dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

fimmtudagur, október 30, 2008

Marsalaborg

Ég hélt að flugvélin myndi hrapa á leiðinni. Skyndilega upphófst þessi ægilega ókyrrð í lofti og í sama mund hljóðnuðu hreyflar vélarinnar. Guð minn góður hugsaði ég, þetta er okkar síðasta ferð. Hvernig datt mér í hug að bóka far með lággjaldaflugfélagi?? Sem betur fer þá fór vélin aftur að hafa hátt og ókyrrðin lagaðist. Mér var samt ekki alveg rótt fyrr en við vorum lent í Marseille.
Við stigum út úr vélinni og vorum fyrst út. Ég svipaðist um eftir honum en sá hann hvergi. Ó mæ god, ég er ekki einu sinni með heimilisfangið og veit ekki hvort hann er með símann sinn....og gengið svona snarbilað eins og það er, ég með 10 sterlingspund í vasanum en ekki eina einustu evru. Bara með kort....sá fyrir mér svimandi fjárhæðir á kortareikningnum ...hótel, matur o.s.frv....
En hjartað tók nettan kipp þegar ég kom auga á hann í mannmergðinni. Hárið á honum var allt í óreiðu en andlitið uppljómað í brosi þegar hann sá að við höfðum komið auga á hann. Hann sá okkur um leið...það var bara ég sem var svo lengi að finna hann. Ég sá það í augunum á honum hvað hann var glaður að sjá okkur. Strákurinn minn var líka greinilega mjög feginn að sjá hann því hann fleygði sér í fangið á honum um leið og honum gafst kostur á.
Koss og faðmlög og svo beint í strætó inn í miðborg Marseille (Marsalir? Getur verið að Íslendingar þýði það þannig?). Guð minn góður þvílíkur viðbjóður sem þessi borg virtist vera. Ekkert nema niðurníddar byggingar og veggjakrot um allt!! Hvernig er það, ætli Geir Jón og félagar viti af þessu?
En sem betur fer þá skánaði umhverfið töluvert þegar í miðborgina var komið. Lífið á götunum er ekkert líkt eyjunni minni. Og heldur ekkert líkt London, New York eða Kalkútta. Kannski blanda af öllu þessu.
Við gengum saman niður tröppurnar á aðalbrautarstöðinni í átt að íbúðinni hans Piérre. Við komum á lítið torg sem geymir útimarkað og alls konar litlar skrítnar búllur. Drasl á götunum, hróp og köll, ys og þys. Fólk út um allt, alls konar fólk, alls konar lykt í loftinu; nýbakað brauð, ilmandi pizzur og alls kyns framandi matur, sætabrauð, kaffi, ferskur fiskur, kjöt, ávextir og grænmeti, rusl, ryk, skolp, sviti, klístur, hráki, bleyta á götunum, ræsi, blóm og krydd og ilmvatn. Allt samanblandað í einn undarlega sætklístraðan keim sem í sömu andrá er fráhrindandi og unaðslega heillandi.
Hann opnaði þriggja metra háa útidyrahurðina sem snýr að markaðnum. Gólfið er svo sigið að hurðin opnast ekki nema hálfa leið. Við gengum í gegnum flísalagt andyrið. Nokkrar flísarnar eru brotnar og lykt af smurningi, ryki, sagga, mat og mannverum leggur fyrir vitin. Við gengum upp sigin þrepin upp á þriðju hæð. Það er lyfta en við ákváðum að forðast hana. Þegar hún fer í gang upphefst sækóstefið fræga. Gæti sent hroll í gegnum dauða manneskju. Hehe...
Við komum inn í víðáttumikla íbúðina. Fjögurra metra lofthæð og óteljandi hurðir. Hver hurð er máluð í sitthvorum litnum. Berir stofuveggirnir þjóna sem gestabók þar sem gestum og gangandi er boðið að skrifa eða teikna á veggina. Sonur minn er mjög áhugasamur um þessa veggi og fer stax að huga að því hvort honum gefist kostur á að skrifa eitthvað.
Íbúðin ber með sér að þar býr karlmaður. Fjölskyldumaður reyndar en fjölskyldan býr í París og hann notar íbúðina bara þegar hann er í vinnunni í Marseille, býr annars í París. Hann leyfir víst oft doktorsnemum og gestaprófessorum að gista þarna....þetta er greinilega piparsveinaíbúð. A man´s territory but without the intention of bringing home women. Það passar algjörlega. En það er allt til alls og mér er eiginlega alveg sama þó það sé ryk í hornum og kakkalakkar og köngulær einhvers staðar á sveimi. Við redduðum moskítóplágunni með kúlum, fylltum baneitruðum vökva, sem stungið var í rafmagnsinnstungu með þeim afleiðingum að moskítóflugurnar létu sig hverfa fljótlega. Mér tókst þó að næla mér í eitt lítið bit á úlnliðinn rétt áður en við höfðum rænu á að stinga í samband.
Við hvíldum okkur lítillega en fórum síðan í leiðangur niður að höfn. Ég get ekki sagt að mér hafi liðið sérstaklega vel í allri þessari mannmergð. Finnst alltaf frekar óþægilegt þegar ókunnugir strjúkast upp við mig og hef á tilfinningunni að veskið mitt muni hverfa á hverri stundu. En ónotatilfinningin hvarf fljótt. Við áttum yndislega máltíð niðri við höfnina og lögðumst þreytt til hvílu þegar heim var komið.
