dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

laugardagur, janúar 28, 2006

Sorgin og vorið í loftinu.

Í vorveðrinu í dag hefur lítið verið gert af viti. Ekki neitt nákvæmlega. Sorgin svífur yfir okkar litla samfélagi. Maður er vanmáttugur og smár. Öll mín vandamál virðast smáleg og léttvæg í dag. Þau standast ekki samanburð. Ég felli tár í einrúmi og minningarnar streyma fram í hugann hver á fætur annarri. Ég deili þeim kannski með ykkur seinna. Núna ætla ég bara að reyna að líta á lífið sem gjöfina sem það er. Það er mér í sjálfsvald sett að nýta það sem mér hefur verið gefið. Við vitum ekki hvenær þessu lýkur en við getum notað líðandi stund til að gefa af okkur og njóta kærleiks annarra. Lifið heil!

sunnudagur, janúar 22, 2006

Ferðast frá skammdeginu...

Jæja þá. Nú er ég búin að bóka ferð til New York City í febrúar. Svona fer skammdegið með mig. Fæ ekki frið í sálina fyrr en ég er búin að skipuleggja ferðalög til útlanda. Upphaflega átti þetta að vera stutt solo heimsókn til Brians en maður er stundum vinsæll og nú er svo komið að Jóhanna mín kemur með mér út og Sóley mín kemur til okkar frá Los Angeles. :-) Er hægt að biðja um meira??? Spurning hvort Brian verði ekki bara abbó þegar allt kemur til alls? Þetta átti nú að heita heimsókn til hans en þetta verður bara geðveikt stuð held ég! Ég er bara að pæla í því hvort verði algengara að við skálum í Cosmopolitan eða Frosnum Margrétum. Við gistum reyndar á Cosmopolitan þannig að það gæti haft vinninginn. Það kemur í ljós.

Ljósmyndarinn í honum Brian mínum hefur heldur betur komið út úr skápnum því að nú hefur honum verið boðið að halda sýningu í NYC og hann ætlar að reyna að opna hana þegar ég kem, bara svo ég komist í partíið! Ekki leiðinlegt. Hann er með nokkrar myndir á Flickr og ég held að þið megið alveg líta á þær!

Hvað meira? Jú ég hélt Bóndadaginn hátíðlegan fyrir son minn og vini hans. Hann fékk að bjóða í stráka-partý í tilefni dagsins. Þeir skemmtu sér konunglega sýndist mér og á tímabili var hér í gangi heil hljómsveit því að einn er að læra á gítar og fékk að grípa í gítarinn okkar, svo á VK einn lítinn síðan hann var yngri. Að vísu vantar einn streng í hann en það kom svo sem ekki að sök. Bongótromman var tekin fram og ýmsar hristur, þríhyrningur, ásláttarkubbar og Xylofon. þannig að ekki vantaði stuðið í mannskapinn. Spurning hvort að þeir stofni ekki bara hljómsveit einn daginn.

Helgin hefur verið með eindæmum róleg og er það vel. Ég hef í hyggju að halda rólegheitunum áfram í allan dag og helst ætla ég ekki að stíga fæti mínum út fyrir hússins dyr. Það er eitthvað svo kalt og fráhrindandi þar en ætli maður láti sig nú samt ekki hafa það að fara af stað seinnipartinn. Eitthvað smávegis kannski.

Núna er bara að telja niður í ferðina góðu sem bíður mín þarna í kuldanum í febrúar. Þetta er nú alveg ótrúlega stutt!

laugardagur, janúar 14, 2006

Þrettándinn


Hér er VK kominn í rétta búninginn fyrir síðbúna þrettándagleði. Takið eftir skegginu! Það kom upp á síðustu stundu að maður vildi endilega vera með skegg og þá voru góð ráð dýr! En að sjálfsögðu bjargar maður sér bara og þetta kom bara vel út verð ég að játa. ;- )


























Það var ansi kátt í Höllinni á þrettándaballinu. Hér eru Beddi og Vala mætt í fyrsta sinn í mörg mörg ár. Það var frábært að fara út að djamma með þeim Kiddu og Bedda og henni Völu svölu frá Danmörku. Það hefur ekki gerst í 10 ár eða svo. En ég skil ekki hvað var í gangi því þetta er eina myndin sem ég tók allt kvöldið. En það var gaman.