Dússý f. 25.júlí 1953, d. 20. nóvember 2007
Í dag, þann 20. nóvember er eitt ár liðið síðan elskulega mamma mín kvaddi þennan heim. Hún fékk langþráða hvíld eftir hetjulega baráttu við þjáningar og ætlaði sér alls ekki að gefast upp fyrir sjúkdómnum. Guð minn góður hvað ég sakna hennar. Ég skil ekki hvernig við fórum í gegnum þetta ár án hennar. Við erum á ágætu róli en lífið er auðvitað ekki samt án hennar. Hennar mun alltaf verða saknað í öllum okkar gleði og sorgarstundum. Sumir segja að maður verði fullorðinn þegar maður missir foreldri. Kannski er það rétt en mér finnst ég ennþá hálfgerður krakki. Ég reyni þó að tileinka mér sitthvað af hennar vísdómi. Hún var klettur lífs míns og hún er það í reynd ennþá. Það er svo oft sem ég get ímyndað mér hvað hún myndi segja eða gera við ákveðnum aðstæðum. Ég reyni að fylgja því og trúi að sál hennar hvíli í friði og að andi hennar vaki yfir mér og fjölskyldunni minni.
Ég hef margt að lifa fyrir, ekki síst í hennar minningu. Ég veit að hún væri stolt af mér og Valla Kalla. Honum sérstaklega.
Í kvöld ætlum við að útbúa kjötbollur að hætti Ömmu Dússý. Sá stutti bað um það og það fær hann. Við ætlum að kveikja á kertum og biðja fyrir ömmu í himnaríki. Ég held að það verði góð stund.
Lifið heil!