Laugardagurinn byrjaði fremur letilega. Ég fór í leiðangur á markaðinn og keypti baguette og grænmeti í salat til að hafa í hádegismat. Ljúft og gott og fremur dæmigert bara.
Síðar um kvöldið komu Piérre og sonur hans Cédric sem er 10 ára. Þeir ætla að vera hjá okkur fram á þriðjudagskvöld. Drengirnir náðu vel saman þrátt fyrir að hvorugur skildi mikið í tungumáli hins. En einhvern veginn gátu þeir skilið hvorn annan. Svona eru börn ótrúlega flink.
Sunnudagsmorgun og við erum komin niður að höfn. Fórum í góða gönguferð til að skoða gamalt klaustur sem gegndi hlutverki sjúkrahúss áður fyrr. Gengum svo um borð í litla ferju sem ferjaði okkur í kringum nærliggjandi eyjar og klettavíkur. Þvílík fegurð. Hafið svo tærblátt og klettarnir svo skínandi hvítir.
Eftir stutta hvíld að siglingunni lokinni höldum við á sjávarréttamarkaðinn sem er aðeins neðar í götunni okkar. Sá er samtengdur veitingahúsi sem framreiðir ostrur og fleira sjávarfang. Karlpeningurinn tekur vel á ostrunum og öðrum skelfiski. Þeir kunna augljóslega að meta það sem á borðum er en ég er hálfgerð pannsla og horfi bara á ostrurnar á meðan ég narta í snigla og flís af reyktum laxi. Mér líður soldið eins og gungu þar sem ég þori ekki að taka sénsinn á að ostrur og annar hrár skelfiskur framkalli ofnæmisviðbrögð á við hörpuskelfisk. En er ánægð með að strákarnir mínir njóta sín vel.
Mánudagsmorgun og við tökum neðanjarðarlestina og svo strætisvagn áleiðis að Luminy. Þar er ætlunin að fara í gönguferð niður klettana að sjónum með strákana áður en stærðfræðingarnir þurfa að fara að reikna.
Við prílum niður snarbratta klettana í átt að sjónum. Ég er á spariskóm. Af þeirri tegundinni sem ég þarf ekki að skammast mín fyrir við fínni tilefni en get þó þrammað á í stórborgum. Þeir eru þó ekkert sérstakir í klettaklifri og þurftu þeir nokkrum sinnum að fjúka og berar tærnar gerðu meira gagn til að komast heil á höldnu niður brattann. Prílið er algjörlega fyrirhafnarinnar virði þar sem við sjóinn er hægt að flatmaga á klettunum og stinga sér til sunds í grænbláu Miðjarðarhafinu. Strákarnir njóta sín vel að busla í sjónum og eru hressir og glaðir þegar upp er komið. Leiðin upp er einhvern veginn ekki eins brött þá leiðina en reyndi meira á lungun þar sem um er að ræða yfir 200 metra hæð og töluverðan bratta.
Allt hófst þetta þó að lokum og fyrr en varir erum við stödd í Pizzaria Etienne sem er staðsett í öngstræti nálægt höfninni. Staðurinn er ekki með neinn matseðil heldur er það þjónsins að ákveða hvað maður fær að borða. Forrétturinn er marseillönsk pizza og fannst stúlkunni að við hlytum að kunna að meta ansjósur og ost ofan á okkar pizzu. Jú, hún hafði bara rétt fyrir sér. Þetta var ljómandi gott og mjög forvitnilegt allt saman. Við máttum velja af þrennu í aðalrétt og svo af þrennu í eftirrétt. Við höfðum heldur ekki hugmynd um endanlegt verð fyrr en við vorum búin að borða. Geri nú ráð fyrir að við hefðum getað spurt... Ótrúlega skondin upplifun. Algjörlega utan ferðamannastaða og þéttsetinn bekkurinn. Afskaplega lókal eitthvað og það er nú einmitt það sem mér finnst svo skemmtilegta.
Þriðjudagur og við erum enn á ný á leið að Luminy. Í dag er úrhellisrigning og engin smá rigning. Hálfgerð regnskógarúrkoma. Í þetta sinn förum við til Luminy til að vinna. Eftir þó nokkra fyrirhöfn hefur honum Edda mínum tekist að útvega VK píanó til að æfa sig á. Við fáum afnot af gamalli kapellu sem hefur verið breytt í fyrirlestra/funda sal. Sonurinn má nota litla flygilinn í horninu og ég get stungið fartölvunni í samband og unnið að minni langsóttu lokaritgerð. Regnið bylur á þakinu og loftið er ískalt. En það er þægileg tilfinning í loftinu og ég nýt þess að sitja þarna og skrifa. Tónlist sonar míns og regndroparnir mynda umgjörð um vinnuna sem líkist ævintýri. Ég trúi varla að við séum hérna. Þetta er svo ólíkt því sem við eigum að venjast. Líkist meira draumum mínum og loftköstulum en raunveruleikanum.
Um kvöldið þurftu Piérre og Cédric að ferðast aftur til Parísar. Það voru fallegar vinakveðjurnar hjá þeim yngri og þó nokkur eymd að þurfa að láta sér félagskap okkar duga það sem eftir er dvalarinnar hér. En það er sennilega ekki svo slæmt þar sem við höfum nóg að gera og á morgun förum við aftur til Luminy til að vinna.