dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

mánudagur, október 11, 2010

Brúðuleikhúshátíð

Ég eyddi öllum gærdeginum í að vinna við brúðuleikhúshátíð í almenningsgarði í hverfinu okkar hérna í Fayetteville.

Þetta var yndislegur dagur og fékk ég tækfæri til að spreyta mig á ýmsu skemmtilegu.

Um morguninn stjórnaði ég sögusmiðju með börnum þar sem þau fengu að velja sér handbrúðu og ákveða nafn og persónleika fyrir sína brúðu. Síðan í sameiningu sömdu þau sögu eða leikrit sem þau svo léku á sviði fyrir áhorfendur. Þetta gekk rosalega vel og flottur árangur hjá krökkunum sem ljómuðu af stolti og gleði.



Seinni partinn fékk ég svo að spreyta mig með risaleikbrúðum og fékk alveg óvart hálfgert stjörnuhlutverk sem hausinn á risalirfu sem ógnaði tilvist jarðarinnar og lífsins. Lirfan breyttist svo á undursamlegan hátt í fiðrildi sem sveif um loftið og hreif fólk með sér í dans. Þetta var ofsalega heillandi og falleg sýning og er ég ákaflega stolt af að hafa fengið að taka þátt í henni.



Inni í lirfunni á æfingu.



Fiðrildið.


Um miðjan daginn var ég svo beðin um að taka að mér að tala fyrir Gus sem er handbrúðukarakter. Hann átti að taka viðtöl við fólk á svæðinu fyrir sjónvarpið. Þetta var svona líka skemmtilegt og kom ég sjálfri mér svo sannarlega á óvart með því að geta þetta bara hreinlega.



Það var sannur heiður að fá að kynnast listamönnunum sem áttu heiðurinn af þessum degi. Ótrúlegur sköpunarkraftur og gleði í verkum þessa fólks. Ég vonast til að fá að sinna fleiri verkefnum með þessu fólki fljótlega.

fimmtudagur, október 07, 2010

listin og óþurftin

Ég er sannfærð um að einmitt á krepputímum þurfum við meira á listinni að halda en nokkru sinni. Skapandi hugsun er neistinn að framför og þróun í menningu og vísindum. Mér þykir sorglegt að sjá viðhorf ráðamanna þjóðarinnar til listamanna. Það má vissulega deila um það hversu mikið framlag ríkisins á að vera í hvert sinn og hvaða listamenn fá launin en yfirlýsingar þær sem nú bera hæst tel ég vitnisburð um hroka, mannfyrirlitningu og skamma hugsun þeirra sem þær gefa.

föstudagur, október 01, 2010

This is a gun-bearing country and you just need to realise that.

Við áttum yndislega daga í New York með kærum vinum sem sýndu okkur brot af því sem borgin hefur upp á að bjóða. Fyrsta daginn fórum við í göngutúr um Prospect Park sem er svo gott sem í bakgarðinum. Um kvöldið pöntuðum við tælenskan mat og eyddum kvöldinu í spjall.

Daginn eftir var haldið á MoMA safnið eða nútímalistasafnið. Þaðan þurfti ég að draga soninn út þegar tíminn sem við höfðum gefið okkur var liðinn.
Þaðan fórum við heim þar sem BH bakaði súkkulaðibitakökur handa okkur og skunduðum við aftur í Prospect Park með teppi til að hlusta á tónleika. BH skaust eftir gómsætri Pizzu á næsta götuhorn og áttum við notalega stund á teppinu undir ljúfum tónum. Ég rétt slapp fyrir horn með að fá moskítóbit þegar sólin var að setjast.

Eldsnemma á sunnudagsmorgni lögðum við svo í hann til Dallas með millilendingu í Atlanta í Georgíufylki. Vinkona E tók á móti okkur á Dallas Fort Worth flugvellinum ásamt dóttur sinni. Fyrsta upplifunin af Dallas fólst í því að aka framhjá risastórum auglýsingaskiltum sem yfirleitt auglýstu hraðbúinn mat. Ég held að við höfum í mesta lagi náð að aka 200 metra á milli skyndibitaveitingastaðaklasanna.

