Ótrúlegustu hlutir hafa átt sér stað; það eru að koma jól! Hvenær gerðist þetta eiginlega? Ég þori varla að játa það að einungis 6 jólakort hafa verið skrifuð hingað til. Hins vegar eru næstum allir pakkar sem á að senda farnir frá mér og var það sannarlega tilbreyting að vera ekki stödd inni á pósthúsi á Þorláksmessu til að græja þá hluti. Þetta hefur nú samt sem áður alltaf skilað sér á réttu staðina og oftast á réttum tíma. Af jólaundirbúningi á mínu heimili er nú ekki mikið að frétta. Var alveg komin í gírinn um síðustu helgi, pakkaði inn og svona og bauð svo vini VK og mömmu hans í listastund. Sem var óhemju skemmtileg en ég er eiginlega ennþá í vonnabí artist mód. Því það er víst það lengsta sem ég kemst í hinum listræna heimi. En þetta hlýtur nú að verða betra frá og með morgundeginum því að í dag komst ég í langþráð jólafrí. Kennslukonustarfið er óhemju skemmtilegt og gefandi það verður að viðurkennast en mikið svakalega er það góð tilfinning að sjá fram á smá tíma til að hlaða batteríin. Toppurinn var samt í dag. Ég held að það hafi verið einn skemmtilegasti dagurinn minn í vinnunni. Ég fékk að taka þátt í litlu jólunum með öðrum bekk. Innifalið í þeim var helgileikur, litlu-jól í stofu og litlu-jól á sal. Yndisleg upplifun og rifjaði upp æsku mína. Þetta var líka toppurinn hjá mér þá! Allir í sparifötum að dansa í kringum jólatré við tónlistarflutning Páls Viðars og Helgu Bjarkar. Og rólegheitin í stofunni.
Ég fór svo á fjölskyldujólatónleika í gömlu Höllinni í gærkvöldi. Þeir voru sálarnæring fyrir mig og peyjann. Við skemmtum okkur konunglega við fagran tónlistarflutning úrvals hljómlistarmanna. Mikið er ég þakklát því að einhver skuli leggja á sig svona vinnu til að gleðja mann!
Fleiri tíðindi: haldiði ekki að frökenin hafi bakað Sörur á aðventunni!! Með kennurunum reyndar og undir góðri leiðsögn. En mjög skemmtilegt að geta boðið upp á Sörur á Þorláksmessunni sem ég ætla reyndar að halda hátíðlega þann 22.des. Geri aðrir betur.
Jæja gott fólk, ég ætla nú ekki alveg að kæfa ykkur með skrifum þó ég sé dottin í jólafrí en það er aldrei að vita nema maður dundi sér við að skrifa ykkur smá pistla af og til meðan þessi sælutími varir...lofa samt engu...hehe...