dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

föstudagur, mars 17, 2006

Nývöknuð á miðnætti...

Eina ferðina enn er kominn föstudagur og meira að segja næstum liðinn. Ég trúi því varla hvað tíminn líður hratt en það er svo sem ágætt.

Ég horfði á Idolið í kvöld og verð nú að segja að ekki heillaðist ég af einu einasta lagi. Eitthvað annað en um síðustu helgi þegar big bandið var með. Þá fannst mér allir mjög flottir og gaman að heyra í frábærum hljóðfæraleikurum. Reyndar var hljómsveit kvöldsins í kvöld skipuð eðaltónlistarfólki en mér fannst söngvararnir ekki ná sér á strik. En það er bara mín skoðun.

Ég er eiginlega nývöknuð því mér tókst að sofna með prinsinum en reif mig á fætur til að missa ekki algerlega af kvöldinu. Undanfarin kvöld hef ég einmitt verið að sofna með honum og vakna svona klukkan tvö eða hálf fjögur til að slökkva ljósin og taka úr þvottavélinni. Algjör hörmung. Maður verður bara þreyttari fyrir vikið.
En semsagt næstum miðnætti á föstudagskvöldi, ég nývöknuð og hef svo ekki neitt að gera þannig lagað. Ekkert sem ég nenni. Hversu glatað er það? En svona er þetta. Það verður nú eitthvað líflegra vonandi annað kvöld.

Undanfarið hef ég verið að hugsa um skoðanaheldni fólks. Mér finnst svo sniðugt hvað fólk stendur mismunandi fast á skoðunum sínum og er mis-umburðarlynt gagnvart skoðunum annarra. Ég á það til að þegja þegar fólk er í ham og málefnin eru mér ekki hjarfólgin. Bara svona til að halda frið. Stundum er ekki hægt að rökræða suma hluti. En það er bara ég. Svo þegar málefnin standa mér nærri þá get ég verið þrjóskari en sonur minn. Enda sverfur stundum í stálið okkar í milli. En það erum bara við. :-)

Jæja ég held ég fari bara aftur að sofa kæru vinir.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Sumir eru bara þannig að þeir hafa alltaf rétt fyrir sér... ég nenni ekki að eyða tíma í að rökræða við svoleiðis fólk. Fyrir utan það hvað mér þykir ofboðslega leiðinlegt að rífast við fólk... svo er bara oft gott að eiga sínar skoðanir í friði.. maður er þá ekki skotinn á færi - sá vægir sem vitið hefur.

2:07 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Svo eru það hinir sem eru alltaf sammála þeim hópi sem þeir eru í. Það er sagt já við öllu bara til að vera hluti af heild.

10:37 e.h.  
Blogger Ásgerður said...

Hæ Keli, Það er náttúrulega óþolandi að tala við einhvern sem er sammála manni og svo heyrir maður af allt öðru áliti hjá sama aðila. Hef unnið með svoleiðis týpu og stundum leiddi þessi "ávani" til vandræðalegra atvika.

1:19 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home