Undanfarnir mánuðir hafa flogið áfram á ólöglegum hraða. Ég átta mig á því að í dag er 19. Júní og yfir mig hellast áhyggjur og valkvíði vegna framtíðarinnar. Valmöguleikarnir eru of margir og hindranirnar of margar. Mögulega fylgi ég ráði gamallar vinkonu minnar sem sagði við mig um daginn; auðvitað læturðu hjartað ráða! Hættu bara að hugsa um það hvað væri best að gera og eftir smá tíma veistu það upp á hár. Hún gæti haft rétt fyrir sér.
Í augnablikinu er íbúðin mín full af fólki og mér finnst það frábært.
Ég á eiginlega bara ekki almennileg orð til að lýsa síðastliðnum mánuðum. Í augnablikinu hellist yfir mann melankólískur aðskilnaðarkvíði yfir því að í næstu viku er síðasti fyrirlesturinn hjá okkur og þá munu leiðir skiljast. Tíminn fram í október fer svo í skriftir og þá er fólk hvert í sínu horninu. Hópurinn sem ég hef verið að læra með er algjörlega frábær. Fólk úr öllum áttum nær þarna saman og myndar falleg vináttutengsl. Menningar-, trúar- og stéttastaða skiptir bara engu máli. Það eru allir jafnir þarna og allir af vilja gerðir til að gera þetta ár að dýrmætri reynslu. Það er soldið fyrirkvíðanlegt að skilja við hópinn en maður vonar bara að loforðin um að halda sambandi verði haldin og að við hittumst aftur sem fyrst.
Stefanía sakar mig um að hafa skilið við blogglesara mína. Það er ekki alveg rétt. Andinn hefur bara ekki verið yfir mér á þeim slóðum. Þá er nú bara betra að þegja en að skrifa bara til að skrifa. Ekki satt?
En ég get svo sem tæpt á því helsta sem við höfum haft fyrir stafni síðan í janúar. Frá janúar og fram í apríl var frökenin mjög svo upptekin af ritgerðarskrifum og tilheyrandi sálarkvölum og kvíða yfir niðurstöðu þeirra sem lásu ósköpin. Það er allt komið í hús og bara mun skárra en ég átti von á. Framundan er ein ritgerð um leiklist og læsi og svo lokaritgerðin. Búin að vinna í skólum og prófa það helsta sem mér liggur á hjarta varðandi leiklist og menntun. Brillíant reynsla svo ekki sé meira sagt.
Við höfum aðeins verið á faraldsfæti líka. Nokkrar ferðir til London af sérstökum ástæðum. Skruppum svo til Manchester til að hitta Margréti Lilju og Guðný ásamt tveimur vinkonum þeirra. Hitti svo Margréti Lilju aftur í London. Hún og Valli hafa vinninginn um flestar heimsóknir til okkar...hehe..en Valli kom hingað um páskana og svo aftur í maí. Stebba skutla og ástmögur hennar mættu svo á svæðið um miðjan maí. Sú heimsókn var mikið ævintýri og mikið að snúast þá dagana...hehe....say no more.
Í lok apríl skelltum við okkur í útilegu í Nýja-skógi á Suður-Englandi. Það var mikið ævintýri og ótrúlega þægilegt þar sem ákveðinn aðili sá um að frökenin hefði það í alla staði sem best. Eftir sjö tíma gönguferð kom í ljós óvæntur sólbruni á fólki og átti frökenin sennilega vinninginn í húðskemmdum. Varð að aflýsa mikilvægum fundi með pínlegri afsökun um svæsinn sólbruna. Tjallanum fannst það svakalega merkilegt og fékk ég hrikalega mikla samúð auk þess sem þetta opnaði fyrir óendanlega möguleika fyrir þá til að ræða um veðrið. Á Englandi og Íslandi, bæði sjálfstætt og í samhengi við veðurfar í öðrum löndum og jafnvel fjarlægum heimsálfum. Mikið gaman... það besta var að þegar bruninn breyttist í örlitla slikju af „úti-tekningu“ þá voru allir í því að kommenta hvað ég væri brúúún....hehe...ekkert smá krúttlegt.
Valli og Kalli mættu svo helgina eftir Stevo og þá var aðeins tekið á faraldsfætinum. Bara gaman að því. Í augnablikinu eru svo amma og afi í Blokkinni hjá okkur og það skal ég segja ykkur er nú bara draumur í dós. Mikil notalegheit og pilturinn ungi alveg eins og sannkallaður prins. Við erum með bíl á leigu og get ég nú státað af því að aka um enska vegi og alltaf í „vitlausa“ átt. Við höfum skroppið á ýmsa staði í nágrenninu á milli þess sem ég fer í tíma, samvinnuverkefni og á bókasafnið.
Prinsinn ungi er á leið til Frakklands á morgun með skólanum. Í dagsferð með frönskukennaranum. Bara spennandi fyrir hann en mikið held ég að naflastrengurinn verði teygður þegar líða fer á þann daginn og bara best að reyna að halda sér að verki til að ærast ekki úr aðskilnaðarkvíða og vansælu.
Jæja, ég ætla að reyna að lesa John O´Toole aðeins áður en ég fer á námskeið í leikstjórn og hreyfingum. Bara skemmtilegt.
Lifið heil!