dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

laugardagur, júní 17, 2006

17. júní

Sonur minn er að heiman aðra helgina í röð. Fannst svona rosalega skemmtilegt í borginni að hann fékk að fara aftur. Svolítið skrítið heimmilislífið án hans. En maður notar náttúrulega tækifærið og bregður sér ef bæ. Ég fór með Stevo á Þrastarlund í svona hálftíma í gærkvöldi. Það var bara fínt. Stelpa og strákur að syngja og spila á gítar. Fannst ég pínu vera í útlöndum. En ekki lengi. Fórum svo í sveitina til Stevo og drukkum saman eina hvítvínsflösku. Þetta var bara skemmtilegt.

Þjóðhátíðardagur Íslendinga hefur verið mjög rólegur heima hjá mér. Var eiginlega búin að ákveða að það yrði úrhellisrigning sem lemdi gluggarúðurnar mínar. Bara svo ég hefði góða afsökun til að vera heima og lesa undir teppi. En svei mér þá, sólin er bara farin að skína. Í dag er líka svolítið merkilegur dagur í mínu lífi, fyrir utan sjálfstæði okkar. Í dag eru nákvæmlega 8 ár síðan ég endurheimti Brian minn aftur eftir 8 ára fjarveru. Vá hvað ég er fegin að hann birtist aftur þann 17.júní 1998. Og allt var eins og það var áður en hann fór aftur til Bandaríkjanna í lok júlí 1990. Vá hvað það var tregablandin kveðjustund. Ég efaðist aldrei um að við myndum hittast fljótlega aftur. Ameríka var þá eitthvað svo rosalega langt í burtu. Ég man að við eyddum síðasta kvöldinu okkar saman heima hjá Gústa vini okkar. Við vorum þar svo oft í "samviskusnakki" undir stjórn Kela vinar míns.(Hvernig væri að smala saman í svoleiðis aftur Keli minn. Svona alþjóðlegt samviskusnakk? Við gætum verið hvar sem er í veröldinn því að ætli við séum ekki orðin ansi fá sem enn búum hér á Íslandi). Þetta kvöld var rigning og þoka minnir mig. Alla vega í sál minni. Ég man sérlega vel eftir að við hlustuðum á Leonard Cohen þetta kvöld og lagið Hey, that´s no way to say goodbye átti eitthvað svo vel við þrátt fyrir að fjalla um einnar nætur elskendur. Jæja seint um nóttina fórum við í göngutúr og ég man eftir kveðjufaðmlaginu á götuhorni. Vá hvað það var erfitt. En svo leið tíminn og við skrifuðumst á og hringdum nokkur rándýr símtöl. Svo heyrðist ekki frá honum í langan tíma. Ég sendi honum samt alltaf jólakort. Þangað til að það kom til baka eitt árið merkt: returned to sender, address unknown. Þá hélt ég að hann hlyti að vera dáinn. Ég var búin að ákveða að gera mér ferð út einhvern daginn og leita að honum. Eða fá dauða hans staðfestann. Vá, hvað maður var dramatískur á þessum árum. En ég meina hvað átti maður að halda eiginlega?

Brian var svo fljótur að eigna sér stað í hjarta mínu að ég skil það eiginlega ekki. Það héldu margir að við værum par og okkur fannst það allt í lagi. Gerðum jafnvel stundum í því að láta fólk halda það. En það var nú ansi fjarri sannleikanum. *Hehehe*

Alla vega á þeim rigningardegi 17.júni 1998, hringdi síminn heima hjá okkur Sigga og hann svaraði.Hann rétti mér símann furðu lostinn á svipinn og hélt fyrir símtólið og hvíslaði: það er einhver ferlega skrítinn náungi að spyrja eftir þér. Nú segi ég og svara. Siggi áttaði sig á því hver þetta var þegar ég sagði nafnið en hann hélt án gríns að maðurinn væri íslenskur en bara svolítið málhaltur.Svo góð var íslenskan hans eftir 8 ár. Og ekki nóg með það að greyið reyndi nokkrum sinnum að hringja upp í sundlaug en þar var alltaf skellt á hann því að konan hélt að það væri verið að stríða henni. Heyrði ekki hreiminn en auðvitað talaði hann öðruvísi en við. Það endaði með því að hann fór upp eftir og svipurinn á konunni var óborganlegur. *hehehe*
Við höfum haldið sambandi síðan og sem betur fer náð að hittast nokkrum sinnum. En ekki alveg nógu oft, ekki frekar en við Sóley sem er búin að búa í Ameríku í 9 ár bráðum. En í dag er orðið svo einfalt að halda góðu sambandi við fólk yfir hnöttinn þveran og endilangan. Sem dæmi um það fékk ég orginal uppskrift að Margaritu drykk (án mix-ins) frá útlöndum í dag. Tók ekki langan tíma, kannski tvær mínútur. Best ég fræði ykkur um það hér og nú að maður er orðinn frægur að endemum fyrir þetta Margaritu sull. Reyndar er Margarita einn besti drykkur sem ég fæ (ásamt Mojito) og það er ekki vitlaust að fá þetta allt á hreint. Maður hefur soldið verið að sulla með þetta eftir tilfinnningunni einni saman. Ég á það reyndar til að bragðbæta hana með smá sódavatni en þá er það orðin allt önnur Magga. But here goes:

1 skot tequila
minna en 1/3 skot Triple Sec, eða annar appelsínulíkjör
1 lime pr. drykk
Lime eða sítrónusafi, eða frosið lemonade í dós
sykur eftir smekk
klaki

Endilega prófið. Þetta er bara gott.

(Vonandi verður skemmtilegt í gæsapartíinu stúlkur mínar! Ef þetta verður til vandræða þá hringið þið bara í mig! *hehehe*)

Að lokum: Sagan um Garreth var byggð á sönnum atburðum en augljóslega færð í stílinn. Nöfnum og atburðum var breytt til að vernda saklausar sálir. Ég finn mig tilneydda til að deila með ykkur nokkru sem einn leynilesari þessarar síðu spurði frænku mína að (þegar aðeins fyrsti hluti sögunnar um Garreth hafði verið birtur). Hva, er Ása bara að slá sér upp með einhverjum Íra? Bara snilld.
P.S. ég var reyndar þess fullviss um að Garreth væri draumaprinsinn minn i álögum en annað hvort kunni ég ekki að losa hann úr álögunum eða þá að hann var bara réttur og sléttur randafluguræfill...Blessuð sé minning hans.

Anyways, ég ætla að halda áfram að vera í letikasti þangað til ég kveiki upp í grillinu. Það er víst veðrið til þess núna.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Já Ásgerður þetta var þrusu afrek hjá okkur að sturta þessari hvítvínsflösku í okkur :) En hve margir lítrar hún var fer ekki sögum af..... takk fyrir mig :)
Plönum bara meira næst víst að Vk er orðinn svona mikill borgarmaður :)

12:42 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home