dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

sunnudagur, október 29, 2006

What a wonderful world...





Þessi var tekin af toppi Eldfells að morgni þess 18. október sl.

Hvílík dásemd sem kennslukonustarfið getur verið...:-)

Lífsins áminning og lystisemdir með piparkeim...

Enn og aftur fær maður harkalega áminningu um að lifa lífinu á meðan maður er lifandi. Það er erfitt að horfast í augu við hverfulleika lífsins og njóta lystisemda þess um leið. En svoleiðis er þetta og maður staldrar við og hugsar sinn gang.

Kennslukonustarfið hefur gengið bærilega og gleðst ég með varkárni yfir þeim framförum sem maður hefur orðið vitni að.*hehe*

Piparkornin komu saman eftir dágott hlé síðastliðið föstudagskvöld viðstöddum til mikillar gleði. Fröken Áróra sá um að framreiða dýrindis humar (varpaði skugga yfir Fjöruborðið) og meðlæti ásamt því að hella ljúfengu hvítvíni í Ritzenhoff glös af bestu gerð...Írska kaffið með vanilluís toppaði svo herlegheitin og hljóp maður heim undir morgun í rokinu...hehe

London bíður mín handan við helgina og Helgi vonandi líka...með tebolla í hönd eða eitthvað álíka. Annars verður þetta stutt gaman en vonandi mjög skemmtilegt. Búið að plana fimmtudagskvöldið og annað í vinnslu...say no more!

Ég hlustaði á Veröld Soffíu í Ríkisútvarpinu í dag. Þeir eru að flytja leikgerðina á sunnudögum. Þetta er snilld. Saga heimspekinnar er sett fram í skemmtilega sögu sem heldur manni alveg. Verð að útvega mér bókina bráðum.
Ég skil Soffíu mjög vel. Mér finnst heimspekingar rosalega spennandi eða réttara sagt að tala við þá. Eins og Kela vin minn til dæmis.

Jæja, best að ljúka þessari óheimspekilegu færslu hið fyrsta.

Lifið heil!

sunnudagur, október 08, 2006

Stóri bróðir...



Októbermánuður byrjar vel hjá okkur! Í gær varð sonur minn STÓRI bróðir. Ekkert smá stoltur. Hann er ótrúlega fallegur sá stutti og verður spennandi að sjá hvort hann muni líkjast bróður sínum þegar fram líða stundir. Við látum hér fylgja myndir af bræðrunum, svona í tilefni dagsins.