dægurflugur og loftkastalar

dramadrottningarinnar ævintýragjörnu

laugardagur, apríl 15, 2006

Páskahelgi...

Jæja. Þá er páskafríið hálfnað. Búið að vera alveg yndislegur tími hér á bæ. Sonurinn meira og minna búinn að vera að leika með prinsessunni á móti alla dagana. Er þar einmitt í augnablikinu. Skemmtilegt fyrir þau. Hehe. Á miðvikudagskvöldið fór ég á tónleika með Ragnheiði Gröndal. Frábærir alveg hreint. Þau voru bara þarna tvö systkinin hún og Haukur. Hún söng og spilaði á píanó og hann strippaði...nei spilaði á klarinett og saxófón. Þetta var mjög þjóðlegt og fallegt. Það þarf ekki að taka fram að salurinn er frábær til svona gjörninga. Vonandi gefast fleiri tækifæri til að koma þangað á næstunni.

Fimmtudagurinn fór í að dunda heima við. Var með matarboð fyrir afa og ömmu um kvöldið. Gaf þeim humarsúpu sem var æði þó ég segi sjálf frá. Síðar um kvöldið fékk skemmtilega heimsókn. Stefanía vinkona mín kom með tölvugúru með sér í von um ískaldan öl sem var búið að lofa þeim sem kæmi færandi tæknikunnáttuhendi. En tengingin var sem sagt komin í gagnið þannig að gúrúinn fékk bara öl af því tilefni. Hehe.

Gærdagurinn var með eindæmum próduktífur hjá mér. Byrjaði á að fara á fætur á gjörsamlega ókristilegum tíma (svona miðað við að það var föstudagurinn langi og svona). Saumaði kjól eða búning til að fara í á grímuball um kvöldið. Eldaði quinoa/tofu hádegismat og bakaði afmælisköku handa Valla eldri en hann varð einmitt 53 ára í gær. Eftir þetta var mín alveg búin og lagði sig aðeins. Það eina sem var eftir að gera seinni partinn var að þrengja blessaðan kjólinn aðeins og beið ég eftir að móðir mín kæmi heim úr vinnu til að títuprjóna þrenginguna á bakið á mér. Vildi ekki betur til en svo að saumavélin fór í verkfall. Við erum að tala um overlokk vél með fjórum þráðum og tveimur nálum. Önnur nálin losnaði og þvílíka vesenið að þræða helvítis tvinnan allan aftur. Mér fannst ég með risaputta því að ekki kemst maður að hlutunum þarna án þess að skrúfa hitt og þetta frá og þræða þetta svo með töngum og alles. Jæja mín var orðin svolítið stressuð eftir 40 mínútna púl yfir þessu. En þetta small í gang að lokum og kjóllinn var bara allt í lagi. Ég þóttist vera Morticia Adams og var ég sátt við gallan nema að hárkollan var aðeins að stríða mér. Flæktist endalaust og gat bara gert mann brjálaðan.

Jæja, grímuballið var náttúrulega bara upplifun út af fyrir sig. Ætla ekki að fara nánar út í það en takk fyrir mig drengir. Sérstaklega Kristleifur. Þetta var allt geðveikislega flott. Allt frá móttökunum niðri, myndatökunni og skreytingunum til matarins og skemmtiatriðanna. Diskóið í restina var svo bara fínt þangað til maður dreif sig bara heim að verða þrjú um nóttina.

Í dag var maður náttúrulega alveg öfga hress. Eða þannig. Ekki svo slæmt samt. Leigði nýjustu Harry Potter og horfði með VK. Tók svo Must love dogs og Pride & Prejudice. Búin að horfa á þá fyrri. Bara ágæt. Ætla að geyma P&P þangað til á eftir. Hlakka til að sjá hana.

Jæja elskurnar mínar. Ég ætla að fara að horfa á P&P. Gleðilega páska vinir mínir nær og fjær.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home