í. Þetta byrjaði allt með danssýningu í íþróttahúsinu. Hún er alltaf jafn skemmtileg verð ég að játa. Svo var haldið í skólann og horft á soninn leika í leikriti og spila á píanó. Eftir þetta voru svo vortónleikar tónlistarskólans þar sem sonurinn spilaði á píanóið aftur. Ég var ótrúlega þreytt eftir þennan dag þrátt fyrir að hann hafi verið ákaflega skemmtilegur.


Jæja ég ætla nú bara að kveðja að sinni. Er eitthvað hálf heiladauð í augnablikinu. Verð að reyna að vinna upp einhverja orku. Lifið heil!

sunnudagur, maí 14, 2006

Hvað er að frétta?

Ég óska Þjóðhildi og Óla forseta til hamingju með daginn og ekki má gleyma brúðkaupsafmæli danska krónprinsins.

Hvað er að frétta? Jú fór í afmæli í gærkvöldi. Hjá þeim kornungu Áróru Hörpu og Lilju Birgis. Bara fjör en það er nú allt önnur Elínborg, skal ég segja ykkur. *hehe* Ég tók meira að segja þátt í mega skemmtiatriði Fitness Group kórsins. Það tókst bara vel með aðstoð Haralds bongótrommuleikara og Gulla gítarleikara. Sungum ógleymanlegan óð til þeirra stúlkna og munu þær væntanlega lifa í minningunni um þennan atburð um ókomin ár...

Í næstu viku ætla ég að rifja upp au-pair árið mitt í Danmörku. Við sjáum svo til hvernig til tekst....

Annars er nú hálfgerð gúrkutíð hjá mér eftir vikutíma með Bólu-Hjálmari heima. Drengurinn minn fékk semsagt hlaupabólu sem upphaflega var ruglað saman við flóabit sem tók að hlaupa. Það skal tekið fram að hitastigið hefur ekki verið jafn hátt hér í Vestmannaeyjum eins og nokkra þessara daga síðan 1961. Þið getið rétt ímyndað ykkur gleðina með það að vera inni með hita og bólur þessa daga. Og eini félaginn var mamma gamla. Það var ekki farið í neinar grafgötur með það skal ég segja ykkur.

Jæja ég segi ykkur svo nánar frá au-pair tíma mínum þegar þar að kemur...en ég kveð að sinni. Lifið heil.

miðvikudagur, maí 03, 2006

Bókaklukk

Matta frænka mín klukkaði mig enn einu sinni. Núna er það bókaklukk og hef ég gaman af að bregðast við því. Verst að þurfa að velja en eins og sést þá á ég mjög erfitt með það stundum...*hehe*

1. Which book has made the greatest impact on you? Either as a good read or as a "aha" experience?

Ég verð að vera sammála henni Möttu frænku í þessu. Það er bara ekki hægt að taka eina bók út. En maður getur talið upp nokkrar. Ég las allar Enid Blyton bækurnar þegar ég var krakki. Sennilega eiga þær að einhverju leiti sök á því hvað ég er gamaldags. Ég komst líka í gamlar bækur frá henni ömmu minni og eru þar tvær sem stóðu upp úr. Önnur hét Tataratelpan og hún var svo hjartnæm að ég held að ég hafi fellt tár yfir henni 8-9 ára gömul. Ég man ekki nákvæmlega nafnið á hinni en hún var um ástralska fjölskyldu. Í Glaumbæ eitthvað. Mörg systkini og mikið að gerast. Líklega fundið mig í henni þar sem ég ólst upp sem einkabarn (á reyndar hálfsystkini sem ólust upp annars staðar).

Á unglingsárunum las ég Ómótstæðilegan léttleika tilverunnar eftir Milan Kundera og svo Ilminn e. Patrick Süskind. Þær höfðu áhrif.

Salka Valka Halldórs Laxness heillaði mig upp úr skónum ásamt Heimsljósi, Barni náttúrunnar og fleirum.

Skemmtilegust bækur sem ég hef lesið eru samt líklega Doppóttur svertingi og hvítt skítapakk og Steiktir grænir tómatar e. Annie Flagg. Ég hreinlega skellti upp úr upphátt yfir þeim.

Þegar ég kynntist honum Sigga Kalla þá varð ekki hjá því komist að læra að meta Ísfólkið og fleiri í þeim dúrnum. Gleymdi mér algerlega í þeim seríum. Bjó samt ekki nógu lengi með honum til að læra að meta vísindaskáldsögurnar hans. *hehe*

Jæja þetta eru svona þær helstu sem koma upp í huga minn í kvöld. Vá ekki má gleyma Dagbók Önnu Frank. Hún hafði svakaleg áhrif á mig, sérstaklega þar sem ég fór í húsið hennar í Amsterdam þegar ég var 11 ára. Og síðast en ekki síst; Húsið á sléttunni. Ég las sögurnar um Ingalls fjölskylduna af mikilli áfergju þegar ég var svona á að giska 10 ára.


2. Which genre do you read most? Novels, crime-stories, biographies, poetry or something else?

Ég hef rosalega gaman af að lesa svona bolsévískar heimspekiskáldsögur þar sem söguþráðurinn samvefst raunverulegum atburðum mannkynssögunnar. Persónurnar eru skáldaðar en atburðir eiga sér stað á raunverulegum stöðum og oftar en ekki á sögufrægum tímabilum sbr. Óbærilegan léttleika tilverunnar og Bækur Jean Auel um Indíána í Ameríku. Líklega finnst mér skemmtilegast að lesa sögur sem segja sögur fólks sem býr við pólitíska og/eða samfélagslega undirokun, fólk sem elskar af öllu hjarta, er fátækt en nógu hugrakkt til að standa á móti straumnum.


3. What was the last book you read?

Ég er með tvær í takinu í augnablikinu; Ást og skuggar e. Isabel Allende og Vetrarborgina e. Arnald. Ást og skuggar er einmitt í stílnum sem ég lýsti áðan en Vetrarborgin er eiginlega of sorgleg til að ég geti lesið lengi í henni í einu. Er búin að vera rosalega lengi með hana. En sú síðasta sem ég kláraði var Falin myndavél; dönsk spæjarasaga sem er vægast sagt mjög spes.


4. Which sex are you?
Sé ekki alveg tilganginn með þessari spurningu en ég er stelpa en soldið eins og Matta frænka, pínu strákastelpa. *hehe*

Ég klukka Kela og hana Sóley sem á ekki neitt blogg en má nota kommentaskjóðuna mína til að segja okkur frá sínum bókalestri.