Ég upplifði menningarsjokk í Dallas í fyrsta sinn síðan í Kolkata á Indlandi 2003. Fyrir utan stærðina, skyndibitamenninguna, víðáttuna og hitann þá held ég að mesta áfallið hafi verið að hitta í fyrsta sinn á ævinni svokallaðan rauðsvíra. Þetta var vinnufélagi gestgjafa okkar og giftur nágrannakonu þeirra. Þess vegna umbera þau hann. Lífsviðhorfið er svo hlaðið kynþáttahatri og skammsýni. Byssuburður þykir honum sjálfsögð mannréttindi og ég fékk kaldan hroll eftir hryggjarsúlunni þegar hann leit fast í augun á mér og sagði orðrétt: “þetta er byssuberandi land og þú ættir að gera þér grein fyrir því sem fyrst”. Guð minn góður ekki vildi ég reyta þennan mann til reiði. Hatrið á hverjum þeim sem telst útlendingur (það er illskárra að vera hvitur útlendingur) og ég tala nú ekki um ef fólk er samkynhneigt eða aðhyllist önnur trúarbrögð en kristni og aðrar stjórnmálaskoðanir en repúblikönsk

Ameríski draumurinn?

“Heyðu mamma, hver er eiginlega ameríski draumurinn?” Spurði sonur minn mig á öðrum degi okkar í New York. Það er góð spurning hugsaði ég. Í mínum huga felst ameríski draumurinn í því að hver og einn eigi þess kost að ná eins langt og hans eigin takmörk leyfa. Ég tengi þetta markmið svolítið við markmiðið að vera hamingjusamur. Sælutilfinning sem kraumar lengst niðri í hjartarótum. Hamingja í velferðarsamfélagi. Okkur skortir ekkert og það eina sem við þurfum að gera er að nýta hæflieka okkar og þekkingu til hins ýtrasta. Ef hver og einn gerir það ætti veröldin að vera sannkallað sæluríki. Sem er göfugt markmið í sjálfu sér en hljómar þó ekki illa. Mig grunar nú samt að í mörgum tilfellum setjum við samasemmerki við slíkan ýturárangur, auðæfi og völd. Í flestum tilfellum færa auðæfi fóki vald sem er svo notað á einstaklingsbundinn hátt. Í sumum tilfellum ef ekki flestum á ógeðfelldan máta.

Snýst einstaklings- og auðvaldshyggja eingöngu um vald eða göngum við út frá því sem vísu að hamingjan sé fylgifiskur auðæfanna? Eru frelsi og hamingja jafnvel fólgin í veraldlegum auðæfum eða valdi yfir öðrum? Mig langar til að halda í þá trú að veraldleg gæði séu ekki kvarði á hamingju en óneitanlega hefur aðgangur að fjármunum heilmikið að segja við að skapa aðstæður þar sem við getum verið róleg um það hvernig við munum komast af og þá jafnvel einbeita okkur að því að njóta þess sem við höfum aðgang að.

Á þessu ferðalagi okkar frá New York til Dallas og þaðan til Fayetteville hefur ameríski draumurinn verið að plaga mig sárlega. Hver er hann eiginlega? Af stuttri viðkynningu við úthverfi Dallasborgar gæti maður haldið að hann fælist í því að aka um á loftkældu bensínþambandi stálskrímsli og að geta komið við á skyndibitastað með 500 metra millibili. Allt er stórt í Dallas. Flest er selt í magnpakkningum og því meira sem maður kaupir, þeim mun minna borgar maður. Flest er einnota og þykir ekki tiltökumál að bjóða uppá mat í matarboði borinn fram á pappadiskum. Það má eiginlega segja að allt sé stórt í Dallas nema endurvinnslubaukurinn. Hann er frekar lítill í sniðum og ekki tæmdur nema á tveggja vikna fresti. Í slíku einnota neyslusamfélagi er það bara alltof lítið og alltof sjaldan. Þannig að fólk hendir náttúrulega bara í ruslið þar sem það kærir sig ekki um að hafa flæðandi drasl heima hjá sér. Spes.