dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

laugardagur, júní 10, 2006

Detti mér allar...

Svakalega varð mér bilt við í dag þegar ég heyrði að einhver var að eiga við stofugluggann hjá mér. Hjartað fór að slá á fullu og ég fraus einhvern veginn úr hræðslu. Var einhver kominn til að brjótast inn hjá mér og stela ameríska dótinu mínu? Það var hreinlega eina ástæðan sem ég gat fundið fyrir því að einhver myndi hafa áhuga á að brjótast inn hjá mér. En ég meina það, um hábjartan daginn? Kommon. Væri ekki betra að gera þetta þegar maður er ekki heima eða í það minnsta sofandi? Ég krossaði mig í huganum fyrir það að sonur minn var fjarstaddur þessa helgina. Hann fór til föður síns á fimmtudaginn. Ó mæ gad, what are we going to do. Ég hrökk aftur í kút þegar ég heyrði mikið þrusk við gluggann og svo var honum rykkt upp og skyndilega varð allt hálfdimmt hérna inni. Vá hvað ég var hrædd. Ég fann hjartað slá og gæsahúðina skríða um allan líkamann. Hrikalega þolir maður lítið. Hélt að öll íhugunin hefði gert mig svo rólega í tíðinni að mér brygði nú ekki mikið við eitthvað svona. En þegar maður hugsar út í það þá er það kannski skiljanlegt. Maður er bara einn heima að taka til og svo allt í einu er einhver að brjótast inn hjá manni. Og ætlar að stela ameríkudótinu mínu. Jæja on with the butter eins og einhver sagði einu sinni. Ég stóð alveg hreyfingarlaus þegar glugganum var rykkt upp og það dimmdi hér yfir. Og hjálpi mér, inn klifrar þessi líka gaurinn. Kominn til að bjarga mér frá eilífri einsemd og hryggð. Hann sagðist hafa lesið bloggið mitt og þegar hann sá síðustu færslu (eins og hún lætur nú lítið yfir sér) þá ákvað hann að láta til skarar skríða. Svona gengi þetta ekki lengur. Hann sagðist finna það hvað ég þráði hann heitt. Eins heitt og hann þráði mig. (Ég verð nú að játa það að mér fannst þetta nú svolítið yfirþyrmandi, að mæta bara svona og sálgreina mann á staðnum án þess að það sé neinn aðdragandi eða undirbúningur fyrir mig). Jæja ég gat ekki stillt mig um að benda honum á að það þætti nú svona lágmarkskurteisi að banka á dyr þegar maður ætlaði að heimsækja einhvern. Sérstaklega þegar maður þekkti ekki viðkomandi. Svarið var einfalt. Honum fannst ekki taka því að banka því að þá hefði verið svo auðvelt fyrir mig að loka á hann og þá væri hann búinn að fara fýluferð. Ókei, ég játa að þannig hefði það líklega endað ef hann hefði staðið á tröppunum en ekki inni í stofu hjá mér. En hann hefði ekki einu sinni þurft að banka því að maður er svo sem ekki með allt slálæst þegar maður er heima hjá sér. (sem hefur reyndar stundum komið sér frekar illa...en það er önnur saga). Ég vissi satt að segja ekki hvað skyldi til bragðs taka en ákvað að reyna að öðlast eitthvað af kúlinu aftur með því að róa mig reglulega vel niður. Telja og anda djúpt virkar stundum á mig en ég þarf því miður stundum að telja ansi lengi áður en ég næ mér niður. Anyways, þá virkaði það í þetta sinn, taldi bara upp á svona 40. Svo ákvað ég að spjalla við náungann...ég meina, það er nú ekki á hverjum degi sem einhver brýst inn hjá mér til að bjarga mér frá sjálfsvorkunn og hryggilegri einsemd. Hverjar eru likurnar? Ókei ég byrjaði á að spyrja hann að nafni og aldri. Hann sagðist vera hundgamall (hann lítur samt ekki út fyrir það) og heita Garðar, hann hefði reyndar verið skírður Garreth þar sem hann er hálfur Íri en hafi látið breyta því þegar hann flutti til Íslands 16 ára gamall. Hann er stórmyndarlegur, vöðvastæltur og vel hærður og í hrikalega flottri röndóttri peysu sem hlýtur að vera afleiðing hins írska uppruna. En að útlitinu slepptu þá finnst mér hann svolítið svona agressívur. Ekki ofbeldisfullur, virkar nú ekki svoleiðis á mig, frekar svona náungi sem hættir ekki fyrr hann fær það sem hann vill. Og hann segist vilja mig. Segist vilja flytja inn til mín og allt, en við skulum nú aðeins hugsa okkur um hérna. Dagurinn hefur verið í meira lagi skrítinn því að ég losna ekki við hann. Hann hangir bara við stofugluggann og bíður eftir að ég jafni mig. Ég sagðist aðeins þurfa að vinna smá í tölvunni og er að stelast til að skrifa þetta. Varð bara að tjá mig um þetta. Hjálpar mér að sjá hlutina í réttu ljósi. Ég verð nú að játa það að þegar hann straukst við handlegginn á mér þá fékk ég þessa líka gæsahúðina. Mig langaði eiginlega að reka upp öskur en í staðinn stundi ég bara. Hann hélt auðvitað að það væri af niðurbældri þrá og losta eftir honum. Ég er eiginlega bara hálfsmeyk við hann. Ég veit ekki við hverju ég á að búast. Hann er óeðlilega þögull í augnablikinu þannig að það er líklega best að athuga með hann. Ég ætla samt á ball á eftir. Það er nú einu sinni sjómannadagshelgin. Ég vona að hann verði farinn þegar ég kem heim í nótt. Mig langar ekki til að hafa hann yfir mér í alla nótt og það gengur bara ekki að taka hann með. Hann má koma í heimsókn á morgun og þá kannski getum við byrjað upp á nýtt með því að hann banki á útihurðina mínu fínu. Ég sé hann í gegnum glerið og ræð hvort ég opni fyrir honum eða ekki. *hehe* Ég er að hugsa um að endurnýja gluggajárnin til að svona uppákomur endurtaki sig ekki. Ekki að ég hafi miklar áhyggjur af því svo sem þar sem þetta hlýtur að vera einsdæmi í mínu lífi alla vega.

Framhald á morgun...

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Það er kominn morgun..... ég bíð.. vaknaðu og settu inn framhaldið !!!

10:09 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hæ pæ!

9:03 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home