dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

föstudagur, júlí 25, 2008

25. júlí





Í dag hefði yndislega mamma mín orðið 55 ára. 'Ég ætla að alla vega að verða 55 ára' sagði hún rétt eftir að hún fékk fréttirnar um hvað veikindin voru alvarleg. Því miður þá dugði styrkur hennar ekki til. Við ráðum víst litlu um örlögin þegar allt kemur til alls.
Sorgin dvelur enn í hjartanu og er komin til að vera. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tíma til að kveðja og við reyndum að njóta síðustu samverustundanna. Það var ekki auðvelt því að angistin var svo mikil en við áttum þó nokkrar notalegar stundir áður en krabbinn yfirtók allt saman. Ég hét því þegar hún lést að ég skyldi gera mitt besta til að lifa lífinu lifandi. Njóta þess á meðan þess er nokkur kostur. Ég hef reynt það en það er ekki alltaf auðvelt og stundum langar mann bara til vera í friði með sorginni. Ég á heldur ekki við að maður eigi að vera uppi um alla veggi í jollý skapi öllum stundum. Ég trúi því að viðhorf okkar breyti heilmiklu um það hvernig okkur reiðir af. Stundum sé ég ekki fram úr deginum en það birtir alltaf aðeins til þegar á líður. Stundum bara í smástund en stundum lengur. Mér finnst bæði gott og sárt að tala um hana. Hún víkur aldrei úr huga mér en þegar ég reyni að færa minningar og tilfinningar í orð þá brestur stundum allt. En það hreinsar. Tárin hreinsa sálina sagði einhver og það er alveg satt. Þau létta tímabundið á þrýstingnum.
Ég er heppin. Ég ólst upp í ást og ég hef lært að elska. Lífið hefur fært mér margar dýrmætar gjafir. Ég á yndislegan son. Hann hefur fært mér ómælda gleði og ég er stolt af að hafa fengið að ala þennan gullmola upp. Við Siggi grínuðumst stundum með það þegar ég var ófrísk að lítill engill hafi setið á himnum og sagt við sjálfan sig; ég vil fá þessa foreldra. Núna! Svei mér þá ef ég trúi ekki bara að það sé eitthvað til í því (þetta gerðist allt svo hratt sjáðu til). Það er eins og hann hafi verið sendur mér af himnum ofan. Hann er svo heilsteyptur og einlægur. Alveg góður í gegn. Ljós mitt í myrkrinu verð ég að segja.

Sorg okkar er djúp og sár. En við vitum að við vorum náðuð með tilvist hennar mömmu. Ég þakka henni fyrir það sem hún gaf okkur. Ást hennar átti sér engin takmörk og fyrir það er ég þakklát. Ég sakna hennar meira en ég get sagt með orðum. Drottinn gaf og Drottinn tók. Ég veit núna hvað þessi orð þýða og í reynd er þetta bara þannig. Ekkert er sjálfsagt í lífinu og ekkert varir að eilífu á þessari jörð.

Þrátt fyrir að hún mamma mín sé ekki lengur meðal oss á þessari jörð þá lifir hún í hjarta mér og ég hef ákveðið að halda upp á afmælið hennar í kvöld með ástinni minni, honum Edmund. Ég veit ekki nákvæmlega hvað við gerum en við erum stödd í Leeuwarden í Hollandi. Hann er hér á Bridges ráðstefnu. Ég er hér til að vinna í ritgerðinni minni. Sit í augnablikinu í hótellobbýinu og skrifa...og blogga. Fannst það eiga við til að minnast hennar mömmu. Litli minn er á Íslandi og það er ægilega skrítið eitthvað. En hann skemmtir sér vel með vinum og fjölskyldu.

Ég kaupi kannski köku og kampavín til að fara með upp á hótelherbergi eða þá að ég leyfi Ed að bjóða mér út að borða. Minning hennar víkur aldrei úr huga mér en í dag ætla ég að draga minninguna út og halda upp á fæðingardaginn hennar.

Ég kveð ykkur að sinni.
Lifið heil!

þriðjudagur, júlí 08, 2008

Hver er bestur?

Má til með að monta mig. Var að koma af Awards Evening í skólanum hjá VK. Litli Víkingurinn tilnefndur til fjögurra verðlauna fyrir framúrskarandi árangur og hreppti ein. Fékk þar að auki sérstaka viðurkenningu fyrir framlag til samfélagsins. Vá þetta var bara næstum eins og Óskarinn...örugglega betra bara...hehe...The nominees are:...and the winner is....taraddadamm... Bara skondið.

En rosalega er ég stolt af unga manninum sem eldist alltof hratt. Enn og aftur sannast það sem við vitum nú öll vel á Íslandi. Íslendingar!...Bestir í heimi!!!

PS..Það var hringt úr skólanum í dag...og spurt um mississ Sigurdsson....ég sagði bara já það er ég....nennti ómögulega að útskýra íslensku föðurnafnahefðina...Skondið.

Já og eitt enn...Löghemilið mitt hefur breyst og er núna eftirfarandi:

Asgerdur Johannesdottir
Warwick University Library
Library Road
Coventry
UK

Bleh...